13.03.1928
Neðri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla að byrja á þeim þm., sem síðast talaði og jeg hefi sjerstaklegt dálæti á, hv. þm. Barð. (HK). Hann flytur till. um, að stj. verði veitt heimild til að kaupa húseign Einars M. Jónassonar, fyrverandi sýslumanns. Jeg skal játa, að það spillir engu, þótt þessi till. verði samþ., en nú stendur svo sjerstaklega á, að þessi sýslumaður skuldar ríkinu vegna dánarbúa og annars samtals eitthvað um 140 þús. kr., og nemur það miklu meiru en þessi húseign kostar. Þó að þessi maður eigi miklar eignir og búast megi við, að ríkissjóður fái sitt að fullu, verður fyrst gengið að þessu húsi. Stj. hefir gert ítrekaðar tilraunir til að fá Einar til að borga, en það hefir ekki tekist og hann harðlega neitað, svo að annað er ekki að gera en ganga að eignunum. Jeg veit, að hv. þm. hefir ekki vitað, að skuldin var svona mikil, en eins og nú er komið, er till. algerlega þýðingarlaus. Aftur á móti væri sjálfsagt, ef þessi sýslumaður væri að flytjast í annað embætti, að ljetta undir með fráfarandi og aðkomandi embættismanni. En eins og nú stendur á, gerir það hvorki til nje frá, þó að till. verði samþ.

Þá kem jeg að till. þeirra hv. 1. þm. Rang. (EJ), 2. þm. Rang. (GunnS) og háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl), um að endurgreiða Rangárvallasýslu nokkurn hluta af byggingarkostnaði á Holtaveginum. Vil jeg í því sambandi minnast á till. hv. þm. Borgf., (PO) um að endurgreiða Mýra- og Borgarfjarðarsýslum helming viðhalds- og endurbyggingarkostnaðar á Borgarfjarðarbraut. Jeg vil eindregið mæla á móti henni, því að ef hún nær fram að ganga, koma aðrar sýslur með sömu kröfur. Slíkt fordæmi má ekki gefa. Aftur á móti stendur sjerstaklega á með Holta- og Flóavegina. Það er blóðugt ranglæti, ef landið hleypur ekki undir bagga með þessum hjeruðum. Það stendur hvergi eins á. Vegir annara sýslna koma íbúunum sjálfum að mestum notum, og þótt langferðamenn noti þá nokkuð, t. d. í Húnavatnssýslu og Borgarfirði, slíta þeir vegunum ekki að nokkrum mun, þar sem þeir ferðast svo að segja eingöngu á hestum. Um Holta- og Flóavegina fara á hinn bóginn stundum daglega á sumrin hundruð bíla, og má nærri geta, hvað þeir slíta vegunum. Þessir bílar eru að mestu leyti óviðkomandi þessum hjeruðum og í þjónustu Reykvíkinga, sem eru í skemtiferðum á þessum slóðum. Jeg vil því skjóta því til hv. þm. Borgf., hvort ekki sje rjett, að Reykvíkingar borgi þetta slit á vegunum, úr því að það er frá þeim runnið, eða landið fyrir þeirra hönd, þar sem þeir greiða mest í ríkissjóðinn. Auk þess ber á það að líta, að vegarstæði í Holtum og Flóa er hið versta, jarðvegur víða gljúpur og óvenjulegur vatnsagi. Varð að flytja grjót að langar leiðir ofan í vegi þessa, og kostar hver meter í viðgerð þeirra margfalt á við venjulega vegi annarstaðar í landinu. Stj. þvingaði viðkomandi hjeruð til að endurbyggja vegina, og það er fullkomin sanngirniskrafa, að nokkur hluti þess kostnaðar, sem endurbyggingin hafði í för með sjer, verði gefinn eftir. Það geta ekki komið fram hliðstæðar kröfur frá nokkurri sýslu annari. Þessar kröfur Sunnlendinga eru í alla staði rjettlátar, og þótt jeg álíti ekki nema sjálfsagt, að menn borgi skuldir sínar, er það afsakanlegt, þó að Rangæingar hafi ekki greitt þetta nauðungarlán, sem öll sanngirni mælir með, að Reykvíkingar borgi, eða landið í þeirra stað, með því að þeir bera langmesta skattabyrði ríkisins.

Við aðra umr. fjárlaganna fór jeg nokkrum orðum um styrk, sem farið er fram á að veittur verði til Slysavarnafjelagsins. Mjer þótti hann of hár, með því að fjelagið er nýstofnað og ekki til neinar glöggar skýrslur um starfsemi þess. Mjer er nú málið kunnara en áður og að fjelag þetta vinnur að því af alvöru að útvega björgunarbát. Mun hann kosta um 100 þús. kr. Ætlar það að hafa hann í Sandgerði, og getur hann þá náð til Faxaflóa og suðurstrandarinnar austur undir Vestmannaeyjar. Það er reynsla erlendis, að slíkir bátar geta oft bjargað mönnum, þar sem ekki er hægt að bjarga á annan hátt. Brtt. hæstv. atvmrh. er trygging fyrir því, að fjelagið sýni varfærni í öllum aðgerðum sínum.

Ein er sú brtt. hv. 1. þm. Skagf., sem ekki fer í þá sparnaðarátt, sem sá hv. þm. mun vilja láta telja sig hneigjast að. Hann fer þar fram á að gjalda uppgjafapresti nokkuð á 7. þús. kr. fyrir verk, sem allir vita, að hann er ekki fær um að vinna. Jeg skal ekki tala langt mál, en get þó ekki komist hjá að skýra það, hvers vegna stjórnin vill leggja orðabókarstarfið niður og veita manninum styrk í 18. gr., þar sem ýmsir þeir starfsmenn eru taldir, sem þjóðfjelagið telur rjett að styrkja að nokkru.

Þetta orðabókarstarf hefir frá upphafi aldrei verið annað en bitlingur, alt frá því að Jón Ólafsson var ráðinn til að vinna það og til þessa dags. Það hefir einungis verið yfirskin, til að veita mönnum, sem verið hafa í kunningsskap við mikilsmetna þingmenn, opinbert fje. Sá, sem fyrstur naut þessa fjár, var mjög gáfaður maður og hafði óefað meira til brunns að bera en sá, sem lengst hefir verið við verkið. En þegar hann hafði gefið út fyrsta hefti orðabókarinnar, skrifaði prófessor einn við háskólann, Einar Arnórsson, ritdóm um það. Heftið náði aðeins yfir fyrsta stafinn og tæplega þó; þó fann prófessorinn á skömmum tíma 1000 orð, sem vöntuðu í heftið. Þegar svo Jón Ólafsson fjell frá, var alt ónýtt, sem hann hafði gert. En þingið sat eftir með minkunina fyrir að hafa klætt styrkinn til þessa gáfaða manns þessum búningi. Eftir að Jón Ólafsson fjell frá kom til landsins dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði, ágætur málfræðingur og prýðilega til þessa starfs fallinn, ef hann hefði notið fullrar heilsu. En hann hafði þá orðið að láta af kenslu við kennaraskólann sökum heilsubrests, og því var þetta ráð tekið, að láta hann fá orðabókarfjeð sjer til uppeldis. Svo dó hann fáum mánuðum síðar. Þá kemur frá Höfn ungur maður, Jakob meistari Smári, og er látinn hafa styrkinn, ekki vegna þess að nokkur byggist við, að verkinu yrði nokkurntíma komið fyrir hans atbeina, heldur vegna þess, að hann var þá atvinnulaus. Enda ljet hann af þessu starfi strax og embætti losnaði við mentaskólann; var það bæði betur launuð staða og tryggari. En um sama leyti flytur faðir hans til bæjarins og fær styrkinn, sökum kunningsskapar við mikilsmetinn þingmann, sem þá var. Hefir hann haldið honum síðan. Fyrir fáum árum bar jeg fram þá till. í Ed., að norrænudeild háskólans væri fengin til að líta yfir verkið. En þessir sömu kunningjar, þar á meðal Jón heitinn Magnússon, gengu á móti því, að verkið væri skoðað, og var till. feld. Íhaldsmenn í Ed. treystu ekki svo á verkið, að þeir þyrðu að láta líta á það. Það er ekki trygging fyrir neinu, enda hefir verkið aldrei verið tekið alvarlega af neinum þeim, sem vit hefir á. Allir vita, að þetta hefir frá því fyrsta ekki verið annað en framfærslueyrir til manns, sem ekki hefir þekkingu til að vinna verkið. Hliðstæð orðabók Englendinga kostaði margar miljónir króna. Þeir settu sinn lærðasta málfræðing til að hafa ritstjórn bókarinnar á hendi, Íslandsvininn prófessor Craigie, og fengu honum tilstyrk margra lærðra málfræðinga um Bretaveldi. — Það vita allir, að hjer er aðeins persónuleg fjárveiting, dulin undir þessu nafni. En það er miklu heiðarlegra að segja, að þetta sje „humbug“. En hjer er að ræða um gamlan mann fátækan, sem á bágt. Það er mannúðarverk að láta hann hafa ellistyrk, en hann verður að vera í hlutfalli við ellistyrk til annara manna, sem þjóðfjelaginu þykir rjett af einhverjum ástæðum að sjá fyrir. Styrkurinn til hans er settur svipaður styrknum til Guðjóns Guðlaugssonar. Jeg skal ekki fara hjer út í mannjöfnuð; en þó mun það alment viðurkent, að Guðjón hafi unnið áhrifaríkara starf í þágu síns þjóðfjelags heldur en þessi hversdagslegi uppgjafaprestur, sem ekkert vísindalegt rit liggur eftir og ekkert mælir með til orðabókarstarfsins nema það, að hann hefir gaman af íslensku. En það er fjöldi annara manna, sem hefir gaman af íslensku. Það er ákaflega hart að taka óvalinn mann, sem ekkert sjerstaklega nýtilegt liggur eftir, nema embættisverk, sem hafa verið borguð, og setja hann á hlutfallslega hærri laun en Matthías Jochumsson hafði á sínum tíma. Það er heiðarlegt af Alþingi að veita mönnum sem Matthíasi og Einari Benediktssyni heiðurslaun slíka menn á að sæma. En það verður bókstaflega hlægilegt, þegar farið er að taka óvalda miðlungsmenn og setja þá við hlið bestu mönnum þjóðarinnar. Þessi maður er persónulegur kunningi ýmsra flokksmanna hv. 1. þm. Skagf. Pólitískar skoðanir koma þessu máli ekki við. Það voru ekki pólitískar skoðanir Einars Benediktssonar, sem þingið var að verðlauna í fyrra. Jeg er sjálfur andstæður lífsskoðun Einars Benediktssonar og mjög mótfallinn ýmsum persónulegum aðgerðum hans. En það, sem Einar hefir lagt til þjóðfjelagsins sem skáld, það álít jeg, að þjóðin eigi að verðlauna. Jeg skora á hv. 1. þm. Skagf. að koma með þau verðmæti, sem sjera Jóhannes hefir skapað íslenskri þjóð. Jeg spyr hann, hvort hann leyfi sjer að halda því fram, að þetta sje annað en bitlingur. Hvort hann treysti sjer til að leggja verk hans undir dóm sjerfróðra manna. Hvort hann haldi, að nokkrum manni detti í hug, að þótt þessi uppgjafaprestur sje látinn dunda við að orðtaka rit, þá verði það nokkurntíma gefið út. Jeg vil, að hann játi, að þetta er ekki annað en bein og bitlingur handa kunningja hans. Jeg segi ekki, að landið fari á hausinn, þótt till. verði samþykt. En það verður erfitt að spara á launum á Íslandi meðan ekki er hægt að færa í skynsamlegt samræmi styrk til manns, sem er ófær til að gera það verk, sem hann á að vinna, og sem engum manni dettur í hug, að vinni það. Engum manni með þekkingu dettur í hug að leggja þessu máli gott orð. Þá verður erfitt að færa saman embætti — prestsembætti, sýslumannsembætti —, þar sem raunveruleg vinna kemur á móti borguninni. Þetta er langversta till., sem hjer liggur fyrir. Það er sú versta meðferð á fje landsins, sem hjer er farið fram á. Ef við tökum þennan mann á 6300 kr. laun, þá erum við miklu fremur skyldugir til að taka að okkur fjölda annara manna, sem hafa slitið sjer út á störfum fyrir landið.

Önnur till. frá hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. V.-Húnv. er eins vel rökstudd og rjettmæt sem þessi er órjettmæt, og eins og jeg mótmælti hinni, svo vil jeg leggja þessari liðsyrði. Það er brtt. um að veita aukastyrk til tveggja lauga í Húnavatnssýslu og Skagafirði. Að vísu mundu 2000 kr. ef til vill vera nóg. En laugarnar þarf að endurbæta nokkuð enn. Þau hjeruð, sem að þeim standa, Skagfirðingar og Húnvetningar, hafa komið þeim upp með mikilli fórnfýsi. Skagfirðingar hafa lagt í sína laug alt að 16 þús. kr., en Húnvetningar í sína 7–8 þús. kr. Þetta er góð till. Það er engin hætta á að þetta skapi hættulegt fordæmi. Það eru engar laugar, svona dýrar, sem eru komnar jafnlangt, að þær geti ekki komist undir hin betri skilyrði, sem fjárlögin nú festa.

Jeg ætla enn að minnast á eina brtt. Hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Ísaf. hafa komið með till. um að veita bókasafninu á Ísafirði aukastyrk, að því tilskildu, að Guðmundur rithöfundur Hagalín hefði þar bókavörslu. Jeg er þessari till. meðmæltur; álít þetta gott mál. Ef hv. 1. þm. Skagf. hjeldi, að jeg erfði það við þann, er orðabókina á að skrifa, að hann hefir stundum ávarpað mig miður hlýlega í blaðagreinum (MG: Mjer er ekki grunlaust um það.), þá má geta þess, að jeg veit ekki betur en Hagalín hafi skrifað skammagreinar um mig á hverri viku í 3–4 ár. (MG: En hann er hættur nú). Já, en það verður þó varla sagt, að jeg sje að þakka fyrir forn kynni. — En jeg álít, að Guðmundur sje það af okkar yngri söguskáldum, sem hafi einna mest til brunns að bera. Eins og lífsbaráttu rithöfunda á Íslandi er háttað, er ekki auðvelt að láta skáldáfuna koma að notum, ef skáldið hefir ekki einhverja þá atvinnu, sem er gagnleg og getur um leið veitt því lífsuppeldi. Eins og Norðlendingar fengu á þennan hátt besta unga ljóðskáld landsins, Davíð Stefánsson, eins er það gott fyrir Vestfirðinga að fá eitt af efnilegustu söguskáldunum. Þyrftu Austfirðingar svo að fá eitt skáld staðfest hjá sjer. Reykjavík fær altaf án slíkra samninga töluvert af andans mönnum. En í raun og veru væri ekkert við því að segja út af fyrir sig, þótt Austfirðingum væri veittur þessi styrkur, en Guðmundur er maður vestfirskur, og margar bestu sögur hans lýsa einmitt lífi Vestfirðinga og því, sem er sjerkennilegt fyrir þá. Get jeg búist við, að það sje best fyrir skáldgáfu hans, að hann sje búsettur þar.