29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2044)

94. mál, frystihús og bygging nýs kæliskips

Hannes Jónsson*):

Af því að jeg sat í sæti mínu þegar hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hjelt sína tölu, fauk jeg ekki út úr salnum, en vindgusturinn var nú allmikill; en það má nú segja, að það var lítið annað en vindur. Og eina vopnið, sem hann ætlaði að bera á mig, var erindreki Sambandsins á Englandi. En jeg vildi helst ekki, að hann nefndi hann neitt í sambandi við sína þekkingu á þessu máli; það er eins og hvítt og svart. Jeg býst við, að ef hann hefði talað við þennan mæta mann um meðferð kjötsins og komið inn á það, hvernig kjötið var útlítandi, sem kom frá Hvammstanga, þá hefði hann farið dálítið varlegar í því að hæla sjer sjálfum yfir sinni miklu þekkingu á þessu máli og gera lítið úr minni.

Um allan þennan blessaðan útreikning hjá þessum hv. þm. er það að segja, að hann fer mikið til fyrir ofan garð og neðan. Jeg var áður búinn að sýna fram á, að það mætti þrefalda þann útflutning, sem nú á sjer stað, án þess að nokkur hindrun yrði á útflutningi í tveimur ferðum. Svo að það virðist vera nokkur tími til stefnu þangað til þarf að fara að hugsa um það, hvað eigi að gera til þess að halda útflutningnum við.

Jeg nenni ekki að vera að fara í neinar stælur við þennan hv. þm.; jeg gæti gjarnan hvest mig eitthvað líka, en jeg hefi bara frekar litla ánægju af því, eins og ástatt er um skapsmuni hans núna. Það var bara ofsi og rokur hjá þessum hv. þm.; honum hefir oft tekist miklu betur upp, og þá er miklu skemtilegra að eiga orðastað við hann. En eins og jeg tók fram áður, græðir málið svo lítið á því, að jeg svari honum; því að hvað sem hann vill sjálfur segja, þá er þekking hans á þessu máli sama og engin; það getur verið, að hún sje örlítil, en hann fer þá afar vel með hana.

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. (MG) sagði, get jeg verið stuttorður. Hann neitaði því ekki, að saltkjöt gæti verið í hærra verði í Noregi heldur er nýtt kjöt, enda verður því ekki mótmælt. Og meira að segja hefir það selst á síðasta ári það vel, að ekki munar miklu á því og kjötinu, sem seinast seldist á Englandi. Þetta gæti jeg sýnt reikningslega, en þess gerist ekki þörf.

Um skipaþörf Eimskipafjelagsins þarf ekki að deila. Það er margbúið að sýna sig, að skip þess fjelags hafa ekki nægilegt að flytja. Og þó að það sje sagt, að það eigi að vera þjóðarmetnaður hjá okkur að flytja með okkar eigin skipum, þá dugir það ekki í þessu tilfelli. Slíkur þjóðarmetnaður kemur líka fram t. d. hjá Dönum. Þeir láta sín skip sitja fyrir öllum flutningi hingað, og svo eru sumir menn líka þannig gerðir, að þeir hugsa ekkert um neinn þjóðarmetnað í þessum efnum, heldur hugsa um það eitt, hvar þeir geti komist að bestum kjörum.

Þá sagði hv. 1. þm. Skagf. (MG), að jeg hefði mælt á móti frystihúsunum, en það gerði jeg alls ekki, heldur benti jeg á, að þau mættu ekki verða of mörg, og jeg mótmælti þeim og mótmæli enn á þeim stöðum, sem þau eru illa sett. Þessu máli mínu til sönnunar get jeg bent á, hvernig jeg tók í frystihúsmál þeirra Austur-Húnvetninga, þegar um það var leitað álits hjá mjer. Jeg sagði þeim, sem þar áttu hlut að máli, að þeir skyldu koma frystihúsinu upp, ef þau skilyrði væru fyrir hendi, sem telja yrði nauðsynleg. Jeg lagðist ekki á móti málinu, þó að það hefði verið hagur fyrir fjelag það, sem jeg er viðriðinn, því að síðastliðið haust tókum við fje úr Austur-Húnavatnssýslu, sem nú verður slátrað á Blönduósi. Jeg reyndi alls ekki að spilla fyrir því máli. Annars lít jeg svo á, að það skynsamlegasta, sem hægt er að gera í þessum málum, sje það, að athuga kringum land alt skilyrði fyrir frystihúsum. En þau eru frá mínu sjónarmiði aðallega þrjú. Fyrst og fremst það, að um vænt fje sje að ræða þar, sem frystihúsin eru bygð, því að það skapar kjötinu betra álit. Í öðru lagi þurfa þau að vera á þeim stöðum, að sem flestir geti náð til þeira. Og í þriðja lagi hefir það mikla þýðingu, að þau sjeu sett þar, sem hafnir eru góðar, svo að kostnaður við útskipun á kjötinu verði sem minstur, og jafnframt að skip þurfi ekki að bíða þar lengi, því að það er allmiklum vandkvæðum bundið að skipa út frosnu kjöti.

Annars má vel vera, að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) geti fundið út formúlu fyrir þessum hlutum, en hún þarf þá að minsta kosti að vera ábyggilegri en sú, sem hann fann upp í dag, þegar hann komst að þeirri niðurstöðu, að 4X15 væru 45.

Um afstöðu mína til þessara frystihúsmála get jeg ennfremur tekið það fram, að auk þess sem jeg hefi reynt að leiðbeina sýslungum mínum í þessum efnum, þá hefi jeg líka svarað fyrirspurnum um eitt og annað þessum málum viðvíkjandi, sem til mín hafa borist, bæði frá Austur- og Norðurlandi og víðar. Jeg er alls ekki að gera mjer háar vonir um, að þær upplýsingar, sem jeg þannig hefi gefið, hafi mikla þýðingu, en þá þýðingu vona jeg samt að þær hafi, að þeir, sem þær hafa fengið, lendi ekki á sama skerinu og við, sem fyrstir urðum til þess að reisa frystihús, því að það er alls ekki sama, hvernig frystihúsbyggingunum er háttað. Menn skyldu því fara varlega í þessum efnum og gæta þess vel, að hin nauðsynlegustu skilyrði sjeu að minsta kosti fyrir hendi, áður en ráðist er í framkvæmdirnar. Jeg fyrir mitt leyti tel hyggilegast, að þessum málum þoki hægt og hægt áfram undir stjórn framsýnna manna, sem þegar hafa mikið um þau hugsað, manna, sem ekki þurfa að fá upplýsingar um það hjá Alþingi, hvernig þeir eigi að snúa sjer í þeim.

(* Ræðuhandr. óyfirlesið.)