05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2076)

115. mál, hagskýrslur

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg tók það svo, sem hv. frsm. (JÞ) beindi til mín áskorun um að stuðla að því, að þetta verk verði framkvæmt. Það er sjálfsagt æskilegt, að svo geti orðið. En jeg vil benda á, að það hefir kostnað í för með sjer. Jeg skal minna á, að þegar fyrv. fjmrh. lagði svo fyrir, að sýslumenn skyldu safna skýrslum þessum úti um land, þá hefir orðið vart við það, að sýslumennirnir hafa viljað fá nokkuð fyrir þessa skýrslusöfnun, og eru þeir sífelt að gera kröfur um, að sjer sje vangoldið fyrir þetta starf. Reikningar eru sífelt að koma, og er erfitt að gera upp á milli þess, hvað hæfilegt má teljast. Jeg hafði gert ráð fyrir því, að fyrv. fjmrh. hefði gert þessa reikninga upp að fullu, en því fer fjarri, að svo muni hafa verið, því margar kröfur hafa komið fram um, að þetta sje vangoldið, og það ekki alllitlar upphæðir, sem sumir gera kröfu um. Mjer þótti rjett að benda á þetta nú, til að sýna það, að þetta er ekki alveg kostnaðarlaust. Og þar sem svo mikið orð hefir verið gert á því, hvað núverandi stjórn væri bruðlunarsöm, þá vil jeg benda á, að eitthvað af ábyrgðinni af þessum kostnaði ætti þó að falla á herðar hv. 3. landsk. (JÞ). Og jeg vil þá jafnframt nota tækifærið til að spyrja um það, hvaðan hv. 3. landsk. komi vitneskja um það, að jeg hafi bætt mönnum í fjármáladeildina stjórnarráðinu, og með hvaða rjetti þessi hv. þm. (JÞ) ber slíkt á borð í blaði sínu. En hið sanna er, að engum starfsmanni hefir verið bætt við, en tveir af starfsmönnum þeirrar deildar hafa verið veikir í vetur. Annar fór til útlanda til að leita sjer heilsubótar. Hinn, skrifstofustjórinn sjálfur, hefir verið rúmfastur öðru hverju og er það nú. Enginn hefir verið tekinn í þeirra stað. Eru því alger öfugmæli, að við hafi verið bætt, þar sem starfsmönnum hefir í raun og veru fækkað. Vona jeg að hv. 3. landsk. (JÞ) upplýsi, hvernig á þessari frásögn stendur.