11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (2097)

161. mál, gildi íslenskra peninga

Jón Baldvinsson:

Það er rjett hjá hv. flm. (HStef) að hvorki till. nje ræða hans gefur tilefni til deilu um málið. eins og það liggur fyrir. Jeg vil þó segja það að þótt till. sje meinlaus. getur hún þó — eins og hún er orðuð — bakað ríkissjóði áhættu, því að í niðurlagi hennar er lagt fyrir stj. að halda genginu óbreyttu, þar til þetta er komið í lag. Þetta getur þýtt það að ríkissjóður eigi að hlaupa í skörðin og hjálpa bönkunum með því að kaupa erlenda mynt, eins og gert var 1924– 1925.

Hv. flm. vjek að því, að stjórnin ætti að leita til gengisnefndar um undirbúning í máli þessu. Jeg skal leyfa mjer að benda á, að sú nefnd er mjög einhliða skipuð. Í henni eiga aðallega sæti fulltrúar útflytjenda, en neytendur eiga þar ekki neitt sæti, og eru þeir þó ekki lítill hluti landsmanna. Jeg vil víkja því til hæstv. stjórnar, að hún við undirbúning málsins, ef til kemur, taki einnig til ráða menn, sem gæta hagsmuna neytenda í landinu, en ekki einungis framleiðendur.

Þá vildi jeg víkja því til hæstv. forseta, hvort hann sæi sjer ekki fært að bera till. upp í tvennu lagi. Hún fjallar

eiginlega um tvent, sem vel má greina í sundur, í fyrsta lagi um það, að fara skuli fram rannsókn til endanlegrar skipunar á gildi íslenskra peninga, og í öðru lagi felur hún í sjer áskorun um að halda gildi þeirra óbreyttu þangað til sú rannsókn hafi farið fram. Jeg hygg, að till. megi vel bera upp í tvennu lagi þannig að orðin í síðustu línu „enda . . . óbreyttu“ verði borin upp sjerstaklega. Vel getur verið, að einhverjir geti ekki fallist á þau orð, þótt þeir gætu greitt fyrri hluta till. atkv., en í honum felst það aðalatriði, sem vakir fyrir flm.