11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2098)

161. mál, gildi íslenskra peninga

Jón Þorláksson:

Þegar till. á þskj. 532 var útbýtt. reyndi jeg árangurslaust að vera mjer grein fyrir, hvað feldist í meginmáli hennar. Till. er svo orðuð að ekki er hægt að sjá hvort hún er fram borin af stýfingarmönnum eða gullkrónumönnum. Af nöfnum flm. má ráða, að hún eigi að fara í stýfingarátt. Eftir að hafa hlýtt á framsögu flm. (HStef) hlýt jeg að skoða till. einungis sem innanhússmál stjórnarflokkanna. Það er eðlilegt, að stjórnin undirbúi þau mál, og þá einkanlega vandamálin, sem uppi eru í hennar tíð. Og því er ekki að leyna, að lággengi pappírspeninganna er vandamál, sem bíður úrlausnar. En hitt finst mjer ekki hafa verið nauðsynlegt, að tveir hv. þm. úr Framsókn komi fram fyrir þingheim til að mælast til þess, að stjórnin athugi málið. Það hefðu þeir getað nefnt við hana á flokksfundi.

Þó var það einn þáttur í ræðu hv. flm. (HStef), sem mjer finst ástæða til að viðurkenna. Það eru þau ummæli hans, að hann og aðrir stýfingarmenn ljetu sjer best lynda þau endalok þessa máls,_ að við byggjum áfram við sömu mynt og við höfðum, fengjum gullkrónuna aftur og hjeldum hinu norræna myntsambandi. Þessi ummæli hv. flm. vil jeg taka undir.

En hjer er farið fram á að fela málið í hendur stjórnarinnar, sem hefir marglýst sig, ef ekki andvíga, þá að minsta kosti lausa við áhuga á því, að lággengistímabilið endi með þeirri niðurstöðu, sem hv. flm. tjáði sjer geðfelda.

Ef innan Framsóknarflokksins væri almennur vilji í sömu átt og hjá hv. flm., þá álít jeg, að gerandi væri tilraun til samkomulags um leiðina að því takmarki. Því þetta er það takmark, sem við hækkunarmenn höfum altaf stefnt að. Jeg álít, að oft hafi milliþinganefnd verið skipuð í mál, sem ekki skifti svo miklu sem þetta. Jeg ætla ekki að fara fram á að slíkt sje gert, en mjer sýnist lítið unnið við að fá stjórninni málið í hendur.

Í niðurlagi till. er látið í ljós, að þingið telji örugt, að gildi ísl. pappírspeninga verði haldið óbreyttu þar til þessari rannsókn sje lokið. Mjer finst ekki vera ástæða til að gera ályktun um þetta. Þar sem jeg tel fyrri hluta till. ekki beina málinu inn á þá braut, sem jeg tel líklega til góðrar úrlausnar, og seinni partinn óþarfan, þá mun jeg skoða þetta sem innanhússmál hjá stjórnarflokkunum og sitja hjá við atkvæðagreiðslu. Jeg finn ekki ástæðu til að greiða atkvæði móti till., því við gullkrónumenn viljum stefna að festingu pappírspeninganna í því gildi, sem þeir eiga að hafa að lögum.