13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2116)

102. mál, ríkisprentsmiðja

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Jeg flyt þessa till. á þskj. 196 ásamt hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. 2. þm. Rang. (GunnS), þar sem skorað er á ríkisstjórnina að láta gera fyrir næsta þing áætlun um stofnkostnað og starfrækslu ríkisprentsmiðju, er geti annast prentun ríkissjóðs og opinberra stofnana.

Jeg hefi talið saman, hve mikið ríkissjóður hefir greitt fyrir prentun, heftingu og pappír fyrir sig og ýmsar opinberar stofnanir. Eru það samtals 273 þús, kr. á árinu 1926. Langstærsti liðurinn er Alþingistíðindi og Stjórnartíðindi, 98 þús. kr., þá póstur og sími 45 þús. kr., hagstofan og stjórnarráðið 37 þús. kr. og ýmislegt 22 þús. kr., samtals 202 þús. kr., sem borgaðar eru beint úr ríkissjóði. Þá eru ótaldar ýmsar stofnanir, sem reknar eru af hinu opinbera, svo sem Búnaðarfjelagið og Fiskifjelagið 28 þús. kr., Landsbankinn 11 þús. kr., landsverslun og áfengisverslun 9 þús. kr., ýmislegt 11 þús. kr. Enn má telja Eimskipafjelag Íslands, sem nýtur mikils opinbers styrks, með ca. 12 þús. kr. prentkostnað. Þetta er samtals 71 þús. kr. Í flestum liðunum er talið með nokkuð af pappír og heftingu.

Þegar frá eru skilin Alþingis- og Stjórnartíðindi, er mjög mikið af þessu smáprentun, sem greidd er tiltölulega mjög háu verði. Verður hún áreiðanlega miklum mun ódýrari í prentsmiðju, sem ríkið á sjálft.

Jeg hefi aflað mjer upplýsinga um, hvað kosta mundu hingað komnar vjelar, sem annað gætu allri prentun fyrir hið opinbera. Mundu þær kosta hingað komnar og uppsettar ca. 155 þús. kr. íslenskar. Áætlaður rekstrarkostnaður er 175 þús. kr. á ári, en þar er ótalinn pappír. Hinsvegar er ætlað ríflega fyrir afskriftum, og húsaleiga er áætluð 1000 kr. á mánuði.

Hjer hefir nýlega verið samþykt þál., þar sem stjórninni er falið að athuga, hvort ekki muni tiltækilegt að koma á fót öflugu ríkisforlagi. Ef af því verður, má telja sjálfsagt að prenta í ríkisprentsmiðjunni þær bækur, er forlagið gæfi út. Mundi það auka verkefni hennar mikið. Einnig styrkir ríkið nú útkomu fjölda bóka, og væri gott að gera það með afslætti í prentkostnaði, því að sjálfsagt væri, að ríkið sæi um prentun slíkra bóka.

Jeg geri nú ráð fyrir, að hæstv. stj. taki þetta alt til athugunar, ef tillagan verður samþykt. Jafnframt geri jeg ráð fyrir, að athugað verði, hvort tiltækilegra væri að kaupa hjer gamla prentsmiðju eða að stofna nýja. Mætti einkum færa tvenn rök fyrir því, að það fyrra væri haganlegra. Í fyrsta lagi eru til hjerna nógar prentsmiðjur, og í öðru lagi er ætíð nokkur vinningur að taka við starfandi prentsmiðju.

Jeg hygg, að allir hljóti að viðurkenna, að a. m. k. er rjett að athuga þetta mál. Jeg mun ekki gera að umtalsefni, hve haganlegir þeir samningar eru, sem ríkið hefir gert að undanförnu um prentun, eða hvort hægt hefði verið að komast að þeim betri. En eins vil jeg geta, til að sýna, hve haganlegt fyrirkomulagið er. Prentun Alþingis- og Stjórnartíðinda skiftist nú á 4 prentsmiðjur. Skjalapartur Alþt. og Stjórnartíðindi er prentað sitt hvorri prentsmiðju. Nú er það kunnugt, að bæði eru prentuð í skjalapartinum sjálfum og auk þess sjerprentuð í nokkrum eintökum öll þau lög, er þingið afgreiðir. Síðan er þetta lesmál „lagt af“ og sett að nýju í annari prentsmiðju, sem stjórnin hefir samið við um prentun Stjórnartíðinda. En prentun laganna í Stjórnartíðindunum byrjan skömmu eftir þinglok. Þetta og annað eins kæmi ekki fyrir, ef hvorttveggja væri prentað í prentsmiðju ríkisins.