14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Sigurðsson:

Jeg á hjer brtt. ásamt þremur öðrum hv. þm. á þskj. 468. Það er styrkur til Magnúsar Þorlákssonar á Blikastöðum til kenslu í verklegri búfræði. Það hefir verið á það drepið hjer í hv. deild, hve ónóg búnaðarkenslan væri, sjerstaklega á verklega sviðinu. Það er nú svo, að þær breytingar á búnaðarháttum, sem nú eiga sjer stað, eru að verða stórstígari með hverju ári og útheimta venjulega meiri kunnáttu en áður, meðan sama búskaparlag var og sömu tæki notuð eins og fyrir 100 árum síðan. Með breyttum búnaðarháttum koma vitanlega ný verkfæri og margt annað nýtt, sem þeir, er upp taka, verða að kynna sjer rækilega til þess að ekki fari alt í handaskolum. Það er hlutverk búnaðarfræðslunnar að veita þekkingu í þessum efnum, og sjerstaklega þeirrar verklegu. Við getum litið til nágrannaþjóðar okkar Norðmanna og tekið þá til fyrirmyndar. Í Norður-Noregi hefir til skamms tíma verið líkt ástand um búnaðarháttu og hjer, en á síðustu árum verið gert talsvert til umbóta. Og eitt af því, sem þar hefir verið gert, er að koma á kenslu eða námsskeiðum, þar sem höfuðáherslan er lögð á verklega kenslu. En jafnframt eru piltar, sem þess óska, teknir til eins vetrar náms, og þá aðaláherslan lögð á, að kenslan sje sem hagnýtust á öllum sviðum, — valið úr það hagnýta, sem hinir bestu og fullkomnustu búnaðarskólar kenna.

Mjer vitanlega hefir aldrei verið gerð nein tilraun með þetta hjer á landi, en nú er sú hugmynd í ráði, sem farið er fram á fjárstyrk til. Það vill svo vel til, að hjer eru þrír menn, sem hafa tekið höndum saman um þetta. Eru það þeir Magnús Þorláksson bóndi á Blikastöðum, Theodór Arnbjarnarson ráðunautur Búnaðarfjelags Íslands og Árni Eylands, sömuleiðis ráðunautur Búnaðarfjelagsins. Það vita allir, að þessir menn eru hinir ágætustu hver á sínu sviði og landskunnir. Má þess vegna vænta mikils af þeim öllum. Við flutningsmenn gerum okkur jafnvel von um, að ef þessi tilraun hepnast, gæti það orðið til þess að gera straumbreytingu í okkar búnaðarskólamálum, — að það yrði ekki lengur látið lenda við orðin tóm með verklega kenslu, heldur verði farið að ganga að framkvæmdum af alefli.

Jeg vona, að jeg þurfi ekki að hafa lengri framsögu, enda gerist nú allhávært í deildinni. Jeg treysti því, að allir, sem búnaði unna og óska honum velgengni, geti stutt þessa till.

En áður en jeg lýk máli mínu, langar mig að víkja fáeinum orðum að hæstv. atvmrh. Mjer er sagt, að hann hafi ráðist á okkur hv. þm. Borgf. (PO) í Ed. vegna þess fyrirvara, sem við höfðum við nál. fjvn. fyrir 2. umræðu. Jeg get ekki neitað því, að mjer hefði fundist það drengilegra, að hann hefði gert það hjer í þessari deild, þar sem við áttum kost á að bera hönd fyrir höfuð okkar, þar sem þetta var einmitt til umræðu við 2. umr. Þó að ýmsu hafi nú verið vikið bæði að mjer og hv. þm. Borgf., þá er það samt svo ennþá, að okkur er dálítið nýtt að heyra því haldið fram, að við sýnum samviskulaust ábyrgðarleysi og að við sjeum fjárglæframenn þjóðfjelagsins. Nú hefir fjvn. öll orðið sammála um að flytja þær till. til samgöngubóta, sem við hv. þm. Borgf. bendum til í nál., og við kunnum meiri hl. bestu þakkir fyrir þær undirtektir. En um leið og nefndin gerir þetta, er hún vitanlega öll komin í þá sömu fordæmingu sem við hv. þm. Borgf. Þá er það ekki nema eðlilegt, að meiri hl., vegna afstöðu hæstv. stjórnar, reyni að láta líta svo út, sem það hafi verið fengið meira öryggi fyrir framgangi tekjuaukafrumvarpanna, er hann gekk inn á þessi auknu útgjöld, heldur en átti sjer stað við 2. umræðu. Jeg verð að segja, að mjer er ekki kunnugt um þetta öryggi, eða að nein breyting hafi orðið frá því að 2. umr. fór fram og þangað til nefndin tók sína ákvörðun, nema ef ætti að telja það, að hv. 5. landsk. (JBald) hefir sagt eitthvað í þá átt, að hann myndi vilja stuðla eitthvað að tekjuauka, — það ætti þá að hafa verið goðsvarið, sem Framsóknarmenn biðu eftir. Í mínum augum er þessi óvissa um samþykt tekjuaukafrv. ekkert annað en tylliástæða, sem hæstv. stj. hefir notað til þess að leiða athygli frá því, að á sama tíma og hún sker stórkostlega niður til verklegra framkvæmda, samgöngubóta í sveitum, þá leitar hún heimildar til þess að leggja tvöfalt hærri upphæð í húsaskrokka hjer í Reykjavík og nágrenni.

Í þessu sambandi mun hæstv. fjmrh. hafa minst á, hver nauðsyn væri að skila fjárlögum tekjuhallalausum. Ætla jeg síst af öllu að gera lítið úr því, ef álíka varfærni er viðhöfð á öðrum sviðum. En tekjuhallalaus fjárlög hafa ekki mikla þýðingu, þegar afgreiddar eru útgjaldatill. utan fjárl., sem nema líklega yfir 3 milj. kr. Þegar litið er á þetta, hvað er það þá, sem hefir gefið hæstv. atvmrh. og blaði stjórnarinnar tilefni til þess að bregða okkur hv. þm. Borgf. um samviskulaust ábyrgðarleysi gagnvart fjármálunum? Við höfum haldið fram kröfum sveitanna um auknar samgöngubætur, brýr, vegi og síma. Við höfum talið þessar umbætur svo nauðsynlegar, að við höfum haldið því fram, að þær ættu að sitja fyrir öllu, og það jafnvel svo, að þær ættu að komast inn í fjárlög, þótt hugsanlegt væri, að af því leiddi einhvern áætlaðan tekjuhalla. Þetta kallar stjórnin og blöð hennar samviskulaust ábyrgðarleysi og fjárglæfra. Það er auðsjeð, að þetta er bændastjórn! Nú er þess að geta, að eins og jeg áður sagði, lögðum við aðeins til, að stjórninni væri heimilað í fjárlögum að verja 200–300 þús. kr. í viðbót við núverandi áætlaða upphæð í fjárlögum til samgöngubóta. Með öðrum orðum, hæstv. stjórn væri heimilt að fresta framkvæmdum, ef ekki er fje fyrir hendi, eins og jeg tók skýrt fram við 2. umr. Ef þetta eru fjárglæfrar, — hvaða orð eru nógu sterk í okkar tungu til að lýsa fjármálastefnu hæstv. stjórnar, sem á sama tíma leitar heimildar til útgjalda, þarfra og óþarfra, sem nema áreiðanlega nokkuð yfir 3 milj. kr.? Jeg hygg, að þau sjeu ekki til í okkar tungu. Við fjárveitinganefndarmenn eigum síður en svo ámæli skilið. Við höfum þvert á móti bent hæstv. stjórn á þá leið, sem hún áreiðanlega átti að fara. Hún og meiri hl. nefndarinnar hafa orðið að taka tillögur okkar til greina og hagað sjer eftir því. Betra er seint en aldrei, og ber henni að vísu þakkir fyrir það.