16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (2156)

147. mál, berklavarnalög

Haraldur Guðmundsson:

Jeg hefi ekki beinlínis á móti þessari till., eftir að flm. (JörB) hefir fylgt henni úr garði eins og hann gerði. En ef tilgangurinn er sá, að hindra það eitt, að þeir fái styrk, sem ekki þurfa hans með, þá er hún óþörf. Mig minnir ekki betur en að í berklavarnalögunum standi, að stjórnin eigi að sjá um, að fjeð sje eigi misnotað á þann hátt, að þeir njóti styrks, er ekki þurfa hans.

Í þessu sambandi ska] jeg geta þess, að þegar menn eru að telja eftir fjárútlát ríkissjóðs vegna berklavarnalaganna, þá mega menn ekki gleyma því, að þó hætt sje að greiða kostnaðinn úr ríkissjóði, þá fellur hann samt sem áður á landsmenn. En sjúkrahúsin munu reynast ódýrari og langtum öruggari verustaður handa sjúklingunum heldur en heimilin, svo að kostnaðurinn verður síst minni, ef sjúklingarnir hverfa þaðan og sýkingarhættan margföld.

Þess verður einnig að gæta, að berklavarnirnar eru ekki orðnar til vegna sjúklinganna sjálfra, heldur einmitt vegna hinna heilbrigðu. Það er verið að forða þeim frá veikinni. Því er fullkomin sanngirni í því, að þeir greiði kostnaðinn. sem sagt, jeg er ekki beinlínis á móti till., eftir að hv. flm. (JörB) hefir mælt fyrir henni. En mjer finst hún óþörf. Stjórnin hefir þetta mál í höndum sjer samkvæmt núgildandi berklavarnalögum. Það á að nægja.