16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (2170)

137. mál, veðurspár

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Við höfum, hv. þm. Borgf. (PO) og jeg, flutt hjer till. til þál. á þskj. 365, þar sem þess er farið á leit, að Nd. skori á ríkisstjórnina að rannsaka, hvað valda muni því, að veðurspár veðurstofunnar hafa gengið ver eftir nú en í fyrra, og ráða bót á því, sem aflaga fer í því efni, eftir því sem unt er.

Þessi tillaga er fram komin út af umkvörtunum yfir óáreiðanleika veðurspánna, aðallega í janúar og febrúar þessa árs. Þessar umkvartanir munu flestar hafa komið frá sjómönnum í Vestmannaeyjum. Mjer var t. d. tilkynt það gegnum síma, að menn væru mjög óánægðir með þær og þætti þær gefast ver en í fyrra. Jeg var nú satt að segja tregur til að fara að skifta mjer nokkuð af því máli, öðruvísi en ef fullvíst væri, að það væri virkilega ástæða til þess.

Það, sem hefir gerst í málinu síðan, er það, að bæði útgerðarmenn í Vestmannaeyjum og eins sjómannafjelagið hafa samþykt áskoranir til þingsins út af þessu, og ber hvorumtveggja saman um það, að veðurspárnar hafi reynst miklu miður nú en í fyrra. Auk þess fór fram dálítil rannsókn, sem björgunarfjelagið stóð fyrir, á því, hvernig spárnar reyndust dagana frá 8.–15. febrúar, að báðum dögum meðtöldum. Jeg get tekið það fram, að því er þessa rannsókn snertir, að hún sýndi töluverðar misfellur á spánum. Það kom þar fram, að þær rættust ekki ávalt sem skyldi. En jeg vil líka taka það fram í þessu sambandi, að það er fyrst og fremst ekki neitt undarlegt, þótt veðurspár kunni að mistakast, og svo hefir fulltrúinn í veðurstofunni sagt mjer, að einmitt þessa daga, sem voru valdir af handahófi hafi verið mjög erfitt að spá um veður. Það verður ávalt að hafa augun opin fyrir því, hve erfiðleikarnir eru miklir.

Eins og kunnugt er, hefir veðurstofan hjer starfað í nær 8 ár, og á þeim árum hefir orðið ákaflega mikil breyting á aðstöðu manna til veðráttu yfir höfuð. Nú er komið í það horf hjer á landi, eins og annarsstaðar fyrir löngu, að veðurstofan gefur út spá um það, hvernig veðrið muni verða næstu dægur. Þetta var t. d. í fyrra í Vestmannaeyjum nokkuð nýtt, og björgunarfjelagið hagnýtti þessar veðurspár sem einn lið í sinni starfsemi, með mjög blessunarríkum árangri. Menn bygðu mjög á þeim, af því að þær þóttu, sjerstaklega á vertíðinni, gefast mjög vel, en þetta ár er sem menn hafi orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum í því efni. Nú vil jeg taka það fram, að kvartanir eru ekki aðeins frá Vestmannaeyjum. Samskonar umkvartanir hafa líka komið frá Akranesi, og í Sandgerði hafa menn líka verið mjög óánægðir yfir því, hve illa veðurspárnar hafi reynst.

Þá má og bæta því við, að útvarpsstöðin hjer, sem hafði mikið með útvarp veðurspánna að gera, hefir líka látið þess getið, að togaraskipstjórar hafi mjög kvartað yfir þessum veðurspám. Það ber hjer alt að sama brunni, að það hefir af einhverjum ástæðum tekist ver með spárnar nú en í fyrra. Þessar kvartanir hafa náttúrlega komið til veðurstofunnar, og fulltrúinn þar gerði einskonar rannsókn eða samanburð á því, hvernig þær hafa reynst á sama tímabili 1927 og þetta ár, og eftir útkomunni á hans rannsókn fær hann það út, að eftir því hefðu þær átt að reynast fyllilega eins góðar nú og í fyrra. Hann segir t. d., að árið 1927 hafi veðurspárnar fyrir næstu nótt reynst rjettar í 86 tilfellum af 100 að því er vindátt snerti, og í 71 tilfelli af 100 að því er veðurhæðina snerti, en á sama tíma þetta ár hafa spárnar reynst rjettar í 88 tilfellum af 100 að því er vindátt snerti, og 86 tilfellum af 100 með veðurhæð, svo að þetta ætti þá að vera snögt um betra heldur en var í fyrra. En þetta kemur ákaflega illa heim við þá reynslu, sem sjómennirnir hafa haft.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að því, hvernig ástatt er nú í veðurstofunni. Fyrst ætla jeg að segja frá því., sem óhjákvæmilegt er í því efni, að hæstv. forsrh. (TrÞ) ljeði mjer góðfúslega skjöl, sem snerta þetta mál og komið hafa til stjórnarráðsins frá veðurstofunni, og það, sem jeg segi um ástandið, er úr þeim skjölum.

Forstjóri veðurstofunnar gerði annan útreikning á sama tímabili og fulltrúinn, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að árið 1927 hefði í 78 tilfellum af 100 verið rjett spáð fyrir næstu nótt um vindátt og í 72 af 100 hvað veðurhæð snerti, en í ár, á sama tímabili, hafi verið rjett spáð um vindátt í 58 tilfellum af 100, en í 66 tilfellum af 100 um veðurhæð, og hafi þannig í ár verið mun lakari útkoma á veðurspánum. En þetta er algerlega öfugt við niðurstöðu fulltrúans, svo að maður veit naumast, hvað hægt er að leggja upp úr þeim athugunum, sem gerðar eru um veðurspárnar. Hætt er við, að útreikningar þessir sjeu þannig, að ekki sje gott að reiða sig á þá til fulls. Að minsta kosti ber þessi prófun forstjóra og fulltrúa vott um það, þar sem þeir fara báðir eftir sömu gögnum, en komast þó að þveröfugri niðurstöðu, enda er víst, að veðurskeytin fara mjög eftir persónulegu áliti þess, er hefir prófun þeirra á hendi.

Það skiftir miklu máli, að almenningur hafi traust á stofnun þeirri, er skeytin sendir, svo miklu, að segja má, að not almennings af veðurspám sjeu undir þessu trausti komin. En þetta traust hefir einmitt minkað mjög í vetur, eins og þær kvartanir, sem fram hafa komið, bera með sjer.

Jeg vil nú lesa upp nokkur orð úr álitsskjali forstjóra veðurstofunnar. Þar segir svo:

„Það, sem í rauninni skiftir mestu máli hjer, er, hve mikil not almenningur hefir af veðurspánum, og þar sem hjer liggur fyrir umkvörtun frá Sjómannafjelagi Vestmannaeyja, er það óneitanlega bending í þá átt, að veðurspárnar hafi upp á síðkastið eigi verið jafngóðar og æskilegt væri. Í þessari umkvörtun eru engin dæmi greind, sem sýni, hvenær og á hvern hátt spárnar hafi mistekist, og þess vegna er ekki hægt að dæma um einstök atriði. Jeg hefi sjálfur gert mjer nokkurt far um að athuga á hverjum degi, hvernig veðurspárnar takast, og verð því miður að játa, að þær hafa stundum brugðist tilfinnanlega, og ekki síður í vetur en áður. Þótt jeg hafi skrifað hjá mjer nokkur dæmi upp á rangar veðurspár, sleppi jeg að tilgreina þau hjer í þetta sinn. . . . . Af þeim útreikningum, sem jeg hefi gert yfir veðurspárnar í jan. 1927 og 1928, af umkvörtun almennings og af því, hve oft jeg hefi veitt því eftirtekt, að veðrið hafi orðið öðruvísi en veðurspáin sagði, verð jeg að hallast að þeirri skoðun, að veðurspárnar í vetur hafi eigi verið betri en þær voru í fyrra, og að sumu leyti jafnvel lakari. Veðurfregnir hafa í vetur fengist betri, einkum frá Grænlandi, en það ætti að vera mikill styrkur. Hinsvegar var í fyrravetur, vegna veðurlags, óvenjulega gott að spá, en í vetur fremur erfitt. Sjálfsagt á þetta nokkurn þátt í því, að veðurspárnar reynast nú lakari en í fyrra. En þegar tillit er tekið til þess, að veðurspámaðurinn getur nú stuðst við miklu meiri persónulega reynslu, hefði mátt búast við því, að það, ásamt bættum veðurfregnum, hefði meira en vegið á móti auknum erfiðleikum vegna breytts tíðarfars, en reynslan virðist hafa orðið önnur“.

Bæði forstjóra og fulltrúa ber saman um það, að tíðarfar hafi verið örðugra viðfangs fyrir veðurspádóma í vetur en í fyrravetur. En hinsvegar hafa verið stöðugar veðurfregnir frá Grænlandi í vetur, en þær fregnir voru óábyggilegar í fyrra. Fulltrúinn, sem staðið hefir fyrir veðurspánum í vetur, heldur því fram, að kvartanir sjómanna í vetur byggist á því, að þeir sjeu farnir að gera of háar kröfur til veðurspánna. Vegna þess, að spárnar hafi reynst vel undanfarið, sjeu þeir farnir að vænta meira af þeim e.n sanngjarnt er. Þessu áliti fulltrúans verð jeg að mótmæla. Þegar stundir líða fram, verður almenningsálitið besti dómurinn um það, hversu spárnar gefist. Prófun sjerfræðinga verður ávalt nokkuð lituð af persónulegum skoðunum þeirra, en þeir, sem verða daglega að ráðgast við skeytin, fá það á tilfinninguna, hvort veðurspárnar eru notandi eða ekki. Jeg hygg, að óhætt sje að álíta, eftir kvörtunum þeim, sem borist hafa frá togaraskipstjórum og sjómönnum í Vestmannaeyjum og á Akranesi, að veðurspárnar í ár hafi gefist töluvert ver en í fyrra.

Þá er að leita orsakanna til þess, og geta þær verið ýmsar. Þær geta verið fólgnar í algerlega tekniskum atriðum, t. d. hvar eigi að draga línuna á milli almennra veðurfregna og stormfregna, og gæti verið eitthvað fleira, sem athuga þyrfti, hvort eigi gæti valdið misskilningi. Og enn er eitt atriði, sem ekki er hægt að komast hjá að minnast á, þótt sorglegt sje, og það er, að samvinna starfsmanna í veðurstofunni, sem þyrfti að vera meiri og betri þar en víðast hvar annarsstaðar, er mjög í molum eða alls engin. Þetta er eitthvert alvarlegasta atriðið. Í brjefum þeim frá veðurstofunni til stjórnarráðsins, sem hæstv. forsrh. (TrÞ) hefir lánað mjer, kemur þessi sundurþykkja á milli forstjóra veðurstofunnar og fulltrúa hans mjög berlega í ljós. Forstjórinn kvartar yfir því hvað eftir annað, hvernig fulltrúinn komi fram. Vil jeg vitna í eitt af þessum brjefum til að sýna, hvernig ástandið er. Í brjefi dagsettu 19. jan. þ. á. skrifar forstjórinn til stjórnarráðsins:

„Hjer með leyfi jeg mjer að kvarta yfir framkomu fulltrúans á veðurstofunni, hr. Jóns Eyþórssonar.

Eins og hinu háa ráðuneyti mun kunnugt, hefir þessi starfsmaður veðurstofunnar stundum hagað orðum sínum og athöfnum þannig, að jeg hefi álitið, að hann hafi stórlega brotið á móti þeim skyldum, sem á honum hvíla stöðu hans vegna sem fulltrúa á veðurstofunni. Má í því samhengi minna á skrif hans í 8, og 10. blaði Ægis árið 1927, og svo hefir hann neitað eða haft undandrátt með að framkvæma störf, sem forstöðumaður veðurstofunnar hefir falið honum að gera. Jeg hefi þó eigi hingað til formlega klagað yfir þessu, í þeirri von, að hann bætti ráð sitt, en nú virðist mjer auðsætt, að hann ætli að ganga. enn þá lengra á þeirri braut og virða að vettugi fyrirmæli og vilja forstöðumannsins og fara aðeins eftir því, sem honum sjálfum gott þykir, án tillits til þess, hverjar afleiðingar slíkt framferði hefir fyrir veðurstofuna“.

Þetta brjef er lengra og endar þannig:

„Vænti jeg, að hið háa stjórnarráð taki mál þetta til ákvörðunar hið allra fyrsta, því að framferði fulltrúans háir nú mjög öllum störfum veðurstofunnar“.

Svo mörg eru þau orð. Jeg tel ekki þörf á að lesa upp fleiri kafla um þetta efni, en þeir eru nógir fyrir hendi. Hjer kemur ljóst fram, hvernig samvinnan er, að hún er engin eða verri en engin, og að forstjóri hefir oft kvartað undan framkomu fulltrúa við stjórnarráðið.

Þetta er svo alvarlegt atriði, að full ástæða er til að ætla, að af þessu ósamkomulagi og samvinnuleysi stafi að miklu leyti þær misfellur, sem orðið hafa á starfi veðurstofunnar undanfarið. Forstjóri veðurstofunnar tjáði mjer, að samvinnan hefði gengið þolanlega fram að áramótum, en þá hefði fulltrúi innleitt nýja aðferð til að merkja veðurskeyti á kort og knúið þá aðferð fram í forboði forstjóra. Þetta geki; svo langt í fyrstu, að fulltrúi þurkaði út merki forstjóra og setti önnur í staðinn. Jeg skal ekki dæma um, hvor merkjasetningin er heppilegri. En hjer er um breytta starfsaðferð að ræða, sem fulltrúi hefir knúið fram í skrifstofunni í forboði yfirmanns síns. Þetta ástand er alvarlegt og þarf lagfæring- ar hið bráðasta.

Eftir núgildandi fjárlögum kostar veðurstofan ríkið 50 þús. kr. á ári. Þing og stjórn hafa lagst á eitt um að gera stofnun þessa svo fullkomna sem unt er, til gagns fyrir atvinnurekendur landsins. Og það er alveg vafalaust, að þessi stofnun getur orðið að miklu gagni. Það kom best í ljós í fyrra. Í Vestmannaeyjum, þar sem jeg er kunnugastur, komu skeytin að stórmiklu gagni, og svo veit jeg að var víðar. Jeg veit bæði af umsögn og eigin reynd, að veðurspárnar hafa forðað mönnum frá hrakningum, tjóni á veiðarfærum og skipum og jafnvel líftjóni. Því ömurlegra er, að ástandið skuli vera svo nú, er stofnunin hefir betri aðstöðu en áður, að mest af misfellunum skuli stafa af ósamkomulagi og samvinnuleysi þessara tveggja mætu manna, forstjóra og fulltrúa.

Jeg veit ekki til, að hæstv. stjórn hafi gert neitt í málinu, og er henni það máske nokkur vorkunn, því að það er ógaman fyrir hvaða húsbónda sem er að eiga að ráða fram úr slíku ástandi, en þó er alveg óhjákvæmilegt, að það verði gert. Það er hið mesta hættuspil að láta dragast að kippa þessu í lag hið bráðasta. Það er í senn hættulegt fyrir veðurspárnar og þá, sem eiga að njóta þeirra.

Jeg hefi viljað sýna fram á, að nauðsynlegt sje, að hæstv. stjórn láti þetta mál til sín taka og gangist fyrir rannsókn á því, hvað valdi þeim óáreiðanleik veðurspánna í vetur, sem kvartanir hafa borist um víðsvegar að, og geri það, sem hægt er, til að ráða bót á vandkvæðum þessum. Jeg þykist vera viss um, að stjórnin hafi góðan vilja, en þegar þess er gætt, hve miklu er kostað til þessarar stofnunar af almannafje, virðist eigi nema rjett, að þingið hlutist til um, að rannsókn fari fram.

Jeg skal taka það fram, að kvartanir hafa ekki komið fram upp á síðkastið, síðan veður fóru að batna, enda er síður aðgætt, hvort spár rætist, þegar veðurfar er gott. Kvartanirnar komu fram, er veður voru hættulegust í vetur, og það er víst, að þær voru á rökum bygðar.

Úr því að veðurstofan gat sent frá sjer nokkurnveginn ábyggileg veðurskeyti í fyrra, með því ljelega sambandi, sem þá var við Grænland, þá hefðu veðurspárnar í ár átt að geta batnað með auknum og bættum veðurfregnum þaðan, ef ekki valda aðrar ástæður, sem ekki ætti að vera til að dreifa í opinberri stofnun.

Vona jeg svo, að deildin taki þessu máli vel og láti það fá fljóta afgreiðslu.