14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Jeg stend upp til þess að svara nokkrum athugasemdum, sem gerðar hafa verið við ræðu mína í gær. Fyrst ætla jeg að víkja að hv. 2. þm. Árn. (MT). Hann hóf ræðu sína, að því leyti, sem hún snerist um brtt. mína viðvíkjandi eftirgjöf á Flóavegarláninu, með því, að erfitt væri að skilja hugsanaferil minn í þessu máli. Eiginlega virtist honum jeg ekki hafa komið auga á neitt annað en eftirgjöfina á láni til vegarins. Jeg býst við, að hv. þm. sje lítil þægð í, að þessari tillögu hafi verið veitt sjerstök eftirtekt. Það má segja um mig: Leyfist kettinum að líta á kónginn. Hv. þm. verður að sætta sig við, að till. verði veitt eftirtekt. Og það, sem veldur því, er það, að farið er inn á þá braut, sem er fullkomlega athugaverð. Það er sama þó hv. þm. og hæstv. ráðh. krossi sig og segi, að þetta skapi ekki fordæmi. Það gerir það samt. En um leið og hv. 2. þm. Árn. neitar því, að þetta skapi fordæmi, viðurkennir hann og lýsir yfir því, að Rangæingar eigi sanngirniskröfu á því að fá eftirgjöf í sömu átt. Háttv. þm. var nógu strangur gagnvart kröfum Rangæinga og öðrum kröfum, sem fram komu við 2. umr. um þetta, en nú, eftir að liðin er rúm vika, lýsir hann yfir því, að hann sje albúinn til þess að greiða atkvæði með því, að þær kröfur nái fram að ganga. Hann er með öðrum orðum búinn að — lýsa yfir því, að eftirgjöfin hafi skapað fordæmi. Hann játar í öðru orðinu því, sem hann neitar í hinu. Jeg verð að segja, að ef minn hugsanaferill í þessu máli þykir skrykkjóttur, þá er enn skrykkjóttari hugsanaferill hv. 2. þm. Árn. Jeg veit, að hann hefir í upphafi sett sjer það takmark að opna ekki sálarsjón sína fyrir öðrum tillögum í þessa átt en þeim, sem eru til hagsmuna fyrir hans eigið kjördæmi, en hann hefir mist marks með framkomu sinni í gær. Jeg býst við, að þar sem ekki þurfti lengri tíma en raun varð á til þess að breyta skoðunum hv. þm. í þessu efni, muni ekki líða ýkjalangur tími, þar til sjóndeildarhringur hans víkkar enn frekar.

Auk þess sem eftirgjöf á Flóavegar-láninu er athyglisvert að því leyti, sem hún skapar fordæmi, voru nokkur orð í ræðu hæstv. fjmrh., sem gera þá tillögu enn athyglisverðari, og mun jeg koma að þeim síðar. En nú kem jeg að höfuðröksemd hv. 2. þm. Árn., sem er sú, að Árnessýsla hafi lagt miklu meira til vegamálanna en aðrar sýslur. Vitnaði hann í skýrslu vegamálastjóra, sem hjer liggur fyrir. Í skýrslunni er samanburður á Árnessýslu og fjórum öðrum sýslum, Gullbringu- og Kjósarsýslu, Rangárvallasýslu, Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu. Hún nær yfir tímabilið 1906-1921. Þar kemur í ljós, að Árnessýsla hefir lagt meira til vegamálanna en hinar fjórar hver um sig, og á því byggir hv. þm., að Árnessýsla hafi orðið harðast úti, og hafi yfirleitt orðið svo hart úti, að hún ein eigi rjett á að fá eftirgjöf. Jeg vil benda á það, og biðja hv. dm. að veita því athygli, að það er síður en svo, að þessi mælikvarði sje einhlítur. Það, sem fyrst verður að athuga, er það, hve mikinn hluta þessa tímabils, frá 1906–1921, hver sýsla hefir notið hagsmuna af þeirri akbraut, sem kostnaðurinn aðallega stafar af. Í þessu sambandi vil jeg benda á nokkur atriði. Byggingu Flóabrautarinnar er lokið fyrir aldamót. Árnessýsla hefir þess vegna notið hagsmuna af brautinni alt þetta tímabil, sem um var getið. Holtabrautinni var lokið skömmu eftir aldamótin. Rangæingar hafa því notið hagsmuna af brautinni alt tímabilið. Borgarfjarðarbrautinni er ekki lokið fyr en 1915. Borgfirðingar njóta því ekki hagsmuna af brautinni að öllu leyti nema 2/5 hluta tímabilsins. Aðalvegalagningarinnar í Gullbringu- og Kjósarsýslu — hjer suður með sjó — nýtur Kjósarsýsla ekki nema nokkurn hluta þessa tímabils. Það virðist því leiða af sjálfu sjer, þegar farið er að vega það, hvaða sýslur hafi orðið harðast úti, að ekki fæst rjettur grundvöllur, nema metinn sje kostnaður sýslnanna við vegabætur annarsvegar og hagsmunir sýslnanna af vegunum hinsvegar. Nú er það vitað, að Árnesingar og að nokkru leyti Rangæingar hafa fyrstir manna hjer á landi notið hagsmuna af flutningabrautum, sem bygðar eru fyrir ríkisfje eingöngu. En hinar sýslurnar, sem jeg gat um, njóta þessara hagsmuna bara tæpan helming þess tímabils, sem um er að ræða. Þegar þetta er athugað og þess er gætt, að kostnaður sýslnanna af vegaviðhaldi er ekki nema lítið brot af þeim hagsbótum, sem akvegasamband er fyrir hjeruðin, sýnist ályktun hv. 2. þm. Árn. alveg hafa snúist við. Það er staðreynd, að þau hjeruð, sem fyrst fengu akvegi, hafa orðið best úti, en hin, sem lengst hafa orðið að bíða, verða verst úti. Ef þetta mál er athugað á rjettum grundvelli, er ályktun hv. 2. þm. Árn., sem tekið var undir af tveim hæstv. ráðherrum, hrundið. Jeg get því látið það, sem jeg hefi nú sagt, nægja sem svar við ræðum beggja hæstv. ráðherra, að öðru leyti en því, að jeg þarf að svara hæstv. fjmrh. nokkrum orðum um lánsupphæðina. Út af því, sem hv. 2. þm. Árn. sagði um endurbyggingu Flóavegarins, að hún hefði verið valdboð, sem sýslubúar hefðu alls ekki óskað eftir, verð jeg að segja það, að það valdboð er fram komið af því, að Árnesingar höfðu ekki int af hendi þær skyldur, sem þeir höfðu tekið sjer á herðar um að halda veginum við. Valdboð var þetta ekki framar því, að gengið var eftir, að haldnir væru gerðir samningar. Hv. þm. talaði um það bæði nú og við 2. umr., en þá gafst mjer ekki tækifæri til að svara honum, að Árnesingar hefðu orðið mjög hart úti síðustu árin, þar sem á þeim hvíldi viðhald vegarins. Eins og kunnugt er, fór endurbygging Flóabrautarinnar fram 1920–1922. Á þessum árum var alt viðhald á brautinni borgað úr ríkissjóði í sömu hlutföllum og byggingarkostnaður, að 2/3 hlutum. Þá þarf að athuga, hvernig fer um viðhaldið á tímabilinu frá því að endurbyggingunni var lokið og þar til brautin var gerð að þjóðvegi, sem jeg ætla, að hafi verið 1925. Jeg vil skjóta því hjer inn, að auk þess, sem viðhald var greitt að 2/3 hlutum, voru lagðar í veginn 27 þúsund krónur árið 1920 í sambandi við konungskomuna. En ekkert var greitt á móti frá hjeraðinu. Viðhald vegarins 1923, 1924 og 1925 er þá þannig, að ríkissjóður leggur fram 1923 474 krónur, 1924 7305 kr. og 1925 6844 krónur. Jeg veit ekki, hvort viðhaldskostnaðurinn var meiri en þetta. En jeg hefi sýnt fram á, að þarna hefir ríkissjóður líka lagt fram allmikið af mörkum til viðhaldsins. Jeg hefi sýnt fram á, að Árnessýsla hefir á þessum árum notið sjerrjettinda fram yfir aðrar sýslur, sem að fullu og öllu hafa orðið að greiða vegaviðhald á þessum árum.

Jeg er þá búinn að drepa á meginástæðurnar gegn minni tillögu og fyrir því, að ekki sje full sanngirni gagnvart öðrum sýslum að taka Árnessýslu þannig út úr. — [Fundi frestað].

Þegar fundi var frestað áðan, var jeg búinn að tala um aðalástæður hv. 2. þm. Árn. gegn þeirri brtt., sem jeg ber fram við heimild til uppgjafar á Flóavegarláni. Þá á jeg ekki nema nokkur smáatriði í ræðu hans eftir. Hv. þm. gat þess í sambandi við þetta mál og í sambandi við það, að þessi eftirgjöf hefir verið tekin upp í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar, að það gæti ekki orkað tvímælis, sem ríkisstjórnin tæki í fjárlög. Mjer þótti þetta harla einkennileg framsetning, þar sem þessi kenning hv. þm. er í ósamræmi við breytni hans. Hann hefir með öðrum fjárveitinganefndarmanni leyft sjer að gera stórvægilega breyting á fjárlagafrv. eins og það er, eins og kunnugt er, borið fram af hæstv. stjórn. Það hefir því fyrir hans sjónum orkað allmjög tvímælis, hvað tekið hefir verið inn í fjárlög og hvað ekki. Því hefði verið rjettara að takmarka þá heldur þessa staðhæfingu við till. heldur en tala á jafnbreiðum grundvelli og hann gerði.

Þá talaði hv. þm. um vegamálastjóra og þótti honum gert of hátt undir höfði með því að vitna í hans tillögur um vegamál; hann væri ekki fjármálaráðherra, sem og rjett er. En hitt leiðir eigi að síður af sjálfu sjer, að þingmenn verða að leita til hans, ef þeir vilja fá heildaryfirlit yfir vegamál landsins. Hann er sá maður, sem að sjálfsögðu hefir mesta þekkingu og mestan fróðleik um þau efni öll, og hann á að vera ráðunautur þings og stjórnar í þeim sökum.

Loks vjek hv. þm. að athugasemd þeirri, sem jeg hefi borið fram í sambandi við brtt. og ætlast til, að hnýtt verði aftan í eftirgjafartill., ef nokkur verður. Honum þótti það undarlegt að fara að lögbjóða í fjárlögum, hvernig færi um lagningu og viðhald fyrirhugaðra vega á Flóaáveitusvæðinu. Það væri mál, sem heyrði undir sýslumann og sýslunefnd. Það er svo að vísu, en það snertir þó einnig ríkisstjórnina, svo að það er öldungis rjettmætt að setja þetta skilyrði. Þess er krafist áður en veitt er fje úr ríkissjóði til sýsluvega, að sýslunefnd hafi ákveðið, að vegurinn skuli vera sýsluvegur og sýslan taki að öllu að sjer viðhald hans. Virðist mjer full ástæða til að gera slíka samþykt sem hjer er farið fram á. Allur er varinn góður og ekki er að vita, upp á hverju tekið verður næst.

Jeg ætla að mælast til þess, að hæstv. forseti beri upp tvo liði till., a. og b., brtt. sjálfa og athugasemdina sitt í hvoru lagi, svo að hægt sje að greiða atkvæði sjálfstætt um hvorn liðinn fyrir sig. Tel jeg það rjettara eins og málið horfir nú við.

Hv. 2. þm. Árn. sagði við 2. umr. hjerna á dögunum, að Árnesingar væru nokkurskonar fórnardýr landsmanna, þar sem öll þessi tilraunastarfsemi, sem einkent hefir síðustu tíma, hefir verið gerð í Árnessýslu. Árnesingar hefðu fórnað sjer fyrir aðra landshluta og væri nú svo komið, að þeir væru sokknir í framfaraskuldir. En jafnframt lýsti sami hv. þm. því yfir í sambandi við aðra eftirgjöf, er hann var að mæla fyrir, að þeir, sem þar áttu hlut að máli, væru miklu betur stæðir heldur en í gamla daga. Hann hefir lýst ástandinu eins og það er nú í Árnessýslu mjög hörmulega, — tómar framfaraskuldir, sem alla eru að setja á hausinn, en samt segir hann, að þeir sjeu miklu betur stæðir heldur en í gamla daga. Jeg get ekki almennilega samrýmt þetta með sjálfum mjer. Hvernig þetta kann að samrýmast í heila háttv. 2. þm. Árn., veit jeg ekki, en jeg býst við, að sannleikurinn liggi hjer sem oftar mitt á milli öfganna.

Loks skal jeg geta þess í sambandi við það, hvað Árnessýsla þarf að leggja mikið af mörkum til vegamála, þá er mjer óhætt að segja, að það eru víst einar tvær sýslur, sem leggja harðara að sjer en Árnessýsla að þessu leyti. Samkvæmt heimildum, sem jeg hefi í fórum mínum, get jeg rökstutt það, ef á þarf að halda.

Jeg held jeg hafi þá ekki ástæðu til þess að minnast á fleira út af ræðu háttv. 2. þm. Árn. En því næst koma örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh.

Jeg gerði fyrirspurn um það til hæstv. fjmrh., hvernig bæri að skilja það, að ekki er farið fram á að gefa eftir nema kr. 40868,98 af þessu láni, þó vitað sje, að lánið nemur nú alls yfir 50 þús. kr. Jeg gerði fyrirspurn um þetta til hæstv. fjmrh. og hann hefir svarað. Jeg skildi svar hans svo, að þessi hluti lánsins, sem ekki er tilfærður í fjárlögum, skuli líka te]jast eftirgefinn. Jeg held jeg hafi skilið hæstv. ráðh. rjett. Ef svo er og þetta verður samþykt. vil jeg aðeins benda á í þessu sambandi, að mjer finst sú samþykt geta leitt til þess, að gengið verði inn á nokkuð hála braut hvað þetta snertir. Ef þetta verður gert, þá gæti svo farið, þegar eftir væri gefinn hluti úr láni, að það yrði skilið svo, að lánið væri þar með alt eftir gefið. Mjer finst hæpið að ganga inn á þessa braut. Jeg lít svo á, að heimildin nái aðeins til þeirrar upphæðar, sem stendur í fjárlögunum, en það, sem eftir stendur, teljist áfram sku]d við ríkissjóðinn, þar til það er greitt eða gefið eftir á lögformlegan hátt. Jeg tók þetta fram til að sýna, að nauðsynlegt er að fara þessa leið, bæði gagnvart þessari eftirgjöf og öðrum, þegar líkt stendur á.

Mjer hefir verið sagt, að hæstv. forsrh. hafi gert hjer að umtalsefni afstöðu okkar hv. 2. þm. Skagf. til fjárlaganna að því er verklegu framkvæmdirnar snertir. Hæstv. ráðh. mun nú raunar áður hafa verið búinn að tala um þetta í Ed. Það er nú líklegast, að við hv. 2. þm. Skagf. verðum landskunnir menn fyrir þetta. Minsta kosti hafa þau blöð, sem hæstv. stjórn styðst við, gert sitt til, að svo megi verða En þar sem jeg heyrði ekki þessa ræðu hæstv. forsrh., þá fer jeg ekki frekar út í það mál, enda býst jeg við, að hv. 2. þm. Skagf. muni svara henni.

Jeg mun nú vera búinn að tæma rjett minn til ræðuhalda við þessa 3. umr. fjárlaganna. En jeg vona, að hæstv. forseti veiti mjer leyfi til að gera ríflega athugasemd síðar, ef á þarf að halda.