16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (2186)

146. mál, vátrygging sveitabæja

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Lögin um vátrygging sveitabæja eru frá árinu 1905, og þótt þau hafi verið endurskoðuð tvisvar, má heita, að þau sjeu óbreytt frá því, sem þau upphaflega voru. Það er vitanlegt, hve miklar framfarir hafa orðið síðan í byggingarmálum og hversu vátryggingaþörfin hefir aukist þessi síðastliðnu 20 ár. 1905 var lítill hluti sveitabæja vátrygður, því að bæði var skilningurinn á þessu ekki nógu glöggur, nje þörfin eins mikil og nú. Það er því ekki að undra, þótt þörf sje á að endurskoða þessi lög. Og jeg lít svo á, að mörgu þurfi að breyta, ef sjóðirnir eiga að geta haldist við, hvað þá að vaxa.

Tilgangur tryggingastofnana er að forða einstaklingnum frá augnablikstjóni með því að koma áhættunni á sem víðtækastan grunn, eins og gert er með sameiginlegum iðgjöldum. Jeg held, að það sje viðurkent, að því víðtækari sem tryggingafjelagsskapurinn er, því betur sje það trygt, að þeir, sem næst tjóninu standa, bíði ekki persónulegan hnekki. Enda tryggja sjálf trygg.ingarfjelögin sig oftast með baktryggingum, svo að segja má, að allur heimurinn sje að verða ein samtrygging.

Hvernig er þessu nú háttað í sveitunum? Þannig, að menn tryggja að hálfu leyti í sjóði, sem sveitarfjelagið myndar út af fyrir sig, en að hálfu leyti í sjóði, sem öll sveitarfjelögin eru saman í. Afleiðingin er sú, að þegar 2–3 hús brenna í sömu sveit, getur svo farið, að sjóður sveitarinnar þurausist algerlega og tjónið lendi þannig að nokkru á hinum fáu mönnum, sem í því fjelagi kunna að vera. Jeg veit dæmi til þess, að sveitarfjelag hefir orðið að taka á sig þesskonar brunatjón. Þetta getur skeð samtímis því, sem aðrar sveitir verða ekki fyrir neinu brunatjóni og eiga alt sitt óskemt. Það er skaðlegt að marka tryggingarstarfseminni svo þröngan bás. Jeg veit líka til þess, að við borð liggur, að slíkur sjóður verði lagður niður og öll húsin vátrygð hjá erlendum fjelögum, ef þessu ákvæði verður ekki breytt. Þess vegna er hjer farið fram á það, að tryggingarstarfsemi þessi verði færð út þannig, að brunabótasjóðir hreppanna verði sameinaðir endurtryggingarsjóðnum, sem nú er, og þannig myndaður einn sameiginlegur sjóður úr þeim öllum.

Þá þarf að breyta því ákvæði, að brunabætur sjeu ekki nema 5/6. Þær voru fyrst 2/3, en var svo breytt í 5/6, og var það strax bót. Mönnum þykir ilt að geta ekki vátrygt fyrir brunatjóninu öllu, eins og tíðkast annarsstaðar. Því er haldið fram á móti þessu, að það hefði í för með sjer svo mikla hækkun á iðgjöldunum, að það mundi ekki borga sig. Vitanlega hækkar það iðgjöldin. Það er ekki við öðru að búast en að iðgjöldin verði því hærri, því hærra sem trygt er. En ef halda á áfram þessari röksemdaleiðslu, verður niðurstaðan sú, að það sje best að tryggja ekki, því að þá eru iðgjöldin engin. En nú vilja menn tryggja sig sem mest gegn öllu brunatjóni, svo að þetta verður ekki vel samrýmt.

Þá er því líka haldið fram, að menn gæti sín síður við voðanum, og brenni jafnvel viljandi, því meira sem borgað er af tjóninu. Jeg legg ekki mikið upp úr því. Jeg held, að þeir menn, sem á annað borð kveikja í hjá sjer, sjeu ekki að horfa í það, hvort þeir fá 1000 kr. meira eða minna. Jeg held, að menn fari ekkert gætilegar með eld, þó að þeir verði sjálfir að taka á sig 1/6 af brunatjóninu. Yfirleitt forðast menn eldsvoða, og tjónið, sem af þeim leiðir. er svo margvíslegt, að það er nóg aðhald í þessu efni; menn fá aldrei skaða sinn borgaðan að fullu. Jeg vil ekki slá neinu föstu um, að þetta skuli þannig verða, en jeg óska eftir, að það verði rannsakað með tilliti til útlendrar og innlendrar reynslu, hvað miklu munar í iðgjöldum að greiða brunabæturnar að fullu eða að nokkru, og að mönnum þeim, sem vátryggja., sje svo gefinn kostur á að velja á milli um það, hvort þeir taka heldur, lægri iðgjöld og lægri útborganir eða hærri iðgjöld og hærri útborganir.

Þá þarf að breyta reglugerðinni, sem hefir haldist óbreytt, að heita má, frá því að hún var sett, 1906. Annars held jeg nú, að hún sje ekki í gildi og hafi ekki verið framlengd frá 1921. Það er aðallega 25. gr., sem þarf að breyta, en hún fjallar um iðgjaldastigann. Þar er svo ákveðið, að iðgjöld af húsum, sem eru úr sama efni, með sömu gerð o. s. frv., skuli fara „procentvis“ hækkandi. eftir því sem húsin eru dýrari og verðmætari. Þetta hefir þær afleiðingar, að stærri húsin flýja brunabótasjóði sveitanna. Jeg veit dæmi til þess, að eftir að sveitarsjóður hafði bætt fyrir hús, sem brann, og búið var að byggja það að nýju úr steini, þá misti hann það út úr sveitarsjóðnum, eingöngu vegna þess, hve dýrt er að tryggja það, þó að brunahættan sje miklu minni af þesskonar húsum. Nú orðið eru mestmegnis bygð steinhús, svo að það eru bein fjörráð við sveitarsjóðina að hafa þetta ákvæði, sem úthýsir þessum húseigendum. Þessu þarf því að breyta. Mjer er einnig kunnugt um það, að 1–2 fjelög verða lögð niður, ef þessu verður ekki breytt. Er það illa farið, því að þessar stofnanir eru góðar í alla staði, ef þess er gætt að breyta þeim eins og framþróunin í landinu sýnir, að þurfi að gera.