14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Sigurðsson:

Það má ekki minna vera en að jeg svari hæstv. forsrh. lítilsháttar því, sem hann beindi til mín og hv. þm. Borgf.

Hið fyrsta, er hann taldi fram, var það, að lengi hefði dregist að svara þessu. Það er nú að vísu rjett, að það er langt um liðið, en þar til er því að svara, að jeg beið eftir því, að hæstv. forsrh. talaði, því jeg bjóst við, að hann myndi sjerstaklega gera að umtalsefni þann kafla fjárlaganna, er að þessu lýtur og sjerstaklega heyrir undir hann, en það eru samgöngumálin. Jeg vildi því doka dálítið við, ef hæstv. ráðh. gerði þetta að umtalsefni, en sá, sem aldrei tók til máls í þessu höfuðmáli, var hæstv. forsrh. Auk þess er það nú svo með hæstv. fors.- og atvmrh., að hann er ærið óstöðugur í sæti og sjest ekki tímunum saman í deildinni; en jeg vildi gjarnan, að hann yrði viðstaddur þegar jeg svaraði honum.

Annars var höfuðatriðið í ræðu hans það, að hann hefði viljað fá fulla vissu fyrir því, að tekjuaukafrv. þau, er fyrir þinginu liggja, yrðu samþykt, áður en hann kæmi fram með till. sínar til verklegra framkvæmda í sveitum. En hvaða tekjuvissu hafði stj., er hún var að unga út frv. um sundhöll, letigarð, síldarverksmiðju o. s. frv., er nemur miljónum króna? Þá var ekki spurt um, hvort tekjuauki fengist. Hann sagði, hæstv. ráðh., að jeg sæi ekki bak við tjöldin hjá hans flokki. Er það sennilega rjett, að þar fari ýmislegt það fram, sem mjer og ýmsum öðrum er hulið. Af ræðu hans mátti draga, að hann vildi láta líta svo út, að tekjuaukatill. hefðu verið talsvert undirbúnar. Má það vera. En þegar allar ástæður eru athugaðar og þess er gætt, hve stjórnin hefir sterkan flokk að styðjast við, er notar aðstöðu sína til að keyra í gegn hvert frv., sem hún vill, þá ætti stjórnin ekki að hafa verið í efa um að geta komið einnig þessum tekjuaukafrv. gegnum þingið, og hefði því átt fyrir löngu að bera fram tillögur til verklegra framkvæmda, ef henni var það alvörumál. Það eina, sem gæti hafa valdið óvissu og sem stj. hefir orðið að ráða fram úr, er það, hversu mikið þyrfti að borga stuðningsmönnunum og vinunum sósíalistum fyrir að vera með allri tekjuaukahrúgunni. Hinar stóru útgjaldatill. stjórnarinnar gefa ástæðu til að ætla þetta, og eins hitt, að stjórnin hefir verið nokkurnveginn viss um að fá þessi tekjuaukafrv. í gegn. Stjórnin er hjer sem oftar að leika skollaleik, til þess að breiða yfir það, að skornar voru svo mjög niður verklegar framkvæmdir til sveitanna. Hæstv. forsrh. vildi halda fast við þá staðhæfingu sína, að það væri samviskuleysi og ábyrgðarleysi, að við hv. þm. Borgf. töldum okkur geta fylgt fram kröfum til frekari verklegra framkvæmda, jafnvel þótt tekjuhalli yrði á pappírnum. Hæstv. ráðh. vildi ekki gæta þess, að eftir till. okkar átti aðeins að framkvæma þetta, ef fje væri fyrir hendi. Hæstv. ráðh. hefir áður barið sjer á brjóst og barmað sjer yfir tekjuhalla, en það hefir þó ekki hamlað honum frá því að koma fram með stórar útgjaldatillögur, og það eins, þótt sýnilegt væri, að þær till. myndu skapa stóran tekjuhalla. Jeg hefi að vísu ekki Alþt. fyrir framan mig til þess að sanna þessi orð mín, en úr því er hægt að bæta, ef þurfa þykir. Jeg legg það undir dóm deildarinnar, hvors hlutur er betri, þess, er þorir að kannast við tillögur sínar, er af kann að leiða lítilsháttar halli, eða hins, er lætur svo, sem hann heimti tekjuhallalaus fjárlög, en stendur samtímis að tillögum, er skapa milj. kr. tekjuhalla. 1923 voru verklegar framkvæmdir stöðvaðar og þá voru samþyktar 278 þús. kr. til samgöngubóta, með þeim skildaga, að verkið yrði aðeins framkvæmt, ef tekjur leyfðu. Fjárlögin voru þá afgreidd með tæpum 200 þús. kr. tekjuhalla. Þetta er í rauninni ekki neitt undarlegt, því vitanlega eru upphæðir þessar bara á pappírnum. Þessar fjárveitingar eru bara heimild fyrir stjórnina, sem hún notar, ef áætlunin reynist rjett. Annars notar hún hana ekki. Og jeg man ekki betur en að blað hæstv. forsrh. legði blessun sína yfir þetta á sínum tíma, þótt nú sje það óverjandi ábyrgðarleysi. Hæstv. forsrh. endaði ræðu sína á því að endurtaka enn þau orð sín, að í till. okkar hv. þm. Borgf. hefði komið fram samviskuleysi og ábyrgðarleysi; hann endurtók þetta þrátt fyrir endurteknar skýringar okkar, sem hann hefir ekki reynt að mótmæla, að þar væri aðeins um heimild að ræða, og þrátt fyrir það, þótt hæstv . ráðh. gerði enga tilraun til þess að sýna fram á eðlismun sinna stóru útgjaldatillagna, sem skifta miljónum kr., og þessara smáu tillagna, sem við bárum fram. En geti hann ekki sýnt neinn eðlismun á tillögum okkar og tillögum stj. utan fjárlaga, þá má með sömu forsendum og hann hafði segja um hans till., að þær beri vott um ótakmarkað ábyrgðarleysi og samviskuleysi.