17.04.1928
Neðri deild: 74. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2207)

157. mál, vísindarannsóknir í þágu atvinnuveganna

Magnús Jónsson:

Jeg er alveg sammála hv. flm. (BÁ) um það, að það sje mjög mikið rannsóknarefni, hvernig yfirleitt sje hægt að taka vísindin í þágu atvinnuveganna, í fyrsta lagi til þess að treysta grundvöll þeirra, sem fyrir eru, og í öðru lagi til þess að gera. atvinnuvegi okkar fjölbreyttari en þeir eru nú.

Það, sem er langvarasamast í þjóðarbúskap okkar nú, er það, hve atvinnuvegirnir eru fábreyttir. Líklega er engin sjálfstæð þjóð, sem byggir afkomu sína á jafnfáum stöðum. Það má segja, að ef verulegur halli verður á sjávarútvegi eða landbúnaði, þá verður það mjög tilfinnanlegt fyrir allan þjóðarbúskapinn. Þetta er ekki svo hjá öðrum þjóðum, því að ef einn atvinnuvegur bregst hjá þeim, þá geta þær gripið til annars, aukið tekjurnar á einn sviði, ef þær bregðast á öðru.

En jeg held, að við höfum hvorki notað fyllilega út í æsar þá atvinnuvegi, sem fyrir eru, nje heldur sjeu atvinnuvegir okkar eins fjölbreyttir og hægt væri.

Þó að mig langi ekkert til þess að gera Íslendinga að iðnaðarþjóð, þá býst jeg samt við, að okkur verði lífsnauðsyn að fara inn á þá braut á næstu árum að nokkru leyti. Sýnast þá vera framundan þrjár leiðir, sem allar verði að fara:

1. Að gera þær afurðir, sem þegar eru framleiddar hjer, verðmeiri.

2. Að flytja inn erlend hráefni og vinna úr þeim hjer, eins og nú er gert, t. d. með smjörlíki.

3. Að vinna hjer úr öðrum innlendum hráefnum til útflutnings.

Þetta er mikið rannsóknarefni, en það liggur að nokkru leyti utan við það, sem flm. þessarar till. hugsa sjer. Þeir hugsa mest um rannsóknir á fóðri og bætiefnum, en þær held jeg að heppilegast væri, að Búnaðarfjelagið hefði með höndum. Virðist mjer, að það fjelag hafi svo mikinn mannafla, að það geti látið einn mann gefa sig eingöngu að þeim rannsóknum.

Í niðurlagi till. er lagt til, að það verði sjerstaklega athugað, hvort ekki sje rjett að stofna sjerstakt embætti við háskólann til þess að sinna þessum og öðrum svipuðum rannsóknum. Jeg hefi flutt till. um að gera háskólann fjölbreyttari en verið hefir, svo að því leyti get jeg tekið undir með hv. flm., að þörf sje á því að efla háskólann. En hitt er annað mál hvort heppilegt er að stofna sjerstakt embætti í þessu skyni. Jeg held, að alt eins heppilegt mundi vera að fá ákveðnum mönnum ákveðin verkefni til rannsókna, sem þeim væri ætlað að ljúka, en þeir væru ekki beinlínis festir í embættum. Jeg er hræddur um, að þegar búið væri að stofna þetta embætti, þá yrði sá maður sem það hlyti, ekki eins fullkominn í öllum greinum, og kynni hann þá að sitja fyrir öðrum, sem meira gagn gætu gert, og rannsóknir hans gætu og orðið nokkuð einhæfar. Jeg hugsa mjer, að hvert verkefni yrði fengið þeim, sem hæfastur væri til að leysa úr því. Tökum t.d. íslensku ullina. Jeg vildi gjarnan launa einn mann í 3-4 á.r, ef hann gæti síðan sagt, hvað heppilegast er að vinna úr henni. Nú er verið að stritast við að gera úr henni dúka, sem ekki eru samkepnisfærir, nema þá með lagavernd, en það er áreiðanlegt, að hún er sjerstaklega hæf til einhverrar sjerstakrar notkunar. Rannsókn gæti leitt í ljós, að hún væri sjerstaklega heppileg til þess að vinna úr henni eitthvert eitt ákveðið plagg. Þyrfti þá ekki annað en að „standardisera“ þá framleiðslu, svo að menn gætu verið vissir um að fá jafnan það, sem þeir bæðu um, og þá væri þar með fundið alveg nóg verkefni fyrir alla íslenska ull. Jeg vil nefna tvö dæmi, sem benda dálítið í þessa átt. Þegar útlendir ferðamanna- hópar koma hingað sem snöggvast, þá hafa menn reynt að selja þeim ýmsar vörur, en það hefir komið í ljós, að það eru alveg ákveðnar tegundir, sem ganga í augu þeirra. Það er t. d. aldrei hægt að fá nóg handa þeim af sútuðum gæruskinnum, því að það er alveg eins og hver einasti maður vilji hafa eitt íslenskt gæruskinn heim með sjer hjeðan. Nú náum við aðeins til örlítils hóps manna með þessa vöru, aðeins til þeirra, sem hingað rekast af hending, en ef við hefðum þessa vöru á boðstólum þar, sem þær ná til þúsundanna, sem á ferð eru árlega, ætli við gætum þá ekki fengið markað fyrir alla okkar framleiðslu á þessu sviði?

Annað dæmið eru vestfirskir rósavetlingar. Aldrei kemur svo mikið af þeim á basarana, að þeir sjeu ekki allir rifnir út, þegar erlendu ferðamannaskipin koma hingað, og það fyrir fremur hátt verð. Ef íslenskir rósavetlingar þættu fallegastir og bestir, með öðrum orðum, yrðu „móðins“ meðal íþróttafólks í St. Moritz og öðrum vetraríþróttastöðum í Alpafjöllum, þá er ekki ómögulegt, að þar væri fenginn markaður fyrir alla okkar ull. Svona eru til sjerstök verkefni á öllum sviðum, og þau þarf að rannsaka. Það verður víst seint tölum talið, hvað Torfi Sálugi í Ólafsdal vann landinu mikið gagn með því að innleiða hjer skosku ljáina, og svipað má gera á öll um sviðum. En ef stofnað er sjerstakt embætti til þessara rannsókna, þá er jeg hræddur um, að þær verði miklu einhæfari en með því móti, sem jeg hefi hjer bent á.

Jeg vona, að hæstv. stjórn taki við rannsókn þessa máls tillit til þess, sem jeg hefi hjer sagt, og jeg býst við, að hv. flm. hafi ekkert á móti því, þótt sú rannsókn verði nokkuð fjölþættari.