16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (2216)

158. mál, útvarp

Magnús Jónsson:

Það var gott að fá að heyra þau hlýlegu orð hæstv. forsrh. (TrÞ), sem hann ljet falla um málið alment talað, og eins það, að hann hefði enga tilhneigingu til þess að búa illa að fjelaginu. Enda er slíkt óhugsandi fyrir stjórn, sem hugsar sjer að halda starfsemi þess áfram.

Fjelagið hefir unnið stórkostlegt undirbúningsverk, svo að segja numið nýtt land. Það hefir safnað gögnum, sem að haldi mega koma, er haldið verður áfram í stærri stíl, og það hefir vakið þorsta almennings eftir útvarpi, jafnvel með því, sem menn hafa verið óánægðir með, því að það hefir eflt löngun þeirra eftir öðru betra og fullkomnara.

En mig langaði til þess, að hæstv. ráðh. (TrÞ) vildi svara ákveðið, hvað hæstv. stjórn ætlar sjer að gera við fjelagið Útvarp, hvort hún ætlar sjer að láta það standa uppi með stöðina og láta útvarpið falla niður í svipinn.

Þátt jeg sje ekki fagmaður í þessum sökum, þá leyfi jeg mjer að segja, að bylgjulengd er þessu máli óviðkomandi. Hún kemur fyrst til greina, þegar stóra nýja stöðin verður sett upp. Hjer er um það að ræða að starfrækja þá stöð, sem fyrir er, í millitíð. Mjer er satt að segja óskiljanlegt, að hæstv. forsrh. (TrÞ) gæti ekki verið viðbúinn að svara, þar sem þetta hefir verið á döfinni síðan í desember í vetur. Það er óhugsandi, að hann sje ekki í hjarta sínu búinn að taka afstöðu til þess. hvort hann ætlar sjer að sjá til, að stöðin verði starfrækt í bili.