14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

1. mál, fjárlög 1929

Hákon Kristófersson:

* Jeg verð að segja það, að jeg hefi ekki ástæðu til að þakka hv. nefnd fyrir góðar undirtektir um mínar till., og þykir mjer leitt, að engin af þrem brtt. mínum skuli hafa fundið náð fyrir augum hv. nefndar. Viðvíkjandi fyrstu brtt. minni, um eftirlaunahækkun til Sigurðar Magnússonar læknis, þarf jeg ekki að endurtaka það, sem jeg sagði henni til stuðnings um þann ágæta heiðursmann. En það þykir mjer harla einkennilegt hjá nefndinni, og hún ekki sjálfri sjer samkvæm, þegar Þorvaldur nokkur Pálsson læknir er látinn standa með 300 kr. aukaeftirlaun í fjárlögunum.

Hefi jeg fyrir þessu heimild hæstv. forsrh. og vænti þess, að hv. frsm. taki hana gilda. Hv. frsm. virtist óttast, að þessi till. mín mundi skapa fordæmi, ef samþ. væri, en slíkt getur alls ekki átt sjer nokkurn stað. Annars treysti jeg svo rjettsýni og sanngirni hv. deildar, að hún samþ. þessa till. mína.

Þá kem jeg að till. minni um eftirgjöf á viðlagasjóðslánitil Suðurfjarðahrepps. Hv. frsm. kom með þau sömu skilaboð frá nefndinni viðvíkjandi þessari till. minni og hinni fyrri, sem sje þau, að nefndin sæi sjer ekki fært að aðhyllast þessa till. En það þykir mjer einkennilegt, að hv. frsm. lýsir yfir því, að vel geti verið fyrir hendi, að einstaklingum þjóðfjelagsins verði eftir gefnar um 20 þús. kr. Þetta örlæti nefndarinnar er jeg ekki að lasta, en hinsvegar finst mjer kenna mikils ósamræmis hjá nefndinni, þegar hlaupið er undir bagga með einstökum mönnum, sem vel gætu int skuld sína af hendi sjálfir, en setur sig hinsvegar þvert í götuna, þegar heil bygðarlög eiga í hlut, sem erfitt eiga uppdráttar. Þykir mjer leitt, að nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að sinna þessari till. minni. Látum svo vera, að nefndinni hafi vaxið þetta í augum, en hitt finst mjer undarlegt, að setja sig upp á móti eftirgjöf vaxtanna, ef skuldin er greidd.

Mjer er alveg óskiljanleg niðurstaða nefndarinnar, og það því fremur, sem hv. frsm. hennar leitaðist ekki við að bera fram ástæður fyrir þessari synjun. Veit jeg þó, að jafnrökfimur og greinagóður maður sem hann er mundi hafa gert það, ef hann hefði sjeð sjer það fært og nefndin hefði haft nokkrar frambærilegar ástæður fyrir þessari neitun.

Það gleður mig, að hv. frsm. telur það óafsakanlegt að hlaupa ekki undir bagga með þeim bygðarlögum, sem í þröng eru stödd, en því óafsakanlegri virðist mjer framkoma hv. nefndar í þessu máli, sem jeg hefi skýrt frá. Þegar jeg legg þetta niður fyrir mjer, verð jeg að álykta, að nefndin hafi haldið umsögn mína svo litaða, að ekki væri hægt að byggja á henni. Jeg fór með mál þetta svo sem jeg vissi rjettast, og þarna er jeg miklu kunnugri en aðrir hv. deildarmenn. Jeg leyfi mjer því að snúa mjer aftur til hv. deildar með þá ósk, að hún sjái sjer fært að samþ. þessa varatill.

Viðvíkjandi till. minni um kaup á húseign Einars Jónassonar fyrv. sýslumanns hefi jeg ekki frekar að segja en það, sem jeg gat um í gær. Jeg vil þó taka það fram, að það breytir ekki eðli málsins, þótt þetta verði fyrsta eignin, sem gengið verður að, eins og hæstv. dómsmrh. sagði í gær, heldur álít jeg þann veg áferðarbestan að kaupa húseignina eftir mati og láta síðan verð hennar ganga upp í þær skuldir, sem fyrv. Sýslumaður kann að eiga ólokið við ríkissjóð.

Eigi finst mjer það heldur hafa skift öðru máli, ef maður þessi hefði farið úr embætti til þess að sækja um embætti annarsstaðar, en tel, að þrátt fyrir alt beri að sýna þá sanngirni að kaupa eignina. Jeg ætlaðist auðvitað ekki til þess, að ríkissjóður bæri halla af kaupunum, enda hefi jeg ekki tiltekið neina upphæð sem söluverð.

Sem sagt, jeg hefi ekki ástæðu til að þakka undirtektir hv. nefndar, en jeg vona, að sú verði raunin á að atkvæðagreiðslu lokinni, að jeg hafi þá meiri ástæðu til að þakka hv. deild en meiri hluta nefndarinnar.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.