11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (2248)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 3. landsk. (JÞ) hefir nú nokkuð minst á hið svokallaða varðskipamál frá sínu sjónarmiði, og niðurstaða hans er sú, að mjer hafi ekki tekist að feta nægilega vel í fótspor fyrirrennarans, hv. 1. þm. Skagf. (MG). En þar sem hv. þm. fór út í söguleg atriði þessa máls, þá verð jeg að gera það nokkuð líka, en dálítið frá öðru sjónarmiði.

Það er ekki víst, að öllum hjer í hv. deild sje það kunnugt, að drög þessa. máls liggja nokkuð til baka. Þegar Vestmannaeyingar hófust handa um kaup á „Þór“, þá var hugmyndin að hafa björgunarskip í Eyjum yfir vetrarmánuðina. En þeir sáu fljótt, að það var ofurefli að halda úti slíku skipi, sem ekki var hægt að nota nema yfir vetrarvertíðina, frá janúar til miðs maí. Var því leitað eftir styrk frá ríkissjóði og óskað eftir atvinnu fyrir skipið hinn tímann. En þá brá svo undarlega við, að sá flokkur, sem hv. 3. landsk. (JÞ) fylgdi þá, eða var í nánustu sambandi við, vildi ekkert gera fyrir málið og var Vestmannaeyingum í öllu hinn erfiðasti. Þáverandi formaður flokksins, Jón heit. Magnússon, var mjög á móti því, að þingið veitti Björgunarfjelagi Vestmannaeyja fjárstyrk, eða notaði „Þór“ til landhelgisvarna og eftirlits um síldveiðitímann. Jafnvel eftir að stjórn, sem Framsóknarmenn studdu, hafði viðurkent „Þór“ sem varðskip, þorði Jón heitinn Magnússon ekki að láta tala opinberlega í þinginu um, að byssa ætti að vera á skipinu. En sá flokkur, sem jeg hefi fylgt, hefir frá því fyrsta sýnt þessu máli velvild. Og þegar Jóns Magnússonar stjórnin fór frá 1922 og ný stjórn, sem Framsóknarflokkurinn átti meiri ítök í, hafði tekið við, fekk „Þór“ eiginlega fyrst viðurkenningu sem varðskip. Miðstjórn Framsóknarflokksins, sem þeir áttu þá sæti í núverandi hæstv. fjmrh. (MK) og Hallgrímur heitinn Kristinsson, lagði til, að „Þór“ yrði notaður sem strandvarnaskip. svo hjelt þetta áfram fram yfir kosningarnar 1923, að „Þór“ var notaður til þessa, í mótstöðu við flokk hv. 3. landsk. (JÞ), en studdur af Framsóknarflokknum. En svo breytist viðhorf Íhaldsflokksins skyndilega, eftir að sá flokkur gat fengið eitt stuðningsatkvæði úr Vestmannaeyjum með því að snúast til fylgis við Þórsmálið. Íhaldsflokkurinn var í öllu hinn erfiðasti í þessum málum, meðan hann hafði nokkurt bolmagn til að hindra framkvæmdir í landhelgisgæslunni.

En þegar ísinn var brotinn og „Þór“ orðinn bæði björgunarskip og varðskip, þá var samþykt á Alþingi að byggja nýtt strandvarnaskip, „Óðin“, alveg eins og nú í vetur var samþ. að byggja annað skip, sem nánast sagt mundi koma í stað „Þórs“, sem nú er að ýmsu leyti orðinn á eftir kröfum tímans. En frammistaða Íhaldsstjórnarinnar við byggingu á „óðni“ mistókst eins freklega og hægt var. Íslendingar eru nú búnir að láta smíða mörg skip, bæði Eimskipafjelagið, og ríkið, og einstakir útgerðarmenn togarana. En ekkert þeirra hefir orðið slíkur trjekyllir, sem „Óðinn“ varð undir stjórn og handleiðslu stjórnar þeirrar, er hv. 3. landsk. þá átti sæti í. Bygging skipsins tókst svo fáránlega, að það lagðist á hliðina og nálega hvolfdi inni í einhverri bestu höfn landsins, og var tilviljun, að það fórst ekki. Þessi mistök á skipinu munu stafa af einhverju rænuleysi stjórnarinnar, sem að nokkru leyti er kunnugt af hverju stafar, og lýsti sjer m. a. í því, að stjórnin leitaði til togaraeigenda um það, hvernig skipið ætti að vera. En það var í eðli sínu alveg hið sama og að spyrja mýsnar að því, hvernig kötturinn ætti að haga sjer þeir ráðlögðu að hafa skipið jafnlangt og togara, eða um 150 fet. En jafnframt átti það að hafa svo sterka vjel, að það gæti farið með 14–15 mílna hraða. En þekkingin var nú ekki meiri en svo, að þeir bjuggust við, að slíkt skip mundi þola svo sterka vjel, sem til þess þurfti að fara með 14–15 mílna hraða. Merk skipasmíðastöð á Þýskalandi, sem gerði lægst tilboð í smíði skipsins, sagðist ekki geta samrýmt þetta tvent. En svo fekst skipasmíðastöð í Danmörku til að smíða skipið, jafnilla gert og Íhaldið vildi vera láta. En þá kom fljótlega fram ósamræmið milli vjelarinnar og skipsskrokksins, og slysið þar með undirbúið. Voru nú miklar bollaleggingar um, hvað gera ætti, og varð niðurstaðan sú, að eftir ærinn kostnað, sem m. a. kom fram í þeirri miklu töf, sem skipið varð fyrir, var ákveðið að lengja skipið um 13 fet, svo það gæti borið vjelina og haldið ganghraðanum. Voru þetta ráð Nielsens, forstjóra Eimskipafjelagsins, sem Íhaldið vildi ekki spyrja til ráða fyr en alt var komið í óefni. Þetta hjer er tekið fram til þess að auka nokkuð lítillæti hv. 3. landsk. (JÞ) og flokksbræðra hans, og jafnframt til að sýna, hve herfileg afglöp hafa verið gerð í þessu máli fyrir áhugaleysi þeirra, þrjósku og vanþekkingu. Ef því litið er á framkvæmdir hv. 3. landsk. (JÞ) og flokksbræðra hans, þá eru það ýmist mótstaða eða afglöp, sem einkent hafa afskifti þeirra af þessu máli. — Þá má benda hv. 3. landsk. á annað axarskaft um byggingu „Óðins“, sem átti að verða sem líkastur togara, vegna löggæslunnar, en varð þeim þó ólíkur, vegna þess hve reykháfurinn var gerður gildur, svo togarar þekkja hann langt að.

Þetta er nú inngangurinn að því, sem gerðist á þinginu í fyrra, að því við bættu þó, að Íhaldsstjórnin lagði til, að „Þór“ yrði keyptur af ríkinu. Henni þótti þá heppilegt að kaupa hann, þegar bersýnilegt var orðið, að hann fullnægði ekki þeim kröfum, sem gera verður til þess, að skipin sjeu fær um að elta uppi togarana. En hann var seldur með því skilyrði, að hann hjeldi sig við Vestmannaeyjar um vertíðina. Í vetur skrifaði skipstjórinn á „Þór“ mjer, og telur hann „Þór“ vera orðinn algerlega óhæfan til landhelgisgæslunnar. Nefnir hann ekki færri en 10 dæmi þess, að togarar hafi sloppið af þeirri ástæðu. Stingur hann svo upp á, að nýtt skip verði bygt. Jeg sendi sjútvn. þingsins þetta brjef til umsagnar. Afleiðingin varð svo sú, að einn hv. þm. úr sjútvn. Ed. bar fram frv., sem heimilar stjórninni að láta byggja nýtt skip.

„Þór hefir verið dæmdur ófær, og eins og málið nú liggur fyrir, er ekki nema um tvent að ræða: annaðhvort að selja hann fyrir það litla verð, sem fyrir hann kynni að fást, og láta svo nýja skipið sitja fast við Vestmannaeyjar yfir vertíðina, eða þá að halda „Þór“ við og láta hann annast Vestmannaeyjar þessa 4 mánuði, en liggja þá hjer kyr hina 8 mánuði ársins. — Má þá þakka þeim hinum örlátu mönnum, sem hjer hafa staðið að því verki í dag að stórhækka laun varðskipayfirmannanna, ef þarna þarf að launa heilli skipshöfn, sem er á skipi, sem lítil not eru að, svona óhæfilega há laun, sem samþykt voru. — En niðurstaðan á þessum samningum er sú, að ríkinu ber skylda til að verja Vestmannaeyjar, hvort sem til þess verður svo valinn „Þór“ eða annað dýrara skip. En ekki eru slíkir samningar gerðir af framsýni.

Nú kemur sá þáttur, þegar hv. 3. landsk. (JÞ) grípur inn í söguna og ber fram frv. sitt á þinginu í fyrra um að lögfesta 40–50 embætti á varðskipunum, með föstum launum. Og ráðherrann sá var sannarlega ekki að biðja guð um lítið handa þessum mönnum. Þeir eiga að setjast skör hærra en flestir aðrir embættismenn þjóðarinnar. T. d. eiga kolamokarar að hafa hærri árslaun en prestar hafa að byrjunarlaunum með 10–12 ára nám að baki. Frv. þetta fekk harða mótstöðu í báðum deildum þingsins, einkanlega þó í Ed., þar sem jeg og 5. landsk. (JBald) áttum í sífeldum útistöðum við hv. 3. landsk. (JÞ) um þetta mál. Jeg hjelt því fram, að það væri algerlega vanhugsað að lögfesta svo marga og háttlaunaða embættismenn, og eins það fyrirkomulag að veita yfirmönnunum þessar stöður til lífstíðar, þar sem hætt væri við, að gæslan yrði sljólega rækt, þegar útslitnir menn eiga að sjá um hana. En eins og allir vita, eru embættismenn ekki látnir fara frá starfi, nema um mjög alvarlegar sakir sje að ræða.

Ef við athugum, hvernig útgerðar fjelögin, sem eru aðaluppistaða Íhaldsflokksins, fara að gagnvart sínum starfsmönnum, þá verður annað uppi á teningnum hjá þeim sömu mönnum, sem fastast halda því fram, að ríkið eigi að gera alla sína skipverja að föst. um starfsmönnum æfilangt. Jeg vil ekki segja, að þeirra aðferð sje falleg eða eftirbreytnisverð í sjálfu sjer, sú er þeir viðhafa í sinni eigin útgerð. En aðferð þeirra er sú, að mönnunum er kastað í land, þegar þeir eru orðnir slitnir. Þeir vilja hafa færa og fullfríska menn í hverju rúmi, því að þeir vita, að það borgar sig best fyrir útgerðina.

Það mundi ekki þykja hyggileg ráðstöfun hjá togarafjelagi að binda sig þannig með föstum samningum við alla skipverja æfilangt. Ef hv. 3. landsk. (JÞ) hefði verið framkvæmdarstjóri, t. d. hjá „Kveldúlfi“, og hefði tekið upp á slíku, þá hefði hann vafalaust verið rekinn á næsta hluthafafundi.

Gagnstætt þessu hefi jeg haldið því fram, sem þingið nú hefir gengið inn á, að það yrði að tryggja það, að á varðskipunum væru altaf menn í fullu fjöri, sem gætu beitt sjer fullkomlega gegn öllum landhelgisbrjótum, innlendum og útlendum. Í því skyni hefi jeg lagt það til, sem samþykt hefir verið í báðum deildum þingsins, að yfirmenn skipanna, skipstjórarnir, skuli ráðnir aðeins til nokkurra ára í senn. Með því móti er hægt að skifta, þegar starfið fer að líða fyrir mennina. Hvernig svo eigi að búa að þeim mönnum, er þannig fara úr þjónustu landsins, skal hjer ekki rætt um. Útgerðarfjelögin hafa í því efni ekkert gert, að minsta kosti ekkert skipulagsbundið, t. d. að sjá fyrir ekkjum sjódruknaðra. Þeim er að vísu oft gefið eitthvað, en oft líka ekki, og oftast munu þær gleymdar eftir að jarðarfarir eru afstaðnar.

Slík er aðferð þessara manna heima fyrir.

Í lögunum um varðskipin frá í fyrra var m. a. sá galli, að þar var gerður óhæfilega mikill munur á launum æðstu mannanna á skipunum og þeirra næstu. Það er ekki síður mikið komið undir stýrimönnunum en skipstjórunum, að alt gangi vel, enda eru nú í þeim stöðum mjög duglegir menn. Einn stýrimaður, Einar sonur Einars Markússonar, tók 10 togara á 8 vikum. Það var þó ekki nema „Þór“, sem hann hafði þá, og þegar tekið er tillit til þess dóms, sem það skip nú fær, þá má það teljast mikið þrekvirki. Á hinu skipinu er stýrimaður, sem einu sinni tók togara hjer, sem sýndi mótþróa, flutti hann til Englands og hafði ofbeldi í frammi. Hann sýndi af sjer mikinn dugnað, en hafði ljelegan skipakost. Þrátt fyrir þetta áleit fyrverandi stj., að það mætti muna 6–700 krónum á mánuði á launum þessara manna og skipstjóranna.

Jeg hefi engar tilraunir gert til að vinna á móti þeim hækkunartill., sem samþ. voru í dag. Hinsvegar kom það ljóst fram, að Íhaldsmenn hafa „agiterað“ mikið. Það kom ljóst fram við nafnakallið, að mest áhersla hefir verið lögð á að hækka laun þeirra, sem hæst laun hafa áður.

Þó að það komi ekki þessu máli við, vil jeg benda á eitt, sem okkur hv. 3. landsk. (JÞ) ber á milli. Jeg vil leggja eins mikla áherslu á, að stýrimennirnir sjeu duglegir, eins og skipstjórarnir, og í því skyni hefir mjer dottið í hug að koma því svo fyrir, að þeir væru til skiftis um tíma gestir á hliðstæðum skipum annara þjóða, til þess að kynnast aðferðum þeirra, ef þess væri kostur. Mjer er ekki kunnugt um, að neitt hafi verið fyrir slíku hugsað af fyrirrennurum mínum. Þvert á móti kom það beint fram í dag við atkvgr., að það var ekki mikið hugsað um stýrimennina.

Hv. 3. landsk. (JÞ) gat ekki komið á óvart, eftir kosningarnar í sumar, þó að þau umskifti, sem þær leiddu af sjer, næðu til varðskipanna; svo vel var honum kunnugt um afstöðu mína og margra annara af andstæðingum hana til málsins í fyrra. Þess vegna er það undarlegt og óskýrt enn í dag, að Íhaldsstjórnin skyldi ekki veita þessari stöður áður en hún fór frá. Þegar svo til minna kasta kom, þá var auðvitað opin leið fyrir mig að setja í stöðurnar, halda þeim opnum og breyta svo lögunum. Jeg kem síðar að því, hvers vegna jeg valdi ekki þá leið.

Ef fyrverandi stjórn hefði framkvæmt lögin, þá hefði að minsta kosti verið erfiðara fyrir andstæðingana, sem nú eru komnir í meiri hluta, að breyta þeim.

Það var líka svo, að þeir, sem biðu einhver óþægindi við það, að lögin voru ekki framkvæmd, ásaka ekki mig, heldur Íhaldsstjórnina, fyrir að framkvæma ekki lögin og afhenda málið óleyst í hendur þeirra manna, sem voru algerlega andstæðir frv. í fyrra og mátti telja víst að hefðu nú nógan þingafla til þess að koma fram breytingum.

Jeg held því, að allur úlfaþyturinn í íhaldsblöðunum hafi mest verið gerður til þess að reyna að láta reykinn af þeim eldi, sem brennur í íhaldsherbúðunum, leggja yfir á andstæðingaflokkinn.

Jeg skal ekki hæla mjer fyrir beinar vinsældir meðal Íhaldsmanna út af þessu máli, en ásakanirnar beinast eðlilega allar í garð þeirra manna, sem þarna brugðust sínum mönnum og samherjum.

Jeg hefi heyrt ýmsar tilgátur um það, hvers vegna Íhaldsstjórnin hafi ekki framkvæmt lögin. Ein er sú, að henni hafi þótt lögin gölluð. Önnur er sú, að þetta hafi blátt áfram stafað af dugleysi, en því vil jeg ekki trúa; jeg hefi meira álit en svo á skrifara dugnaði fyrirrennara míns í starfinu. Hin þriðja er sú, og þykir mjer hún sennilegust, að þeir hafi hugsað sem svo: Framsóknarmenn voru á móti þessu í fyrra að vísu, en þegar þeir koma nýir í stjórnarráðið og skjölin liggja á borðinu, þá skrifa þeir í hugsunarleysi undir þessi 50 skjöl, og svo — og svo ásökum við þá á eftir fyrir að hafa breytt um stefnu. Mjer þykir þetta sennilegasta tilgátan, og vil jeg rökstyðja það með „dæmi úr lífinu“, eins og einn eigandi „Morgunblaðsins“ kemst að orði, þegar hann skrifar um verslun. Það hefir verið mikið talað um það, að starfsmönnum hafi verið fjölgað í stjórnarráðinu, og hefir það jafnvel verið borið út, að 15 nýir menn hafi verið ráðnir þangað. Um annað var þó ekki að ræða en þrjár stöður, sem auglýst var í Lögbirtingi að ráðið hefði verið í, og þetta var ekki annað en fólk, sem búið var að ráða af Íhaldsstjórninni og fekk að vera áfram. Enda var það alt frá frómum og sanntrúuðum íhaldsheimilum. Það er sannanlegt, að allar þessar ráðningar voru gerðar af fyrv. stj. Yfirsjón núverandi stj. er þá aðeins sú, að hafa ekki rekið þetta fólk úr vistinni.

Af þessu litla „dæmi úr lífinu“ má mikið ráða. Það er auðsjeð, að þeir hafa ætlað sjer að láta vandann og ábyrgðina lenda á eftirmönnum sínum.

Þegar jeg kom í stjórnarráðið og sá þennan skjalabunka liggja á borðinu, þar sem efst lá skipunarbrjef skipstjórans á „Óðni“, þar sem honum voru ætluð 12 þús. kr. laun, þó að lögin ætluðu honum ekki svo mikið, þá fór jeg auðvitað að brjóta heilann um þennan íhaldsleyndardóm.

Jeg hugsaði þá sem svo: Hvaða ástæða er fyrir mig að vera að framkvæma þessi lög, úr því að Íhaldsmenn vildu ekki gera það? Jeg sagði svo við minn samverkamann: Við látum þetta bíða í alveg sama horfi og Íhaldsmenn hafa stefnt undanfarna mánuði.

Eftir allan þennan gauragang og glamur um lögbrot hefir hávaðinn hjaðnað niður í þetta sæta „marmelade“, sem hv. 3. landsk. (JÞ) hefir nú sett ofan á þá þurru íhaldsbrauðskorpu hjer í kvöld.

Þegar Íhaldið talaði um að láta þetta verða landsdómssök, þá sagði jeg við andstæðinga mína: Blessaðir, látið þið þetta bara fara fyrir landsdóm. Þá kemur væntanlega fram brtt., og hún verður samþ., um að láta hv. 1. þm. Skagf. (MG) mæta fyrst. svo hefi jeg boðist til að stinga höfðinu í snöruna á eftir honum og fylgja honum í hegninguna, eins og jeg fylgdi honum í því að láta haldast „status quo“.

Íhaldsmenn mistu svo smátt og smátt móðinn. Þeir sáu, að ef til landsdóms kæmi, þá yrði þeirra ráðherra fyrir barðinu fyrstu missirin. Og þeir virðast ekki hafa búist við, að slík málaferli yrðu þeim til ánægju, þegar alt kemur til alls.

Þess vegna er þetta mál svo andvana fætt. Kosningarnar 9. júlí s. l. skópu þann meiri hluta, sem nú hefir þetta mál á sínu valdi. — Nú hefir málið verið leyst á þeim grundvelli, sem jeg hefi lagt til, en fallið frá grundvelli Íhaldsins. Hitt er eins og rós í hnappagatið fyrir Íhaldsmenn, að þeim tókst nú í dag að koma fram nokkurri hækkun á laununum, án þess að raskað hafi verið þeim aðalgrundvelli, sem jeg hefi lagt í málinu. Þeir hafa aðeins trygt dálítið meiri eyðslu úr landssjóði heldur en vera þurfti.

Það er alveg rjett hjá hv. 3. landsk. (JÞ), að þegar skipstjórarnir komu til mín eftir stjórnarskiftin og ljetu í ljós við mig undrun sína yfir því, að jeg hefði ekki veitt stöðurnar, þá sagði jeg þeim meðal annars, að jeg væri ósamþykkur þeim háu launum, sem fyrirrennari minn hafði ætlað þeim. Jeg sagði, að laun í sambærilegum stöðum í landi, t. d. laun skrifstofustjóra í stjórnarráðinu, væru ekki nærri eins há. Og þar sem fyrirrennari minn hefði ekki álitið rjett að nota lögin, þá sæi jeg enga ástæðu til annars en að það ástand hjeldist, sem verið hafði, um samninga milli skipstjóra og stjórnarinnar. Þó þótti mjer rjett að hrófla ekkert við laununum fram til nýárs, en jeg tilkynti þeim síðar munnlega, að það mundi þá verða gert, og var það síðan staðfest skriflega 8. des.

Af því að annar skipstjóranna hjelt því fram, að þeir ættu að fá risnu, tók jeg það fram, að jeg áliti, að þeir ættu enga risnu að hafa, fremur en yfirlögregluþjónninn í Reykjavík. Jeg liti ekki á þá sem neina herskipaforingja eða aðmírála. Það væri fásinna af varðskipsmönnum okkar að bera sig saman við erlenda sjóforingja. Við hefðum engan sjóher og ekkert með hann að gera, þar sem við hefðum lýst yfir því, að við mundum jafnan vera hlutlausir í ófriði. Það væri því álit mitt, að þeir væru aðeins lögreglumenn, og að krafa um, að þeir ættu að hafa fje til veisluhalda, væri aðeins misskilningur á því formi, sem fyrirrennari minn hafði skilið við.

Mín skoðun, og sú skoðun, sem nú hefir sigrað hjer á Alþingi, er sú, að á þessum skipum eigi einungis að vinna lögreglustarf, en ekki að hafa veislur eða tildur. Fyrir hv. 3. landsk. virðist vaka hið gagnstæða, að þar eigi að vera yfirlæti, veislur, kanske sukk eða bílífi.

Það kom til mín í dag einn meiri háttar kaupmaður hjer í bænum og sagði mjer, að nú væri að koma inn á höfnina enskt herskip. „Kallaðu nú á „Óðin“, sagði hann, „og láttu Bretann sjá, að við höfum líka flota“. Hann vildi, að við sýndum Bretum, að við gætum dálítið á sjónum, eins og þeir. Jeg var ekki nógu háfleygur til að geta fylgt þessu góða ráði. Jeg sagði, að það væri betra, að „Óðinn“ væri að starfi sínu sunnan við land, því að jeg bjóst ekki við, að við mundum „imponera“ Bretum í flotamálum hvort sem væri. En þessi maður, sem í góðri trú vildi sýna Englendingum, að við værum líka með flotamál, er skoðanabróðir þeirra manna, sem vilja hafa veislur og fagnað á varðskipunum íslensku.

Jeg held, að jeg geti ekki komist hjá því, áður en jeg lýk máli mínu — og mjer finst, að jeg hafi rjett til að svara líka fyrir hv. 1. þm. Skagf. (MG), þótt hann þykist ef til vill einfær um að svara fyrir sig — að benda hv. 3. landsk. á það, að ef við verðum hengdir fyrir að hafa frestað framkvæmd laga, þá höfum við þó lofsamlegt fordæmi frá fyrirrennurum okkar í ráðherrastöðunni.

Jeg vil þá fyrst nefna gamlan flokksbróður og foringja hv. 3. landsk., Hannes Hafstein. Þingið hafði eitt sinn samþ. lög um lotterí, sem ráðherrann hafði beitt sjer mjög á móti. H. H. neitaði að vísu ekki að framkvæma þau, en hann gerði það, sem meira var, hann neitaði að bera þau undir konung til staðfestingar, en það var þó auðvitað skýlaus skylda ráðherra. Þetta þótti, sem það og var, einsdæmi, og það varð töluverður hvellur út af málinu. Andstæðingar H. H. rjeðust harðlega á hann fyrir þetta. Hv. 3. landsk. hefir haldið því fram, að H. H. hafi gert þetta vegna þess, að lögum í öðru landi hafi verið breytt, og hafi íslensku lögin við það orðið óaðgengileg. En þetta kemur alveg í sama stað niður. Það er ómögulegt að deila um það, að H. H. framdi þingræðisbrot með því að neita að bera lögin undir konung. Jeg áfelli H. H. ekkert fyrir það, því að jeg álít, að lotterílögin hafi verið vont mál og það hafi verið þakkarvert að forða landinu frá því, því að það hefði sennilega orðið þjóðinni til skaða og skammar.

Jeg ætla að nefna annað dæmi til, þar sem mjög þýðingarmiklum lögum hefir verið frestað. Þingið 1921 samþykti með miklum meiri hluta lög um fasteignabanka. Stjórnin, sem þá var, en í henni sátu flokksbræður hv. 3. landsk., framkvæmdi ekki þessi lög, og sat hún þó að völdum eitt ár eftir að þau voru samþykt. Síðan kom önnur stjórn til valda, og hún framkvæmdi lögin ekki heldur, og loks kom þriðja stjórnin, en í henni átti hv. 3. landsk. sjálfur sæti, og voru þá lögin ekki heldur framkvæmd, en þeim var þá breytt. Það stendur því að þessu leyti eins á um það mál, sem hjer er til umr., að fyrst var framkvæmd laganna frestað, en síðan var þeim báðum breytt. En sá er munurinn, að frestun laganna um fasteignabankann hafði í för með sjer töf á mjög mikilsverðu máli, sem hefir ólíkt meiri þýðingu en það, hvort mennirnir á varðskipunum fá sitt skrifaða blað einum deginum fyr eða síðar. Landið hefir mjög mikla þörf á fasteignabanka, en hann getur ekki sökum þessarar tafar komið fyr en í fyrsta lagi næsta vetur, ef Íhaldið verður þá, eins og jeg vona, svo vanmáttugt, að það geti ekki spilt fyrir því máli.

Þá kem jeg að lagafrestun, sem hv. 3. landsk. er beinlínis við riðinn sjálfur. Á jeg þar við búnaðarlánadeildina. Hún komst í gegnum þingið þrátt fyrir mikla andstöðu frá hv. 3. landsk. (JÞ), og síðan neitaði hann að framkvæma lögin. En út af þessari frestun kom upp allmikill þytur. T. d. komu fram áskoranir til stjórnarinnar um að framkvæma lögin, frá sjálfu höfuðvígi hv. 1. þm. Skagf., Sauðárkróki. Sá hv. 3. landsk. sjer loks ekki annað fært en að stofna búnaðarlánadeildina, en þó ekki fyr en rjett fyrir þing og á annan hátt en þingið hafði ætlast til. Þannig frestaði hv. 3. landsk. þessu máli, sem var hið mesta hagsmunamál fyrir bændastjettina, ljet þó undan að lokum, sökum þess að hann áleit það „praktiskt“.

Þá vil jeg nefna eitt dæmi enn, en þar er að ræða um bein lögbrot, sem eru miklu alvarlegri en þau, sem jeg nú hefi verið að tala um, og þessi lögbrot koma, því miður, hv. 1. þm. Skagf. við. Einhverjir góðvinir hans fóru í ráðherratíð hans að sækja á hann um að brjóta lögin um atvinnu við siglingar, þannig að menn, sem höfðu ekki næg próf til þess að mega stýra stórum skipum, fengu engu að síður rjettindi til þess. Þetta fór fram með þeim hætti, að því hefði mátt líkja við það, þegar Johan Tezel fór um Þýskaland með kistur sínar, fullar af syndaaflátsbrjefum, og seldi hverjum, sem hafa vildi. Á sama hátt var það, að lögfræðingur einn hjer í bænum hældi sjer af því, að hann gæti útvegað þessar nýmóðins syndakvittanir fyrir 500 krónur. En þegar skipstjórar hjer í Reykjavík frjetta, hvað er að gerast í stjórnardeild hv. 1. þm. Skagf. (MG), þá svellur þeim móður, þeir halda fundi til mótmæla og ljetu hreint ekki friðvænlega. Síðan kemur hv. 1. þm. Skagf. með frv., sem átti að gera þessa verslunarmöguleika löglega. En þá varð fyrst fyrir alvöru alt vitlaust í hreiðri skipstjóranna, og gekk jafnvel svo langt, að þeir höfðu bundið fastmælum, ef þessi fjandi ætti að halda áfram, að þá skyldu þeir einn góðan veðurdag koma með skip sín inn á hafnir og segja Íhaldsstjórninni að senda hina nýju ólærðu skipstjóra til þess að halda uppi siglingunum. En þingið leit öðruvísi á þetta mál en hv. 1. þm. Skagf. Að minsta kosti varð niðurstaðan sú, að frv. steinsofnaði. Hv. 1. þm. Skagf. hætti að selja , eða kanske rjettara sagt gefa, þessi syndakvittunarbrjef, og skrifstofustjóri sá í stjórnarráðinu, sem áður hafði látið þessi brjef úti, með samþykki fyrverandi yfirmanns síns, rekur nú þveröfuga út þá menn, sem koma að biðja um slíkt. Mjer finst það því nokkuð mikil brjóstheilindi hjá hv. 3. landsk., þegar hann og hans flokkur hafa gert sig seka um slíkt, að hann og blöð hans skuli leyfa sjer að deila á okkur hv. 1. þm. Skagf. fyrir að hafa ekki framkvæmt þessi þýðingarlitlu lög um varðskipin, sem við álítum að þingið ætti aftur að taka afstöðu til.

Hv. 3. landsk. endaði ræðu sína með því að tala um, hve vel þyrfti að vaka yfir þingræðinu, og býst jeg við, að margir hv. þm. hafi ekki getað látið vera að brosa að þeim ummælum hans. Því að þegar hv. 3. landsk. bjóst við fyrir nokkrum árum að lenda inn í Íhaldsstjórnina, þá tók hann sjer ferð fyrir hendur til hins fyrirheitna lands einveldisins, Ítalíu, og var sagt, að hann færi þangað til þess að læra ofbeldisstjórn af Mussolini. En þegar þangað kom, þá mun, sem betur fer, hið friðsama, húnvetnska geð hafa orðið yfirsterkara, því að það er enn til mynd af honum, þar sem hann stendur á Markúsartorginu í Feneyjum, og sitja hinar friðsömu dúfur á öxlum hans sem tákn friðarins, og sýnir sú mynd, að þá var hann að minsta kosti í friðarhug, en ekki í blóðsúthellingarþönkum. Á næsta þingi komu samflokksmenn hans fram með sitt nafntogaða herfrv., sem minnir átakanlega á svartliðana ítölsku. Það er sú eina tilraun, sem gerð hefir verið til þess að stýra Íslandi með hervaldi, síðan Jörundur hundadagakóngur gerði sína lofsamlegu tilraun, með því að vopna þjófa og annað illþýði. En þegar hv. þm. hvorki tókst að koma upp hernum nje halda meiri hluta, fer honum svipað og refnum, sem ekki náði í berin og sagði því, að þau væru súr, að hann hatar nú alla ofbeldisstjórn og elskar þingræðið, og má telja það vel farið. Jeg hefi nú skýrt mína aðstöðu í málinu og vona, að Íhaldsmenn komi með öll sín skjöl á borðið. Ætti þeim og að vera það óhætt, því að með samþykt frv. í Nd. í dag er þetta mál útkljáð og heyrir sögunni til. Er því óskandi, að fram komi skýring á því, hvernig stóð á því, að Íhaldsstjórnin ljet ekki framkvæma lögin. Það þarf að koma fram játning þessa synduga flokks um, að hann hafi brugðist máli, sem hann þykist hafa trúað á. Munurinn á framkomu minni og hv. 1. þm. Skagf. í þessu máli er sá, að hann framkvæmir ekki mál sem hann hefir barist fyrir og sagst trúa á, en jeg framkvæmdi ekki lögin, sökum þess, að jeg taldi þau óholl fyrir landið. Jeg vil að lokum stinga upp á því við hv. 3. landsk., að hann noti nú þá hernáðaraðferð, sem hann hefir notað hjer í vetur til þess að tefja mál, að láta sína menn rífast innbyrðis. Allir þeir, sem ekki vilja una frestun varðskipalaganna, eiga nú að ráðast á hv. 1. þm. Skagf. og heimta skýr svör af honum, og ef þeir fá ekki fullnægjandi svör, þá eiga þeir að halda ærlegan eldhúsdag yfir honum, annaðhvort hjer eða í sínu eigin eldhúsi.