14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Af því að jeg hefi ekki rjett til að gera nema stutta athugasemd, má jeg ekki nota tímann til þess að svara fyndni hv. 2. þm. Árn. (MT) um kónginn og köttinn.

Hv. þm. sagði, að kóngurinn væri dauður. Ekki veit jeg, hvort ber að skilja það þannig, að hv. 2. þm. Árn. álíti sig leika frekar lausum hala hjer og að það eigi ef til vill rót sína að rekja til þess, að þessi þm. hefir orðið djarfsæknari til sumra hluta á þessu þingi en dæmi eru til, að fyrir hafi komið á Alþingi áður.

Hv. þm. gekk inn á þá röksemd mína, að taka beri tillit til þeirra nota, sem viðkomandi hjeruð hafi haft af vegunum, og hann viðurkennir einnig, að þessi vegur hafi notið meira fjár úr landssjóði en nokkur annar sýsluvegur á landinu. Hann hefir með öðrum orðum gengið inn á þá röksemd, sem kollvarpar þeim grundvelli, er hann byggir skoðun sína á.

Hv. þm. sagði, að með þessari eftirgjöf væri ekki lagt inn á hála braut, heldur væri jeg að reyna að gera hana hála. En hvernig sem því er farið, þá hefir þó hv. þm. skriflað á hálkunni, með því að greiða atkv. við 2. umr. á móti endurgreiðslutill. Rangæinga, en hefir nú lýst yfir, að hann ætli að greiða atkv. með henni.

Það, sem skorti á það, að hann viðurkendi í ræðu sinni, að Rangæingar stæðu jafnt að vígi með kröfurjett í ríkissjóðinn út af byggingu Holtabrautar, þá hefir hann nú viðurkent að fullu, að þeir stæðu jafnt að vígi Árnesingum hvað þetta snerti, með því að lýsa hátíðlega yfir, að hann ætli að greiða atkvæði með þessari endurgreiðslu. Jeg get ekki leitt hjá mjer að benda á það, því það sýnir svo vel sanngirni hv. þm., að hann sagði, að ekki væri sanngjarnt gagnvart Árnesingum að endurgreiða Rangæingum alt framlag þeirra til Holtabrautar, því Árnesingar hefðu greitt 4000 kr. af Flóavegarláninu. Þetta segir hv. þm., þó hann viti, að Flóavegarlánið hefir hækkað um 9 þús. kr. fyrir greiðslufall á vöxtum, og að meiningin er, að þessi upphæð verði líka eftir gefin.

Hv. 2. þm. Árn. sagði einnig, að þegar aldir liðu myndi litið þannig á, að Árnesingar hafi orðið harðast úti um vegaviðhald. Jeg vil minna hv. þm. á, að við erum hjer aðeins að ræða um kostnað og hagnað af veginum um ákveðið árabil, og samkv. því hefir Árnessýsla notið mestra hagsmuna af öllum sýslum landsins af vegunum, hvað sem kann að verða um það sagt, þegar aldir líða.

Ennfremur kvartaði þm. sáran yfir því, að Árnesingar nytu einskis góðs af strandferðunum, en til Borgarnesbátsins væru veittar 30 þús. kr. á ári. Eins og jeg benti hv. þm. á, þá er þessi styrkur til flutninga á norðan og vestanpósti, og ennfremur er þarna innifalinn styrkur fyrir 7–8 ferðir á ári vestur á Breiðafjörð.

Það mætti ef til vill skjóta því að hv. þm., að vegurinn frá Reykjavík til Reykjarjettar í Ölfusi er eingöngu bygður fyrir ríkisfje, — og hvað skyldi snjóbíllinn hafa kostað og fyrir hverja var hann keyptur?

Um búnaðarskóla Borgfirðinga hefi jeg auðvitað ekki annað en gott eitt að segja; annars er nú ekki allur munur á því fyrir Borgfirðinga að sækja þann skóla og menn austan fyrir fjall.

Þá er það Hvítárbakkaskólinn. Hverjum er það að kenna, að Árnesingar hafa ekki komið upp alþýðuskóla. Ekki hefir staðið á fjárframlögunum frá ríkissjóði til þess skóla.

Þá talaði hv. þm. enn um þetta valdboð í sambandi við endurbyggingu Flóavegarins. Jeg hefi áður skýrt þetta fyrir hv. þm. og sýnt honum fram á það, að það er fram komið einungis vegna þess, að Árnessýsla stóð ekki við gerða samninga. Hv. þm. hafði sótt austur í skrifstofu sína upplýsingar um kostnað á viðhaldi Flóavegarins frá 1920 þar til hann var gerður að þjóðvegi. Jeg vil ekki rengja það, sem hv. þm. hafði fram að færa í því efni, enda getur vel verið, að það sje einmitt 1/3 af þessum viðhaldskostnaði, og er þá í fullu samræmi við það, sem jeg hefi sagt.

Hv. þm. reyndi að draga úr þeim orðum sínum, að ekkert orkaði tvímælis, sem stjórnin tæki í fjárlögin. En hann sagði: „Stjórnin tekur ekkert upp í fjárlögin, sem orkar tvímælis“. Jeg skrifaði þetta orðrjett upp eftir hv. þm.

Þá vildi hv. þm. gefa í skyn, að með athugasemdinni, sem jeg vil hnýta aftan í eftirgjafartll., væri stefnt til lögbrota. Það liggur auðvitað undir forseta að skera úr því, en jeg hjelt, að hv. þm. gæfust nóg tækifæri til þess að auglýsa fákænsku sína um það, sem að lögfræði lýtur, þó hann væri ekki að flíka slíkri fjarstæðu sem þessari hjer á Alþingi.

Tillagan er að formi og efni til fullkomlega frambærileg og auk þess rjettmæt og sjálfsögð, eftir því sem á undan er gengið í því máli austur þar. Hjer er ekki farið fram á annað en það, að Árnessýsla inni þær skyldur af hendi, sem henni ber og allar aðrar sýslur landsins verða að gera. Er síður en svo, að hjer sje um nokkurt lagabrot að ræða.

Hv. þm. árjettaði það enn, hve erfitt hann ætti með að skilja hugsanaferil minn. Hann getur ómögulega skilið það, að þegar búið er að neita öðrum um rjett, sem jeg álít vera hliðstæðan, þá kem jeg með tillögu um að draga úr órjettinum, því að það er vitanlega um minni órjett að ræða, eftir því sem upphæðirnar eru minni.

Svo mintist hv. þm. að lokum á þuráveiturnar þar eystra, sem hann kallar svo. Jeg hefi sjeð þetta erindi, en jeg man, því miður, ekki vel eftir því, en mig minnir, að þarna væri talað um að stífla einhvern áveituskurð. Það er ef til vill í því sambandi, sem þm. er að tala um þuráveiturnar þarna eystra. En hvað það snertir, sem hv. þm. sagði, að áveitufræðingarnir væru svikinn varningur, þá rak jeg mig alveg á það sama og áður, að mjer virðist vera nokkuð djúpt ofan á lögfræðinginn hjá hv. þm. Hv. þm. veit það víst, að þegar um svikinn varning er að ræða, þá er það vitanlega dómstólanna að skera úr um það, hver refsing liggi við, en ekki Alþingis. Jeg býst við, að hv. þm. kannist við það ákvæði stjórnarskrárinnar, sem greinir á milli verksviðs Alþingis og dómstólanna.

Út af því, sem fram kom hjá hv. frsm. fjvn. (BÁ) um það, hvernig heppilegast myndi að afla þeirra sauðnauta, sem talað er um að ná frá Grænlandi, og taldi, að það væri ef til vill heppilegt að nota milligöngu Dana til þess, þá vil jeg svara því, að mjer er ekki kunnugt um, að Danir stundi neinar sauðnautaveiðar á Grænlandi. Sauðnaut eru einungis á Norðaustur-Grænlandi, norðan við Scoresbysund. Þar var nýlega stofnuð Skrælingjanýlenda, en þau hafast þó mest við allmiklu norðar, eða í kringum Franz-Josepsfjörð. Auk þess virðist mjer, að við þurfum ekkert að vera að krjúpa fyrir Dönum, þótt við vildum sækja fáein sauðnaut til Grænlands.

Það er hvorttveggja, ef sannleikurinn og rjettlætið fengi að njóta sín til fullnustu, að við munum eiga þau ítök að fornu og nýju þar norðurfrá, að við mættum ná okkur í nokkur sauðnaut, og auk þess má skilja sambandslögin þannig, að við þyrftum ekki að knjekrjúpa fyrir Dönum, þótt við vildum að einhverju leyti víkja við hendinni á Grænlandi.