11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (2253)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Jón Baldvinsson:

Þessar umr. hafa verið mjer ánægjuefni, þó að ýmsum kunni að hafa þótt þær of langar. Jeg man eftir því frá undanförnum þingum, að jeg þurfti, sem eini maðurinn í mínum flokki á þingi, að taka mikinn þátt í umræðum um málin, sem fyrir komu, til að koma að skoðunum flokks míns á þeim málum. Þá var það ekki síst hv. 3. landsk. (JÞ), sem þótti jeg tala óþarflega oft og mikið. En nú hnígur hv. þm. að þessu sama ráði. Hann notar þann rjett, sem þingsköpin veita honum í þessu efni, og kanske freklega það.

Flestir bjuggust við, að þetta mál mundi verða eitt mesta deilumálið á þessu þingi. Svo mikill úlfaþytur hefir orðið um það í blöðum Íhaldsins, að menn hjeldu, að nú mundi Íhaldið rísa öndvert gegn því þegar við 1. umr. Það var fullkomlega þingleg aðferð. Stjfrv. var lagt fram, og allir hv. þm. munu minnast þess, að enginn tók til máls af Íhaldsmönnum. Þetta var alment skoðað sem uppgjöf Íhaldsmanna í þessu máli.

Það kann að vera, að hv. 3. landsk. hafi brugðist vonum flokksmanna sinna, og það er kanske þess vegna, að þeir vilja nú hegna honum með því að láta hann vera fyrstan á blaði hjer um þessa ályktun. Jeg skoða það sem hegningu, að hann skuli þurfa að gera þetta, þar sem í dag, með samþ. frv. um varðskipin, er búið að gefa hæstv. dómsmrh. fulla kvittun, ef hans sök er nokkur.

Hv. 3. landsk. og hæstv. dómsmrh. hafa farið inn á ýms atriði út af lögbrotum fyrverandi stjórna. Háttv. 3. landsk. var að afsaka lögbrot embættisbróður síns, 1. þm. Skagf. (MG), um undanþágurnar frá siglingalögunum, og skilst mjer hann vilja nú koma þessu yfir á kónginn! Jeg veit ekki, hvort því er þannig varið. En hv. 3 landsk. og hv. 1. þm. Skagf. (MG) geta eflaust upplýst, hvort fyrir lágu beinar fyrirskipanir frá konungi um að veita þær undanþágur, er veittar voru í þeirra stjórnartíð. Hv. 3. landsk. sagði líka, þegar hann var að svara því, að einn fyrv. ráðh. hefði ekki borið upp lagafrv. fyrir konung, að gert væri ráð fyrir því í stjórnarskránni, að slíkt mætti koma fyrir. Við þetta er það að athuga. að hv. 3. landsk. gleymdi að geta þess, að ef konungur neitar staðfestingu, er afleiðingin sú, að hlutaðeigandi ráðh. hlýtur að leggja niður embætti. En það mundi vafalaust verða svo í þingræðislandi, þegar konungur neitaði um staðfestingu á lögum, að engir fengjust til þess að taka við stjórnartaumunum.

Hv. 3. landsk. var svo hæverskur, að hann sagði, að flm. tillögunnar ætluðust ekki til, að hún væri skoðuð sem vantraust á hæstv. dómsmrh. En jeg er hræddur um, að ef hv. 3. landsk. segir þetta í alvöru, hafi hann ekki lesið þá tillögu, sem hann flytur sjálfur. Ef till. verður samþykt, hlýtur hæstv. dómsmrh. að láta af völdum. Tillagan er ekkert annað en vantraustsyfirlýsing á hæstv. dómsmrh. Það er best að nefna hlutina sínum rjettu nöfnum.

Út af dagskrártill. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vil jeg taka það fram, fyrir hönd mína og flokksmanna minna hjer á Alþingi, að hafi verið framin lögbrot í sambandi við varðskipalöggjöf ríkisins, þá er byrjunin hjá fyrv. stjórn, og þess vegna munum við samþykkja dagskrártill. hv. 1. þm. S.-M.