11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (2254)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg þarf ekki að segja nema fáein orð, því að hv. aðalflm. tillögunnar hefir lýst yfir því, að hann meini ekkert með henni. Mjer skildist hann helst boða stjórninni fylgi af því að hann gat ekki hugsað sjer það ólán, að jeg færi að hverfa frá stjórnarstörfum. En hitt, að í tillögunni kunni að felast annað en hv. flm. hefir áttað sig á, kemur mjer ekkert við að svo stöddu. Hinsvegar hefir það komið í ljós, að málið horfir við alveg eins og jeg hjelt fram. Það er ekki til neins að neita því, að atkvæðagreiðsla í þinginu hefir hvað eftir annað sýnt, að helstu samherjar hv. 3. landsk. hafa verið mótfallnir landhelgisvörnum, og enginn meir en Jón heitinn Magnússon. Hv. 3. landsk. hefir ekki getað neitað þessu, en hann sagði, að ýmsir Íhaldsmenn hefðu lagt í skipið. En það var safnað til skipsins sem björgunarskips, og það var keypt sem björgunarskip. Það, sem á reyndi, var aðstaðan á þingi. Því verður ekki neitað, að bændaflokkurinn tók betur í þetta mál sem pólitískt mál en fulltrúar útgerðarmanna. Það var fyrst, þegar búið var að bjarga málinu, að það fór að fá fylgi hjá mönnum eins og hv. 3. landsk. Alveg sama máli gegnir um landnámssjóð. Hv. þm. greiðir því máli nú fyrst atkv., sitt, þegar hann sjer, að hann getur ekki rönd við því reist.

Staðreyndirnar tala ljósast um, hvernig fór með byggingu „Óðins“. Það var höfuðhneyksli, eins og allir vita, fyrir helbert þekkingarleysi og hroka þeirra, sem með völdin fóru. Það var ekki einu sinni leitað til þess manns, sem besta þekkingu hafði á slíkum málum, fyr en eftir dúk og disk.

Öllum eru í fersku minni viðburðirnir í vetur. Þvert ofan í sannanir um það, að íslensku togararnir væru verstu landhelgisbrjótarnir, rís upp meðal samherja hv. 3. landsk. mikill mótþrói gegn öruggu eftirliti. Þetta varð til þess, að málið dagar sennilega uppi í þetta sinn. Þetta á svo að heita umhyggja fyrir landhelgisgæslunni! Ef málið kemst fram á næsta þingi, verður það fyrir atbeina þeirra, sem eru á móti Íhaldsmönnum. Nei, áhugi Íhaldsmanna fyrir landhelgisgæslunni hefir aðallega komið fram í því, að skipstjórar og vjelameistarar hafi sem mest laun. Það sannaðist best í dag, þegar þeir hurfu frá því að bæta kjör hinna lægri yfirmanna. Hv. 3. landsk. játaði, að stýrimennirnir hefðu verið ranglæti beittir. Hvers vegna lagaði hann það ekki? Nú er það samþykt af báðum deildum þingsins gegn atkvæðum hv. 3. landsk. og stuðningsmanna hans, að þessi breyting gangi í gegn sem viðurkenning þess, að núverandi þing vill ekki ganga inn á þann slappa hugsunarhátt, sem jeg hefi lýst og einkent hefir hv. 3. landsk. frá byrjun í þessu máli.

Með þessum orðum er alment svarað viðhorfinu til málsins. Jeg er sjerstaklega ánægður með það, að sá flokkur, sem jeg vinn með, tekur þannig á landvarnarmálunum, að vilja gera landvarnirnar sterkari með ári hverju, og ekki síst koma þannig fram, að vilja veikja aðstöðu þeirra, er með loftskeytum hjálpa til lögbrota fyrir íslenska útgerðarmenn. Það er annars dálítið hlægilegt, að hv. 3. landsk. og hans samherjar skuli vera að tala um lögbrot, þegar það er viðurkent, að helstu stólpar flokksins, útgerðarmennirnir, eru altaf að brjóta lögin. Hv. þm. Snæf. (HSteins) gæti gefið okkur enn einu sinni lýsingu á því, þegar verið er að sópa Ólafsvíkina, og þar eru Íslendingar ekki betri en aðrir. Svo þegar á að reyna að skera á sambandsliðinn, sem hjálpar til að skapa lögbrotin, þá er ekki nema mótstaða og skammir og vonska, bæði í þinginu og málgögnum. flokksins. Nei, það er ekki verið að hugsa um stóru lögbrotin, heldur þessa litlu töf hjá okkur hv. 1. þm. Skagf., að við frestuðum lögunum. Annars verð jeg að vitna, að mjer finst dálítið merkilegt, að hv. 3. landsk. skuli tala um lögbrot. Jeg vildi ekki fara nánar út í það við hann, ef hann gæfi ekki svo ríkulegt tilefni. En hann er eini maðurinn í þessum sal, mjer vitanlega, sem hefir á sjer stóradóm fyrir mjög vítavert brot á lögum landsins. Og maðurinn, sem dæmdi hann, situr hjá honum í sama bekk, þar sem er hv. þm. Seyðf. (JóhJóh). Hv. 3. landsk. hlýtur að vera ljóst, að nafn hans er skrifað í plöggum dómara í Reykjavík, sem eins af þeim mönnum, sem brjóta lög landsins. Þegar minst var á smyglun í sambandi við áfengislögin í Ed. — en það var ekkert verið að tala um flokksforingja, sem koma með smyglað vín í land — þá gerir formaður Íhaldsflokksins uppreisn. Var það alment skilið svo, að þetta snerti sjálfan hv. þm. illa, því að honum væri ljóst, að hann væri dæmdur maður. Þingið feldi hans till. um það að gera áfengislögin meir að skapi lögbrjóta. En jeg get fullyrt, að í fyrstu datt engum manni í hug hv. 3. landsk.; menn voru að hugsa um þessa smáræfla, sem lifa á því að selja vín.

Það tók ekki betra við, þegar hv. þm. fór að afsaka þau stóru og alviðurkendu brot, sem hafa komið fyrir á þinginu áður. Jeg skal bæta einu dæmi við. Hv. þm. (JÞ) hjelt fram, að Hannes Hafstein hefði ekki brotið lög með því að bera ekki frv. fyrir konung. Er hann svona illa að sjer í parlamentiskum fræðum? Það er skýlaus skylda í öllum parlamentiskum löndum, að stj. á að leggja frv. fram fyrir konung. Hv. þm. var eitthvað að spjalla um það, að ef konungur samþ. ekki lögin, gengju þau ekki í gildi. Jeg hefi ekkert sagt um það, en aðeins nefnt þessa staðreynd, að ráðherra bar ekki upp lögin, og þess vegna fjellu þau úr gildi.

Ef hv. þm. (JÞ) vildi kynna sjer umræðurnar um þetta mál frá þeim tíma, þá getur hann verið viss um, að meira en helmingur þjóðarinnar áleit, að Hannes Hafstein hefði brotið þingræðisreglur.

Þá vil jeg minnast á lögin um fasteignabankann, sem fyrv. stjórn frestaði að framkvæma. Hv. þm. sagði, að ekki hefði verið hægt að framfylgja þeim. Jeg vil benda hv. þm. á það, að um það leyti sem þessi lög voru samþ. var tekið tíu milj. króna lán, sem að mestu leyti fór í Íslandsbanka og að nokkru leyti í eyðslufje hjá stjórninni. Jeg held það sje því ekki hægt að bera við peningaleysi, en jeg hefi aldrei heyrt um neinn viðbúnað hjá Íhaldsstjórninni til að framkvæma lögin. Hún var á móti þeim og ljet því ekki framkvæma þau.

Um búnaðarlánadeildina sagði hv. þm. ósatt. Það er öllum kunnugt, að hann átti að framkvæma lögin undir eins. Það var hamast á honum af andstæðingunum. Sá maður, sem nú er forsrh., gerði það dyggilega, og seinast var hann búinn að gera svo heitt fyrir hv. 3. landsk., að hann ljet undan með hangandi hendi af nauðung. Þetta var þó látið niður falla, eftir að búið var að kúga ráðherrann.

Einna ljótast er, þegar hann ætlar að fara að afsaka lögbrotin með skipin. Mjer skildist á honum, að það væri svo um sum lög, að þegar venja væri að brjóta þau, þá mætti gera það. Væntanlega sjá Íhaldsmenn, að þessi skýring getur snert varðskipamálið. Ef minn ágæti fyrirrennari var búinn að skapa venjuna, hví mátti eftirmaðurinn ekki fylgja henni? Ef við höldum okkur við það, að þetta hafi verið lögbrot með varðskipin, sem jeg held þó ekki, heldur aðeins frestun, þá eru mörg ágæt fordæmi frá Íhaldinu.

Hv. þm. reyndi ekki að mótmæla, hvernig skipstjórarnir tóku lögbroti hv. 1. þm. Skagf. um atvinnu við siglingar. Þeir kúguðu Íhaldsflokkinn eins og „Tíminn“ hv. 3. landsk. í málinu um búnaðarlánadeildina. Þeir kúguðu ráðherrann til þess að hætta við þessi lögbrot. Ef það hefði verið sjálfsagt að byggja á venjunni, eins og hv. þm. vildi vera láta, þá býst jeg ekki við, að neitt frv. hefði komið fram til að gera það löglegt. Það liggur því fyrir sönnun um það, að þetta þurfti að heimila með lögum, ef það hefði átt að halda áfram þessari verslun, sem var orðin svo arðsöm fyrir einn af vinum fyrv. stjórnar, að útvega þessi leyfi. Eftir að skipstjórarnir höfðu sýnt mótstöðu var svo ekki veitt eitt einasta leyfi. Er ekki vafi á því, að skipstjórarnir eiga aðalheiðurinn af því að stöðva þessi lögbrot fyrv. stjórnar.

Enn vil jeg bæta við dæmi úr lífinu um lögbrot Íhaldsstjórnarinnar. Eftir því, sem mjer er sagt af kunnugum mönnum í stjórnarráðinu, þá hefir fyrv. atvmrh (MG) um 30–40 lögbrot á samviskunni um að hafa gefið vjelstjórum undanþágu. Jeg vil nú skjóta því til hv. þm., hvort maður megi ekki ganga eftir þessari brú, sem hann hefir bygt? Eða vill ekki hv. þm. gera nánari grein fyrir þeim lögbrotum, sem má fremja í skjóli venjunnar? Hann er eiginlega búinn að lýsa yfir því, að það sje einhver partur af grein í stjórnarskránni, sem geti komið til greina sem stuðningur fyrir slíku.

Það er engum blöðum um það að fletta, að eins og þessi hv. þm. (JÞ) er í öllum heiminum einn um þá kenningu, að rjett sje að hafa tekjuhalla í fjárlögum, ef stjórnarandstæðingum líkar ekki við stjórnina, svo verður hann og einn um þá kenningu, að sum lög eigi einskonar kröfu til að vera brotin af Íhaldinu.

Eitt fanst mjer tilfinnanlega vanta í ræður hv. Íhaldsmanna í kvöld. Þeir hafa ekki gert grein fyrir því, hvers vegna það líða þrír mánuðir með önnur lögin, sem jeg nefndi, og tveir mánuðir með hin, að ekkert er gert. Það hljóta að vera ósannindi hjá hv. þm. um launakjörin, að þeim hafi verið komið fyrir eftir nýju lögunum, því að þegar jeg tók við af honum, sagði jeg við skipstjórana og gjaldkerann: Við höldum nákvæmlega sama forminu og verið hefir áður. Ennfremur voru á „Þór“ mestu vandræði um launamálið í alt sumar. Hásetarnir og yfirmennirnir vissu hvorki upp nje niður. Þeir spurðu: Hvenær koma brjefin? Skipstjórinn svaraði: Brjefin koma einhverntíma. Erum við þá settir? Nei, ekki er hægt að segja það. Hvað erum við þá? — Þeir fengu aldrei að vita það. Altaf stóð á því, að hv. 1. þm. Skagf. gæti gefið skýr svör um ráðninguna.

Hv. þm. veit, að það er rangt, að það hafi ekki verið hægt að borga hásetum út, af því að enginn maður í Reykjavík hafi verið til að taka á móti laununum. Eða veit hann það ekki, þessi hv. þm., að launin ganga frá gjaldkera til skipstjóra? Venjulega er það svo stýrimaður, sem útborgar mönnunum.

Eftir því, sem mjer er kunnugt, voru á seinustu dögum fyrv. stjórnar tekin upp öll nöfn skipverja eftir nafnalista, og það var svo sem ekki verið að rekja ættartölu þeirra til Jóns Arasonar eða þvílíkt. Þessi skjöl liggja hjá mjer á skrifborði mínu, og ætti jeg líklega helst að gefa þau Hannesi Þorsteinssyni handa skjalasafninu. Það hefir ekkert gerst annað en það, að stjórnin, sem hv. 3. landsk. stýrði, notaði önnur lögin í þrjá mánuði, en trassaði hin lögin í tvo mánuði. Eina ástæðan sem Íhaldsstjórnin ber fram sjer til varnar, er annríki, en hún er of lítilfjörleg og niðrandi fyrir stjórn. Jeg vil. ekki taka hana gilda.

Þá kom hann með skrásetninguna og sagði, að nú væru skipverjar skráðir, en áður ekki. Hefir hv. þm. athugað, að það var komið fram í ágúst, þegar skipverjar á öðru skipinu voru afskráðir, en fram í sept., þegar þeir voru afskráðir á hinu? Fyrv. stjórn hjelt áfram að hafa mennina skrásetta, og jeg sömuleiðis, að hennar fordæmi. Það er undarlegt, að þetta er það eina, sem jeg hefi tekið alveg eftir fyrv. stjórn, og það er líka ekki sparað að víta mig fyrir það. Jeg veit, að maður á ekki að fara í íhaldsgarmana of oft, en að það sje dauðasök, og það sjerstaklega í augum Íhaldsmanna, að gera það einu sinni, og það í nauða lítilfjörlegu máli, það get jeg ekki vel fallist á. Það stendur altaf eins og kökkur í hálsinum á öllum Íhaldsmönnum, þegar talað er um þetta mál, sú staðreynd, sem tekin er fram í dagskránni, að alt, sem hægt er að setja út á mig í þessu efni, er ekki annað en framhald af verki fyrirrennara míns; og því meira sem þeir ásaka mig fyrir að framkvæma ekki varðskipalögin, því meir ásaka þeir sig sjálfa. Hjá þeim er upphafið og orsökin. Þess vegna standa þeir nú undir skothríðinni frá sínum blöðum og sjer sjálfum, og hver einasta kúla, sem þeir senda af stað, hittir þá sjálfa.

Jeg hefi marglýst yfir því í þinginu, að það væri velkomið að koma með till. um landsdóm. Ef Íhaldið í raun og veru er trúað á sekt hv. 1. þm. Skagf., þá er svo sem sjálfsagt að prófa á honum landsdómslögin.