11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (2256)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla aðeins að segja fáein orð út af ræðu hæstv. dómsmrh. (JJ). Mjer skildist það vera rauði þráðurinn í ræðu hans að sýna fram á, að allir ráðherrar hefðu brotið lög, og síðast komst hann svo langt að segja, að núverandi forsrh. (TrÞ) hefði líka brotið lög. Aðalvörn hæstv. ráðh. (JJ) er því þessi: Aðrir hafa brotið lög, og því má jeg ekki gera það líka? En slíkt er engin vörn, heldur viðurkenning brotsins.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það hefðu liðið margir mánuðir frá því að varðskipalögin gengu í gildi og þangað til fyrverandi stjórn fór frá. Sannleikurinn er sá, að launalögin gengu í gildi 1. júlí, en stjórnarskiftin urðu seint í ágúst. Sjá því allir, að ekki hefir verið um marga mánuði að ræða, eins og ráðh. sagði. Og, mikið af þeim tíma var jeg fjarverandi. Segi jeg það þó ekki til þess að skjóta mjer undan ábyrgð.

Að fyrv. stjórn hafi ekkert gert í þessu máli, er hreinasta fjarstæða. Þvert á móti voru lögin komin í framkvæmd, þar sem búið var að skipa svo fyrir að borga út laun samkvæmt þeim. Dagskrártill. hv. 1. þm. S.-M. er því algerlega röng, þar sem í henni segir, að fyrv. stjórn hafi skotið framkvæmd laganna á frest. Hún gerði það alls ekki, en núverandi stjórn ljet hætta að borga, launin, þvert ofan í ákvæði laganna. Að halda því fram, að það sje sambærilegt, sem fyrv. og núverandi stjórn hafa gert í þessu máli, er alveg það sama og segja, að þveröfugir hlutir sjeu eitt og hið sama. Annars verður gaman að sjá meiri hl. þingsins, þegar atkvgr. fer fram, samþykkja ályktun, sem inniheldur skjallega sannanleg ósannindi, því að flestir mundu telja það ósamboðið virðingu þingsins.

Það er alls ekki meining mín að fara að elta hæstv. ráðh. út á öll þau klungur, sem hann fór um í ræðu sinni, eða að fara að eltast við þau atriði, sem hann fór út í og ekkert koma málinu við. Eins og t. d. það, að mennirnir hefðu ekki dáið eða fengið kvef, þó að lögin hefðu verið brotin á þeim.

Mjer þótti náttúrlega vænt um að heyra af vörum hæstv. dómsmrh., að hann hefði enga trú á því, að jeg væri sekur í þessu máli eða hefði hið minsta af mjer brotið. Þetta gladdi mig mjög, eins og gefur að skilja. En jeg get ekki borgað honum í sömu mynt, því hann hefir farið alveg öfugt að við það, sem jeg gerði. Hann hefir brotið lögin, og fyrir það á að víta hann.