09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (2266)

67. mál, endurskoðun fátækralaganna

Flm. (Halldór Stefánsson):

Það kann að þykja dálítið undarlegt að bera fram svona till., að nýafstaðinni endurskoðun þessara laga, sem fram fór á síðasta þingi. svo hefði það líka verið, ef sú endurskoðun hefði tekist vel eða á viðunandi hátt.

En jeg og margir fleiri telja, að hún hafi verið sumpart ófullnægjandi og sumpart mishepnuð. Ófullnægjandi að því leyti, að ekki tókst að ráða bót á þeim verstu annmörkum, sem verið hafa á þessum málum undanfarið, sem myndast hafa undir því skipulagi fátækramálanna, sem verið hefir. Þar til má nefna fátækraflutninga; það er ekki nein bót ráðin á þeim. Annað það, að ekki hefir tekist að vinna neitt svig á því mikla málavafstri og skriffinsku, sem fylgir þessu fyrirkomulagi. Og síðast en ekki síst, að ekki hefir ráðist nokkur bót á því mikla misrjetti, sem er um álöguþunga á menn í einstökum framfærsluhjeruðum.

En að því leyti til er þessi endurskoðun mishepnuð, að jeg tel, að það hafi verið stigið spor aftur á bak með því að lengja, í mörgum tilfellum, sveitfestitímann, þar sem svo var ákveðið, að því aðeins nægði fjögurra ára tími til þess að vinna sjer sveitfesti, að viðkomandi hefði ekki þegið af sveit næstliðin tíu ár. Þetta var sett inn í fyrra í Ed., og það tel jeg vera spor aftur á bak.

Svo er að síðustu það atriðið, sem átti að vera til þess að bæta úr því misrjetti, sem þótti vera um suma af þeim, sem fátækrastyrks hafa orðið aðnjótandi, að þeir mistu mannrjettindi. Það var gerð tilraun til þess að ráða bót á því, en jeg tel, að sú tilraun sje mishepnuð, eða að minsta kosti mjög athugaverð. Jeg tel mjög athugavert að leggja það í vald einnar hreppsnefndar eða bæjarstjórnar á landinu, hvort menn skuli missa eða halda mikilsverðum mannrjettindum. Jeg tel það mishepnað að formi til, og að efni til líka. Þessar eru þá höfuðástæður fyrir því, að þessi till. er fram komin. En þó miðar hún fyrst og fremst að því að minka það misrjetti, sem er á álöguþunga til fátækramála, eftir því hvar menn eru búsettir á landinu. Ætla jeg að víkja að því atriði sjerstaklega lítið eitt nánar.

Gjöldin til fátækraframfærslunnar eru algerlega almenns eðlis. Það eru útgjöld, sem beinlínis eru lögskipuð í stjórnarskrá landsins. Af því leiðir, að þau eiga að koma niður á gjaldþegnana. alveg á sama hátt og önnur útgjöld, sem eru almenns eðlis. En það er langt frá því, að svo sje.

Það var oft vikið að þessu í umræðunum um þetta mál í fyrra, og seint í umræðunum lagði jeg fram fyrir þingið dálítið yfirlit um þetta, sem sýndi, hve stórkostlegt þetta misrjetti er. Jeg tók fátækrabyrði eins árs, ársins 1924–25, og jafnaði henni niður eftir manntali, og þá kom það fram, að mismunur á hámarki og lágmarki gjalda til fátækraframfærslu hefir getað verið og hefir orðið meira en hundraðfaldur, — meira en hundraðfaldur munur á því, hvað þungar álögur hafa komið á menn, eftir því hvar þeir eru búsettir. Taki maður aftur sýslur og beri saman meðaltal fátækrabyrði þeirra, þá munar þetta ekki alveg eins miklu; hlutfallið er 110 móti 3 á þessu ári, sem jeg tók til. Taki maður hinsvegar kaupstaði og bæi og beri saman, var hlutfallið á því ári eins og 47 móti 19, meira en helmingsmunur. Meðaltalið á öllu landinu var þetta ár, miðað við mannfjölda, nálega kr. 10,50 á hvert nef. Beri maður saman meðaltal og hámark, þá er hlutfallið þar á milli eins og 206 á móti 21. Hámarkið fór þannig næstum tífalt fram yfir meðaltal.

Jeg get nú ekki sjeð, hvernig því verður unað, að þetta misrjetti sje látið eiga sjer stað í frjálsu landi. Og jeg get ekki sjeð, að menn geti unað við, að ekki verði gerð alvarleg og ítarleg tilraun til þess að jafna það. Jeg kalla það mikið rólyndi, ef mönnum finst engra aðgerða þörf í þessu efni.

Við umræðurnar í fyrra var bent á ýmsar leiðir, sem verða mættu til þess að jafna þetta misrjetti. Róttækasta uppástungan var sú, að afnema algerlega skiftingu landsins í framfærsluhjeruð, gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Þetta er hugsunarlega rjett. Og það mun nú alment viðurkent, að svo sje, og á það hefir verið bent fyrir löngu, af hv. þm. Borgf. (PO) fyrstum manna, að jeg hygg. En að menn hafa samt sem áður ekki fallist á þessa tilhögun, stafar af því, að menn óttast mjög, að það leiði til þess, að fátækrabyrðin í landinu í heild verði miklum mun þyngri en nú er. En það stafaði þá aftur af því, að ekki yrði eins rík hvöt hjá mönnum að hafa athygli á, að fátækrabyrðin verði sem minst.

Önnur leið er sú, að halda að vísu skiftingunni, en jafna álöguþunganum eftir á á einhvern hátt. Til dæmis mætti benda á, að það mætti hafa eitthvað líkt fyrirkomulag um þetta eins og um berklavarnakostnaðinn.

Svo var loks bent á það í þriðja lagi að halda skiftingunni eins og hún er, en breyta sveitfestiákvæðinu, þannig að afnema dvöl, lengri eða skemmri, sem skilyrði fyrir sveitfesti og binda sveitfesti einungis við heimilisfang. Það er trú sumra manna; að á þann hátt mundi fást nokkurskonar sjálfvirk jöfnun á þessu. Að það yrði fullkomin jöfnun, held jeg að menn treysti sjer ekki til að vona, en nokkur jöfnun.

Aðalástæðan til fólksstraums um landið er vitanlega atvinnuskilyrðin. Þangað streymir fólkið, sem eru góð atvinnuskilyrði eða atvinnulíkur; og þá er ekki líklegt, að á þeim stöðum verði meira en í meðallagi þung fátækrabyrði. Aftur streymir fólkið þaðan, sem atvinnuskilyrði eru rýrari; og þess vegna er eðlilegt, að þar mundu verða tiltölulega þyngri álögur. En þó mundi munurinn ekki verða nálægt því svo stór sem hann nú er. Því að það hefir orðið til þess að auka á þetta misvægi, að fólk, sem hefir leitað burt frá þeim hjeruðum, þar sem þröng eru atvinnuskilyrði, og borið svo upp á sker einhversstaðar á landinu, hefir þá komið heim á framfæri í þessum örpíndu hjeruðum.

Jeg hefi áður í umræðum um þessi mál bent á aðra kosti, sem þetta fyrirkomulag hefir fram yfir það núverandi, nefnilega að það myndi ráðast bót á tveimur öðrum höfuðgöllum, sem á því eru. Annar er fátækraflutningarnir, sem myndu hverfa að mestu leyti, en hinn er málavafstur og skriffinska, er myndi mjög minka. Auk þess ljetti það kostnaðinn, því að vitanlega kostar slíkt bæði tíma og fje.

Þessar tvær stefnur, að hafa sveitfestina langa eða stutta, hafa ýtst nokkuð á hjer á landi um langan tíma. Það var þegar fyrir aldamótin, að tvisvar sinnum náðist samþykki þess í Ed. að hafa sveitfestina ekki nema eitt ár, en fjell í Nd. Þriggja manna milliþinganefnd var skipuð í fátækramálum 1901, þar sem áttu sæti Jón heitinn Magnússon, Magnús heitinn Andrjesson og Guðjón Guðlaugsson. Sú nefnd skiftist einmitt um þetta atriði. Meiri hl. lagði til að stytta sveitfestitímann niður í tvö ár, að mig minnir. Þeir veigruðu sjer við að stíga sporið fult, af því að þeir urðu varir við mótspyrnu gegn því. Minni hluta till. var 10 ár, og hún sigraði þá eins og endranær.

Þegar reynsla á þessari tilhögun, sem hefir verið frá upphafi, er ekki betri en jeg hefi verið að lýsa hjer, þá er það undarlegt, ef nokkur von væri, að bót rjeðist á þessum verstu agnúum að meira eða minna leyti, að menn skuli samt sem áður ekki vilja fallast á það að reyna nú hina leiðina um tíma.

Jeg hefi mest dvalið við þetta atriði, af því að það er atriði, sem jeg vil helst festa í minni hæstv. stjórnar, ef hún fær þetta mál til athugunar, en ekki af hinu, að jeg ætlist ekki til, að allar leiðir standi jafnt opnar, bæði þær, sem jeg hefi bent á, og þær aðrar leiðir, sem mönnum kynni í hug að koma.

Jeg hefi þá reynt að nokkru að lýsa, hvað fyrir mjer vakir með þessari till., og vænti, að menn geti fallist á, að hún sje ekki að ástæðulausu fram borin.