04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (2274)

67. mál, endurskoðun fátækralaganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Það er nú orðið nokkuð langt síðan fyrri hluti umræðu um þetta mál fór fram. Nál. meiri hl. allshn. er dags. 16. febr. og nál. minni hl. 21. s. m. Var jeg satt að segja farinn að halda, að málið mundi varla koma til umræðu á þessu þingi, og af þeim ástæðum hefi jeg eigi búið mig undir að hafa framsögu fyrir hönd meiri hl. En eins og hv. þdm. geta sjeð á þskj. 211 og 257, hefir allshn. ekki getað orðið sammála um till. Meiri hl. nefndarinnar leggur til, að hún verði samþ.

Þó að ný fátækralög væru samþykt á þinginu í fyrra, voru talsvert skiftar skoðanir um, hvort þær breytingar, sem þá voru samþyktar, væru til bóta. Undanfarin ár hafði verið rætt mikið um, að nauðsynlegt væri að rannsaka fátækralögin, og báðar deildir Alþingis látið í ljós álit í þá átt. Til þess að verða við þessum óskum lagði hæstv. fyrv. stjórn fyrir þingið í fyrra frv. til fátækralaga, og var það samþykt. En eins og allir vita, var í þessu frv. mjög lítið tillit tekið til óska almennings. Lögin frá í fyrra voru að mestu leyti endurprentun á eldri lögum, þannig að ýms lagaákvæði voru færð í eina heild. en fá nýmæli gerð. Má helst nefna ákvæði um, hvenær fátækrastyrkur skuli vera afturkræfur. Því sýnist meiri hl. að flestar sömu ástæður, sem mæltu með endurskoðun laganna fyrir tveim árum, sjeu enn fyrir hendi, og þess vegna leggjum við til, að tillagan verði samþykt.

Hv. flm. taldi aðalástæðuna fyrir till. þá, hve fátækraframfærslan skiftist ójafnt milli einstakra hjeraða. Meiri hl. er honum algerlega samþykkur um, að þarna eigi sjer stað misrjetti. Það er bersýnilegt ranglæti, hve byrðin af skyldu þjóðarinnar til að ala önn fyrir þeim, sem ekki geta sjeð fyrir sjer sjálfir, kemur ójafnt niður á þegnunum. Í því er ekki nokkurt samræmi. En í till. er engu slegið föstu öðru en því, að skora á stjórnina að athuga eða láta athuga leiðir til að bæta úr göllunum.

Annað atriði, sem veldur óánægju með fátækralögin, er rjettarskerðing sú, sem þeir menn verða fyrir, er fátækrastyrk þiggja. Getur verið, að sumir þeir, sem æskja endurskoðunar fátækralaganna, leggi aðaláhersluna á þetta atriði. Jeg lít fyrir mitt leyti svo á, að ef úr því ætti að bæta, mundi sú umbót ekki eiga heima í fátækralögunum, heldur annarsstaðar. Ljet jeg þessa skoðun í ljós við umræður í fyrra. Jeg fylgi því ekki till. af þessum ástæðum, heldur vegna þess, hve gjaldabyrðin kemur ójafnt niður.

Að öðru leyti gerði hv. flm. till. svo glögga grein fyrir henni við fyrri hluta þessarar umr., að jeg sje ekki ástæðu til að fara um hana fleiri orðum.