04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (2276)

67. mál, endurskoðun fátækralaganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Hv. frsm. minni hl. (MG) nefndi fyrst þá ástæðu gegn því að samþykkja till. þessa, að þingið í fyrra hefði gengið frá fátækralögunum og samþykt þau með allmiklum meiri hl. Jeg held, að þetta sanni ekkert. Síðan hafa farið fram kosningar, og er því ekki hægt að vita, hvort þetta þing lítur eins á málið og þingið í fyrra.

Hv. þm. sagði, að aðalástæðan fyrir því, að tillaga þessi kemur fram, væri sú, hvað fátækraframfærslan kemur misjafnt niður. Ein till. til lagfæringar á þessu hefði komið fram í fyrra, sem sje að gera landið að einu framfærsluumdæmi. Hún hefði verið feld. Þetta er rjett. En eins og jeg tók fram áðan, þá eru til fleiri liðir en þessi. Hv. frsm. minni hl. (MG) nefndi sjálfur ýmsar aðrar leiðir. Finst mjer vel vert, að þær sjeu rækilega athugaðar. Hann bjóst við, að framfærið yrði dýrara, ef þær leiðir væru farnar. En jeg hygg, að finna mætti leið til þess að gera byrðarnar jafnari, án þess að hvötin til sparnaðar í sveitarstjórnunum yrði numin burtu. Það mætti t. d. hugsa sjer, að þannig yrði farið að, að ríkið tæki að sjer hluta af fátækraframfærslunni. Sá hluti, sem á hinum einstöku sveitum hvíldi, ætti að verða sveitarstjórnunum næg hvöt til að halda spart á. Hann gat um, að ríkissjóður hefði þegar tekið töluverðan hluta af þessum gjöldum á sig, og efaðist um, að hann væri fær um meira. En jeg gæti hugsað mjer, að þessu yrði komið fyrir á þann hátt, að það yrðu engin aukin gjöld fyrir ríkissjóð; sveitarsjóðirnir bæru gjöldin eftir sem áður, en byrðarnar skiftust jafnara niður en nú á sjer stað.

Hv. frsm. minni hl. játaði, að það hefði komið fyrir, að fátækrabyrðin hefði reynst svo þung, að sumir hreppar hefðu ekki undir því risið. En hann sagði, að þá væri venja að hlaupa undir bagga. Það kann að hafa átt sjer stað, en jeg þekki það ekki, nema þegar hrepparnir geta alls ekki staðið straum af gjöldunum, þá tekur sýslan við. En slíkt þykir svipuð niðurlæging fyrir hreppana og einstaklinga þá, sem fara á sveitirnar, og það er ekki gert fyr en öll sund eru lokuð og gjaldendur sveitarinnar svo að segja rúnir inn að skyrtunni.

Hv. frsm. minni hl. (MG) taldi bætt úr rjettarskerðingu þeirra, sem styrk þiggja, með lögunum í fyrra. En þó svo kunni að vera, að margir menn, sem styrkþurfa verða, tapi ekki kosningarrjetti, þá var þó sú rjettarbót gerð á óheppilegan hátt. Jeg talaði um það atriði í fyrra og skal ekki endurtaka það hjer; en þau ákvæði laganna geta orðið til þess, að sveit tapi skuld, sem annars hefði verið auðvelt að fá greidda. Get jeg hugsað mjer, að þessi ákvæði laganna komi ekki sjerstaklega þeim að notum, sem ættu frekast skilið að halda kosningarrjetti sínum.

Hann sagði, að tala gjaldenda væri ekki óskeikull mælikvarði á gjaldþol hverrar sveitar. En mjer finst, ef gjöldunum verður jafnað niður, að þá megi taka tillit til fleira en fólksfjölda. Það mætti setja reglu um, að gjöldunum væri jafnað þannig niður, að tekið væri tillit til eigna o. fl. Um það er hægt að fá skýrslur, skattskrárnar. Svipuð aðferð er notuð, þegar sýslugjöldum er jafnað niður á hreppana.

Hv. frsm. minni hl. (MG) fanst ekki meiri ástæða til að jafna fátækraframfærsluna en sýslugjöldin. En það er alt annað mál. Vanalega er það svo, að þegar sýslunefnd leggur á þung gjöld, þá er það til framkvæmda, sem sýslunni koma til góða. Eins er það með ýms önnur gjöld sveitarfjelaganna. Mönnum er þar nokkuð í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja bera þessi gjöld eða ekki. Alt öðru máli er að gegna um fátækraframfærið. Þar er ekkert undanfæri. Þar að auki held jeg, að fátækraframfærslan sje í eðli sínu ekki mál einstakra landshluta, heldur alls þjóðfjelagsins; það sje alþjóðarskylda að ala önn fyrir þeim, sem ekki geta það sjálfir. Þá er það undarlegt og ranglátt, að þessi skylda hvíli jafnvel með tíföldum þunga á sumum mönnum, samanborið við aðra, en þess munu þó dæmi.

Eitt atriðið, sem hv. frsm. minni hl. (MG) mintist á, var fátækraflutningurinn. Hefði verið feld í fyrra till. um að afnema hann. Þetta er rjett. En fátækralögin eru svo úr garði gerð, að fátækraflutningar eru alveg óhjákvæmilegir. Ef afnema á fátækraflutningana, þá þarf að gera lögin svo úr garði, að þeir verði óþarfir. Því takmarki má ná, þó landið sje ekki gert að einu framfærsluhjeraði, t. d. með því að dvalarsveit sje jafnan framfærslusveit.

Það er sannarlega nóg að rannsaka í þessu máli. Jeg hefi ekki hjer viljað slá neinu föstu um það, hvernig skipa ætti málum þessum, heldur einungis viljað benda á ýms atriði, sem þurfa gaumgæfilegrar rannsóknar við. Annað er ekki farið fram á í till. en að málið verði rannsakað.