14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

1. mál, fjárlög 1929

Lárus Helgason:

Það er viðvíkjandi brtt. 435, LXII, sem jeg vil segja nokkur orð. Hv. frsm. fjvn. dró í efa, að þessi till. mundi koma að tilætluðum notum, en gaf hinsvegar vonir um, að nefndin mundi styðja að því, að sveitin fengi lán. Mjer er kunnugt um það, að þessi sveit er mjög illa sett. Þegar Katla gaus 1918, fór hún ver út úr því en nokkur önnur sveit. Katla flæddi yfir tún og engjar, tók fjenað bænda, og jörð var ónýt til beitar langt fram á vor. Við skepnumissinn bættist svo það, að heyskapur var mjög rýr sumarið 1918 og bændur neyddust til að kaupa mikinn fóðurbæti handa þeim litla fjenaði, sem þeir gátu sett á eftir áfallið. Rjett á eftir steig öll útlend vara í verði, en sú innlenda lækkaði um helming. Aðrir bændur víðsvegar um landið gátu þá selt fjenað sinn háu verði, en Álftveringar ekki, vegna þess að þeir voru að koma sjer upp nýjum fjárstofni. Það er engin furða, þótt menn, sem orðið hafa fyrir svona áfalli, sjeu lengi að ná sjer. Mjer er kunnugt, að þeim hefir gengið erfiðlega að fá lán, og jeg vona, að deildin samþ. þessa brtt. án þess að telja það eftir. Þingið hefir bæði fyr og nú gefið eftir stórar upphæðir, sem það hefir ábyrgst eða tapast hafa, og því finst mjer það skjóta skökku við, ef deildin vill ekki styðja menn, sem eiga við að stríða vágest, sem eyðileggur meira af slægjum, ef ekki er staðið á móti, en Katla gerði á sínum tíma. Og þess vegna trúi jeg ekki, að þessi litla upphæð komist ekki í gegn, og get því ekki orðið við þeim tilmælum að taka till. aftur.

Þá er það XXXVII. tölul. á sama þskj., um 2500 kr. styrk til húsmæðrafræðslu í Vík í Mýrdal. Hv. frsm. taldi þessa upphæð of háa, en hún er svo lág, sem frekast má verða.

Kvenfjelagið í Vík hefir gert mikið gagn, en vill nú auka starfsvið sitt og þarf til þess hús. Það hefir von um að fá styrk frá hreppsfjelaginu, ef þessi upphæð fæst, og jeg vænti, að deildin líti því öðrum augum á þetta en hv. fjvn. Jeg veit, að nefndin hefir í mörg horn að líta, en mjer finst það sannast að segja smásálarlegt að vera að sjá í ekki hærri upphæð en þetta í eitt skifti fyrir öll. Jeg veit með vissu, að lægri upphæð nægir ekki, og vona, að till. mín nái fram að ganga.