14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

1. mál, fjárlög 1929

Jóhann Jósefsson:

Þó að hv. fjvn. hafi sýnt umsóknum mínum og brtt. heldur litla vinsemd, þá ætla jeg ekki að þreyta menn með því að fara að munnhöggvast við hv. frsm. fjvn. um það. En jeg verð þó að segja það, að mjer þykir fyrir því, að nefndin skuli ekki sjá sjer fært að taka til greina þau rök, sem jeg hefi fært fyrir því, hversu Vestmannaeyingum er mikil þörf á því að koma sjer upp sjóveitu til fiskaðgerða. En þar sem nauðsyn þessa máls hefir verið skýrð rækilega og með því að hjer er um jafnstórt hjerað og Vestmannaeyjar að ræða, þá vona jeg, að hv. deild líti öðrum augum á þetta mál en hv. fjvn. hefir gert.

Annars þykir mjer skifta í tvö horn að því er snertir afskifti hv. fjvn. af málefnum kaupstaðanna, og þarf þar ekki annað en að minna á þá snjöllu ræðu, er hv. frsm. fjvn. hjelt, er hann mælti með styrknum til Ísafjarðarkaupstaðar og lagði mikla áherslu á það, að nauðsyn bæri til þess að styðja vel atvinnuvegina. Um það er jeg honum sammála, að svo miklu leyti sem það er fært og unt. Og jeg fæ ekki sjeð annað en að nefndin hefði sjer að skaðlausu, og án þess að brjóta „princip“ sitt, getað stutt þetta nauðsynlega fyrirtæki Vestmannaeyinga.

Mjer varð á að bera þessar tvær málaumleitanir saman, af því að hv. frsm. fjvn. varð svo tíðrætt um nauðsyn þess að styrkja atvinnulífið, en annars skal jeg ekki fara langt út í það. En jeg get ekki komist hjá því að benda hv. deild á það, að svo virðist, sem hæstv. stjórn og hv. meiri hl. fjvn. hafi sitthvora skoðun á þessu máli, því tveir ráðherranna hafa lýst þessu svo, að því fylgdi lítil sem engin áhætta, en hv. frsm. fjvn. lýsti þessu sem væri það hallærisráðstöfun.

Þá skal jeg geta þess, út af því, er hv. þm. Ísaf. (HG) sagði hjer í deildinni í gær, er hann ljet þau orð falla, að heppilegast mundi fyrir bátaútveginn, að skipstjóri og sjómenn ættu bátana í sameiningu, að í því er jeg honum alveg sammála. Mín reynsla hvað bátaútveginn snertir er sú, að þá gengur hann best, þegar sem flestir, sem að honum vinna, eiga í bátunum. En þarna þykir mjer hv. þm. vera farinn að fjarlægjast talsvert skoðun jafnaðarmanna, að ríkið eigi að reka alla útgerð, og er það vissulega ekki nema gleðilegt.

Hv. frsm. fjvn. hjelt því fram, að hjer væri um nýmæli að ræða, og er það satt. Það er óvenjulegt, að hið opinbera styrki sjávarútveginn eins ríflega og hjer er ætlast til. En jeg býst við, að ef þetta verður samþ., þá verði það til þess að vekja vonir hjá öðrum, sem búa á erfiðari stöðum — og þeir eru margir —, um samskonar hjálp frá ríkinu og hjer er um að ræða. En með því að jeg get ekki annað en hallast að þeirri skoðun, að hjer sje um nokkuð mikla áhættu að ræða, þá er jeg hræddur um, að þeir, sem kynnu að byggja vonir um styrk á samþykt þessarar till., verði vonsviknir. Því ef illa fer og fleiri koma á eftir með samskonar umsóknir, hlýtur Alþingi að kippa að sjer hendinni. Ef þetta aftur á móti reynist vel, þá verður ilt að verja það, að veita ekki öðrum fjelögum, sem stofnuð eru með líku sniði, sama styrk, því erfitt verður í þessu falli að gera upp á milli landshlutanna.

Þegar athuguð er sú hjálp, sem ríkið hefir hingað til veitt einstaklingum með lánveitingum og öðru því líku til styrktar útgerðinni, þá er ekki hægt annað en að viðurkenna, að þetta er mikið stökk og að þessi styrkur er miklu meiri en maður hefir hingað til átt að venjast.

Hv. frsm. gat ekki sjeð þann eðlismun, sem er á þessari ábyrgð og ábyrgð, sem ríkið tekur á sig vegna ýmislegra nauðsynlegra framkvæmda, t. d. hafnarmannvirkin á Siglufirði. Hjer hlýt jeg að vera á alt annari skoðun, því mjer finst mikill eðlismunur á því, hvort ríkið styrkir opinberar framkvæmdir eða fjelagsskap einstakra manna.

Að lokum get jeg ekki látið vera að láta í ljós þá skoðun mína, að ef þessi lánveiting, eins og hv. frsm. heldur fram, er vel til þess fallin að glæða framtak einstaklinganna, þá finst mjer, að nefndin hefði ekki átt að leggjast á móti styrkbeiðni, sem horfði til almennra hagsælda, í kaupstað, þar sem íbúarnir eru að reyna að halda í horfinu án styrktar hins opinbera. Og jeg held, að sú skoðun hv. frsm., að sjálfsagt sje, að menn fari fram á sem frekastan styrk frá ríkinu, sje síður en svo til þess að glæða og viðhalda sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins.