14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (2303)

151. mál, rannsókn leigumála húsnæðis í Reykjavík

Jón Ólafsson:

Jeg hafði búist við því, að hv. flm. gerði frekari grein fyrir þessu máli en gert er í till. sjálfri. Það vantar þó ekki, að drepið sje á ýmislegt, sem á að rannsaka, en það er ekki fulltæmt og verður seint. En mig langar til að spyrja hv. flm., á hvaða lagaheimild þetta byggist, því að jeg held, að ekki sje hægt með þáltill. að skylda mig eða aðra bæjarbúa til að gefa slíkar upplýsingar. Það má vera, að þetta hafi stoð í lögum, þótt jeg þekki það ekki. Og auðvitað verður stj. að hafa lög á bak við sig, svo að hún geti skyldað borgarana til þess að gefa slíkar upplýsingar.

Í till. er gert ráð fyrir, að þessi rannsókn verði falin þrem mönnum, og eiga þeir að hafa lokið starfi sínu fyrir næstu áramót. Jeg hygg, að þetta sje ofætlun. Hjer er á fimta þús. íbúða, og eigi nefndin að taka allskonar skýrslur í þessu efni, er það svo mikið verk, að því er ekki hægt að ljúka á einu ári og jafnvel ekki tveim. Jeg hefi spurst fyrir um þetta hjá kunnugum manni, og hann sagði mjer, að ekki mundi duga minna en 10 manna nefnd til þess að skrifa upp og gefa skýrslurnar, auk þess sem þurfa mundi marga menn til að vinna úr þeim á eftir. Þetta er mjög flókið verk, og kostnaður við skýrslusöfnunina verður því varla neðan við 20 þús. kr.

Jeg hafði vonað, að það kæmi skýrar í ljós hjá hv. flm., hvaða nauðsyn væri á þessu eða hvort hjer væri rekið það okur, sem gerði þetta nauðsynlegt. Ef hv. flm. hefðu lagt það á sig að finna lánsstofnanir bæjarins og þá menn, sem lagt hafa og leggja í húsabyggingar, hygg jeg, að þeir hefðu sannfærst um, að hjer er ekki um neitt slíkt að ræða. Jeg held, að þær stofnanir, sem mest hafa lánað, öfundi ekki þá menn, sem ráðist hafa í að byggja. Jeg geri ráð fyrir, að hv. flm. gangi gott eitt til, en þeir hafa haldið, að þetta væri glæsilegra en það er í raun og veru. Þeir, sem eiga eldri húsin og hafa átt þau frá upphafi, standa vel að vígi — því verður ekki neitað — en á mörgum húsunum hafa orðið eigendaskifti, og þeir, sem hafa tekið á sig þessar eignir á stríðsárunum, eru nú í kreppu, vegna þess, að þeir hafa keypt húsin við of háu verði. Jeg býst við því, að nefndin eigi m. a. að kynna sjer þetta, en jeg held, að niðurstaðan verði sú, að þeir, sem eignuðust húsin fyrir lítið fje, sjeu búnir að selja þau fyrir mikið fje, svo að það valdi húseigendum miklum erfiðleikum, ef fara á að lækka húsaleiguna. Auk þess er rjettara að ljetta undir með mönnum að byggja heldur en hitt. Og verði húsaleigan lækkuð, er öll hvöt til að byggja numin burtu að mestu leyti. Menn verða hræddir við að byggja, ef löggjöfin færi að grípa inn í. Og þótt nú sett yrðu lög í þessu efni, þýðir það ekki mikið. Á stríðsárunum var hjer húsaleigunefnd, sem menn gátu kært fyrir, ef húsaleigan var of há. En þegar húsnæðisskortur var, greiddu menn miklu hærri leigu en nefndin hafði ákveðið. Þetta voru leynisamningar, sem fóru svo dult, að fæstir vissu af því. Afskifti nefndarinnar gerðu samt það að verkum, að þeir; sem peningaráð höfðu, frestuðu að byggja, en þeir fátækari, sem út voru reknir, neyddust til þess og urðu því harðast úti.

Þegar löggjöfin á að grípa inn í á þennan hátt, verður að gæta þess, eins og við öll bönn og takmörkun á frelsi einstaklingsins, að tæplega er hægt að gera einum gott án þess að gera öðrum miklu rangara til. Jeg er ekki í vafa um það, að þessar ráðstafanir mundu gereyðileggja þær framkvæmdir, sem bærinn þarf til aukningar á húsnæðinu. Það er engin leið hugsanleg til að bæta. úr þessu, án þess að gera fjölda manna rangt til, nema að veita fje til bygginga. Það er eina ráðið. Hv. 2. þm. Reykv. (HjV) hefir borið fram frv. (á þskj. 422), sem gengur í þessa átt. Þar er gert ráð fyrir lánum til íbúðarhússbygginga, svo að fátæklingum verði kleift að eignast húsakynni. Þetta er aðallækningin, ef fara á að skifta sjer af málinu. Í svo stórum bæ sem Reykjavík er verður að byggja yfir 200–300 fjölskyldur á hverju ári af eðlilegri aukningu bæjarbúa. Ef húsaleigan yrði svo sett niður, yrði það til að auka aðstreymið til bæjarins, því að þá er sá þröskuldurinn, sem mest hefir staðið á móti, — hin háa húsaleiga —, farinn, en af því leiddi, að enn meira þrengdi að. Auk þess mundi lækkun húsaleigunnar draga svo úr öllum framkvæmdum, að til vandræða horfði, ef stj. gerði ekki ráðstafanir í þá átt, sem farið er fram á á þskj. 422.

Alt verður káf, flækjur og baktjaldamakk, sem af þessum afskiftum Alþingis myndi leiða, nema stjórnin geri þær ráðstafanir, sem farið er fram á á þskj. 422. Jeg hafði vonast eftir, að flm. hefðu komið með eitthvað til bjargar, um leið og þeir fara fram í þessi afskifti af einkamálum manna í bænum.

Sú hugsunarvilla kom fram hjá hv. flm.(HStef), að hin dýra húsaleiga væri þjóðar „ruin“. Þetta er algerður misskilningur, því ekki er það þjóðarfjefletting, þótt hann fjefletti mig. Ef erlendir menn ættu húsakynni hjer, leigðu þau út og flyttu arðinn af landi brott, þá væri það þjóðarfjefletting.

Svo er nú komið hjer, eins og með alt, sem er of dýru verði keypt, að fólk er hætt að standa í skilum. Menn eru því farnir að sækjast eftir skilamönnum og setja því niður leiguna til að geta náð þeim.

Það held jeg að sje hæpið hjá hv. flm., að það verði mikið ódýrara fyrir ríkið að halda starfsmenn hjer, þó húsaleiga lækkaði. Í því efni mundi lítið verða unnið. En það gerði annað að verkum. Þeir, sem eiga fje og þurfa að ávaxta það, mundu leita með það annað en í húsabyggingar og það þangað jafnvel, sem síður skyldi.

Svo mjög sem þrengt hefir verið að bæjarbúum hin síðari árin með sköttum og gjöldum, þá á nú enn samkv. till. að leggja inn á þá braut, að stimpla leigusamninga, — reyndar er ekki nein skylda til að gera húsnæðissamninga — og setja hámark á leiguna. Menn eiga að vísu að fá að leigja fyrir hærra verð, en þá á ríkissjóður að fá það, sem fram yfir er! Þegar maður heyrir þennan tón hjá flutningsmönnum, þá er svo sem auðskilið, af hvaða hvötum slíkar till. eru bornar fram. Hvers eiga borgarar Reykjavíkur sjerstaklega að gjalda, að taka á af þeim hverjum fyrir sig fjárráðin, þegar öllum öðrum landsbúum eru að sjálfsögðu leyfð frjáls viðskifti hverjum við annan?

Jeg er ekki að andmæla því, að stj. útvegi atvinnu þeim mönnum, sem að þessu eiga að starfa, en jeg hygg, að meiri hluti bæjarstjórnar vilji ekki eiga þar neinn hlut að máli. (HG: Bæjarstjórn hefir skipað húsnæðisnefnd). Það var með alt annað fyrir augum. Hún á að athuga húsnæðismálið á líkum grundvelli og hv. 2. þm. Reykv. (HjV) hefir hafið máls á hjer í þinginu. (HG: Rannsaka leigukjörin líka). Þó um það sje talað í till., þá veit hv. þm. það, að slíkt er ómögulegt. Til að rannsaka á fimta þús. íbúða þarf stóra, hálaunaða nefnd í heilt ár eða lengur.

Jeg læt við þetta lenda. Jeg er hálfhissa á þeim blæ, sem hvíldi yfir ræðu hv. flm. Hann ljet svo sem þetta væri eitthvert þjóðarvelmegunarráð. Einhver höfuðfjármálaspeki dyndi hjer yfir bæinn! Það vantar svo sem ekki spámenn og spekinga, þegar komið er inn í þessa virðulegu sali!