09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (2334)

73. mál, bréfaskifti milli stjórna Spánar og Íslands

Jón Þorláksson:

Hv. flm. (IP) vildi mæla hæstv. stjórn undan einhverri ábyrgð, sem hann taldi mig vilja leggja henni á herðar. Orð mín voru kanske ekki nógu skýr, en jeg meinti, að núverandi stjórn verður að bera alla ábyrgð á því, sem gerist í þessu máli, meðan hún situr að völdum. Vitanlega getur hún enga ábyrgð borið á því, sem áður hafði gerst. Og jeg verð að taka það fram, að mjer finst það alveg óviðeigandi, að þegar rætt er um utanríkismál, þá skuli sá ráðherrann, sem þau heyra undir, ekki vera viðstaddur, og er hann þó viðstaddur í þinginu, heldur láta annan mæta fyrir sig, sem vægast sagt virðist tala um þau af lítilli þekkingu. Jeg segi því fyrir mitt leyti, að jeg vil ekki tala um utanríkismál við annan ráðherra en þann, sem þau eiga undir. Og jeg get frætt hv. deildarmenn um það, að sjerhvað það sem hjer er talað, skrifað eða gert, og snertir önnur ríki, berst þegar í stað til rjettra hlutaðeigenda embættisleiðina, án þess að óviðkomandi menn klippi út blaðagreinar og sendi þær. Við megum því alls ekki ætla, að við sjeum svo afskektir hjer, að ekkert frjettist um heiminn, sem hjer gerist.

Jeg hefi ekki með einu orði lagt á móti því, að sú rannsókn fari fram, sem í till. felst. En jeg vil ekki með atkv. mínu eiga neinn þátt í skipun þessarar nefndar. Jeg hefi heldur ekki sagt neitt um það, hvort Íhaldsflokkurinn leggi til mann í þessa nefnd eða ekki.