09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (2344)

73. mál, bréfaskifti milli stjórna Spánar og Íslands

Flm. (Ingvar Pálmason):

Að sjálfsögðu tek jeg bendingu hv. þm. Snæf. (HSteins) vinsamlega, enda þótt jeg búist ekki við að geta tekið hana til greina.

Það var hv. þm. Seyðf., sem byrjaði á þessum skinnaleik um orðalag tillögunnar. Jeg efa nú alls ekki, að hann sje glöggur lögfræðingur, en þó verð jeg að efa, að lögskýringar hans í þessu efni sjeu rjettar. Hvað er kanske átt við með stjórn Íslands í þessu máli, annað en alla þá aðilja, sem um það hafa fjallað fyrir hennar hönd? Með öðrum orðum, öll þau stjórnarvöld, sem með málið hafa farið, hvort heldur mennirnir eru danskir eða íslenskir.

Annars sje jeg ekki, að það hafi neina þýðingu að taka málið út af dagskrá nú, því ef hv. deildarmenn vilja skilja það, þá er það hægt vegna orðalags till., enda þótt jeg játi, að það hefði mátt orða hana öðruvísi. Hjer þarf því ekki annað en skilja nokkurnveginn mælt mál, því að stjórn Íslands í þessu efni getur ekki verið annað en þeir aðilar, sem með málið hafa farið. Jeg óska því ekki, að till. verði tekin út af dagskrá.