17.03.1928
Efri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Í raun og veru er ekki mikil ástæða til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. Jeg geri ráð fyrir, að flestir hv. dm. hafi fylgst með meðferð þess í hv. Nd., og mun þess vegna vera óþarft að útskýra nánar, hvernig ástatt er um málið nú. Eins og kunnugt er, hefir, í stað þess sem áætlaður var dálítill tekjuafgangur í frv. stj., orðið á því sú breyting, að um verulegan tekjuhalla er að ræða, hátt á 7. hundrað þús. krónur. Jeg geri ráð fyrir, að þessi hv. deild muni áður en lýkur geta lagfært frv. frá því, sem það er nú, svo að það að lokum þurfi ekki að fara hjeðan með tekjuhalla. Nú ber ekki að skilja orð mín svo, að jeg búist við, að mikið verði felt niður af því, sem komið er inn útgjaldamegin, heldur vænti jeg þess, að svo langt verði komið þeim tekjuaukafrv., sem fyrir liggja, að hægt verði að jafna þann mismun, sem orðinn er, með væntanlegum auknum tekjum. Auðvitað má búast við, að enn verði samþykt eitthvað af sjerstökum lögum, sem hafa aukin útgjöld í för með sjer, en hversu mikið það verður, er ekki hægt að sjá fyrir. Það væri í sjálfu sjer æskilegast, ef hægt væri að sjá það fyrir, hversu mikilli upphæð útgjaldaauki eftir sjerstökum lögum mundi nema. Það hafa þegar verið teknir hjer upp nokkrir liðir eftir till. hæstv. atvmrh., svo að væntanlega verða það ekki stórar upphæðir, sem þyrfti að bæta við.

En það er sjerstaklega 22. gr., sem mjer virðist ekki vera búið að ganga nógu rækilega frá, því að það liggur í loftinu, og er jafnvel komið fram, allmikið af umsóknum um styrki til ýmissa framfarafyrirtækja, sem í aðsigi eru og svo nauðsynleg, að þau verður að styrkja, annaðhvort með beinum styrkjum eða lánveitingum. Jeg skal til dæmis nefna lánveitingu til frystihúsabygginga. Það er fyrirsjáanlegt, að sú upphæð, sem til þess er ætluð, er miklu lægri en svo, að hægt sje með henni að sinna öllum umsóknum, sem fram hafa komið. Auk þess má búast við, að fleiri slíkar umsóknir komi fram. Jeg býst því við, að þessa upphæð verði að hækka, en þá kemur að því, að tekjur viðlagasjóðs eru ekki meiri en svo, að ekki verður hægt að fullnægja nema örlitlum hluta af þeim lánveitingum, sem heimilaðar hafa verið. En jeg álít, að þingið megi ekki samþykkja slíkar lánveitingaheimildir, nema það sjái fyrir því, að hægt sje að veita þær. Slíkt getur haft mjög óþægilegar afleiðingar fyrir þá, sem hugsa til framkvæmdanna. Þegar þeir eru komnir inn í fjárlögin, telja þeir sig örugga og byrja óhræddir á undirbúningi fyrirtækisins. Það verður því að sjá fyrir því, að viðlagasjóður geti á einhvern hátt fengið fje til umráða, fram yfir sínar árlegu tekjur. Á hvern hátt þetta verði gert, skal jeg ekki um segja, en jeg vil benda á, að það er til fje í öðrum sjóðum, sem ekki væri frágangssök að nota í þessu skyni. En umfram alt verður að sjá um, að það á engan hátt brjóti í bága við lög eða rjett. Jeg býst við, að jeg muni síðar eiga tal um þetta við hv. fjvn. Ed.

Jeg hefi í raun og veru ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta mál, því að það er fyrst við 2. umr., sem hægt er að snúa sjer að nokkrum sjerstökum atriðum.