16.04.1928
Sameinað þing: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (2358)

109. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Jeg get ekki verið hissa á því, þótt hv. 1. þm. Skagf. (MG) fyndist ræðu minni svipa til ræðu hæstv. dómsmrh. (JJ), því að jeg hygg, að við höfum báðir bygt á sömu gögnum og líklega notað þau nokkuð svipað.

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) sagði, að mjer virtist vera illa við það, að fjelagið væri íslenskt og undir stjórn íslenskra manna. Jeg játa það, að mjer þykir það ákaflega ilt, að H. f. Shell á Íslandi skuli látast vera íslenskt fjelag og þess vegna hafa sama rjett á Íslandi sem íslenskt fjelag væri, því að jeg tel það fullsannað, að það fjelag sje ekki íslenskt, þótt hv. 1. þm. Skagf. (MG) og nokkrir aðrir dándismenn hafi gerst svo bónþægir við breska fjelagið að lána því nöfn sín fyrir litla þóknun. Jeg geri ekki ráð fyrir, að Shellfjelagið, fremur en hvert annað útlent fjelag eða útlendir menn, fái, nokkrum manni hjer eða annarsstaðar ca. 4 milj. kr. í hendur, án þess einhver kvöð eða skilyrði fylgi, jafnvel þótt þeir, sem við tækju, væru hreinustu afburðamenn að mannkostum og heiðarleik. Jeg get ekki hugsað mjer nokkurn mann gera það, nema bandvitlaus sje. Enda er það upplýst af hr. Hallgr. Tulinius, að skilyrðið fyrir því, að hið breska fjelag legði fram fjeð, var það, að hjer yrði stofnað íslenskt fjelag, sem keypti, þ. e. ljetist eiga mannvirkin.

Þetta alræmda breska auðfjelag vissi hag sínum betur borgið, ef starf þess væri rekið hjer undir íslensku nafni.

Þeir íslensku menn, sem að þessu fjelagi standa, fóðra því aðeins breska fjelagið. Þetta liggur í augum uppi, og jeg er hissa á því, að jafnvel gefinn maður eins og hv. 1. þm. Skagf. (MG) skuli státa sig af öðru eins athæfi. Jeg þykist þekkja nokkuð til kaupskapar, en jeg þekki þess engin dæmi, að nokkrum manni, hversu valinkunnur heiðursmaður sem er, sje sýnd sú tiltrú af útlendu auðfjelagi, að 4 milj. kr. sjeu fengnar honum í hendur, án þess að eigandinn áskilji sjer nokkurn rjett til þess að hafa hönd í bagga með því hversu með fjeð verði farið, eða fullkomlega öruggar tryggingar sje um að ræða, en um það er alls ekki að. ræða hjer, eins og áður er sagt.

Þá vjek hv. þm. (MG) að því, að bæði jeg og fleiri teljum vafa á því, hvort stærð þessara mannvirkja við Skerjafjörð sje miðuð við þarfir okkar Íslendinga. Hann vildi telja, að þau væru ekki of stór. Hann sagði, að olíuverslunin hefði aukist með hverju ári og mundi halda áfram að aukast hraðfara. Jeg tel víst, að það muni rætast. En jeg held þó, að óhætt sje að segja, að geymarnir sjeu sniðnir ákaflega mikið við vöxt, miklu meira en vit sýnist í.

Það mun ríflegt að áætla þarfir okkar 6–7 þús. tonn af olíu á ári hverju, en fjelagið byggir geyma fyrir 10 þús. tonn, og keppir þó við tvö önnur fjelög. Þótt sú samkepni sje reyndar ekki um verðið á olíunni, hlýtur hún auðvitað að draga mjög úr sölu þessa fjelags; er tæplega hægt að gera ráð fyrir, að það nái meira en helmingi verslunarinnar, og nægja þá geymarnir því fyrir þriggja ára birgðir.

Þótt salan aukist síðar, sýnist óþarfi fyrir fjelagið að horfa svo langt fram í tímann, sem það virðist hafa gert, er það ákvað stærð geymanna, því að þessu „íslenska“ fjelagi hefði verið það innan handar, hvenær sem þörf yrði á, að byggja 1, 2 eða fleiri í viðbót; a. m. k. hefði það ekki þurft að leita til þings eða stjórnar um leyfi til þess.

En jeg tel það stærsta og versta gallann á þessum óskilakróa, að hann skuli, ef svo mætti að orði kveða, hafa frjálsræði til að vaxa og auka við sig án þess þing eða stjórn geti haft nokkur afskifti þar af, ef hann ekki með óknyttum brýtur landslög.

Þá þótti mjer mjög vænt um þau ummæli hv. þm. (MG), að hjer væri verið að vinna að því að koma olíuversluninni hjer á landi í betra horf, þar sem teknir hefðu verið upp geymar í stað stáltunnanna og trjetunnanna, sem áður voru notaðar. Jeg vildi bara óska, að hv. þm. hefði sjeð það jafnvel, hve geymarnir eru þarfleg þing, meðan hann var í stjórn landsins og yfirmaður Landsverslunar. (MG: Jeg hefi altaf sjeð það). Þá furðar mig, að hann skuli hafa látið landsmenn tapa á tunnuflutningum, svo sem hann lýsti rjettilega, árum saman, án þess að bæta úr því með því ráði, er hann sá til þess, þ. e. olíugeymum, að því er hann segir nú sjálfur. Jeg verð að segja það, að þótt þessi ummæli hv. þm., sem jeg gat um, gleðji mig, þá hryggir það mig jafnframt, að hv. þm. skuli ekki hafa látið landsmenn njóta þess, er hann vissi að þeim var til slíkra hagsbóta, og tekið upp olíugeyma, þegar hann hafði það á valdi sínu að gera það, sem yfirmaður Landsverslunar. (MG: Það eru ekki altaf peningar til alls). Það voru nógir fáanlegir þá til þess, og það veit hv. 1. þm. Skagf. (MG) vel, og vissi líka þá.

Þá sagði hv. þm. (MG), að það væri ekki rjett hjá mjer, að engin samkepni væri milli fjelaganna. Hann kvað geta verið samkepni, þótt ekki væri hún um verð. Jeg þekki nú enga aðra samkepni í sölu en um verðlag eða gæði. Samkepni olíufjel. er um hvorugt þetta.

Það er kölluð samkepni með kaupmönnum, þegar þeir selja vöru mismunandi verði, en ef þeir koma sjer saman um verð á einhverri vöru eða vörutegund, og gildi það verð hjá öllum seljendum vörunnar á þeim stað, þá kalla þeir rjettilega samkepnina útilokaða.

Hv. þm. sagði, að það þýddi ekkert fyrir eitt fjelagið að ætla sjer að selja olíuna hærra verði en hin, því að þá tækju hin fjelögin alla verslunina og fjelagið seldi ekkert. Þetta er vitaskuld alveg rjett. Ef samkepni væri milli fjelaganna, myndu þau bjóða hvert niður fyrir annað, og það selja mest, sem besta hefði olíuna fyrir lægst verð.

En þessa samkepni vilja ekki fjelögin. Fyrirkomulagið, sem nú er hjer á olíuversluninni, kvað hann komið í það hagfeldasta horf, sem unt væri. Jeg er gagnstæðrar skoðunar og skal aðeins benda á eitt atriði.

Til þess að sjá landsmönnum öllum fyrir nægri olíu úr geymunum þurfa þeir að taka nokkuð á 3. þús. smálesta, og þarf þá að hafa í veltu sem svarar liðlega 1 miljón króna, eða ef miðað er við 50 þús. tunna sölu á ári, 20 króna veltufje fyrir hverja tunnu, sem seld er. En nú er hjer bundið í olíuverslun þessara þriggja fjelaga yfir 5 milj. kr., eða 100 krónur á tunnu. Vextirnir einir af veltufjenu nema því, ef miðað er við 6% vexti, 6 krónum á tunnu, en þyrftu ekki að nema meiru en kr. 1,20, ef fyrirtækin væru reist og rekin með þarfir okkar einna fyrir augum. Ef miðað er við þarfir landsmanna einna, þá get jeg ekki ímyndað mjer óhagfeldara fyrirkomulag á versluninni, nema fjelagið ætli að reka verslunina með tapi.

Jeg veit ekki, hvort jeg á að fara að rökræða við hv. þm. um það, hvort stórþjóðum geti orðið styrkur að þessum mannvirkjum, ef til ófriðar drægi. Hann heldur því fram, að þeim mundi enginn stuðningur verða að þeim, og rökstyður þá skoðun með því, að birgðir þær, sem hjer er um að ræða, mundu ekki duga nema 1–2 bryndrekum. (MG: Líklega ekki svo mikið). En hv. þm. (MG) veit líklega, að fleira er notað í ófriði en bryndrekar einir, t. d. kafbátar, flugvjelar o. fl. o. fl. Ennfremur veit hann, að hægt er að fylla geymana svo oft sem þarf, ef samgöngur ekki teppast. En það má ekki miða eingöngu við þá geymastærð, sem nú er. Altaf er hægt að bæta við, ef þeim, sem fjenu ráða, býður svo við að horfa. Hvað er því til fyrirstöðu, að hið ísl. fjelag, „H. f. Shell á Íslandi“, byggi geyma um alla Gullbringu- og Kjósarsýslu? Ekki þarf það að sækja um neitt leyfi til þess. Og þótt bryndrekar komist ekki inn á Skerjafjörð, þá eru kanske einhver ráð til að koma olíu út til bryndrekanna. Jeg býst ekki við, að ófriðarþjóð mundi setja það fyrir sig að taka hið „íslenska“ tankskip til slíkra verka, ef hún á annað borð gerðist til þess að brjóta hlutleysi okkar. Það væri ekki nema sem svaraði kepp í sláturstíð.

Mjer þykir vænt um, að hv. þm.(MG) tók undir það, sem jeg sagði, að við mundum engra bóta verða krafðir, þótt ríkið tæki olíuverslunina í sínar hendur. Hann má best um þetta vita, hvort sem tapið af því, að mannvirkin verða verðlítil, lenda á „íslenska“ Shell eða móðurfjelagi þess.

Þá sagði hann að lokum, að hann væri ekkert hræddur um, að neinn andi færi í þennan mikla skrokk við Skerjafjörð.

En hann verður að muna, að í ófriði virða menn ekki borgaraleg lög að neinu. Þá gilda alt önnur lög en á friðartímum. Og hann veit, að ef eitthvert stórveldi öðru hvoru megin hafsins þyrfti nokkurs þess við í ófriði, sem hjer væri hægt að fá, þá mundi það taka það umsvifalaust. En olían er, eins og jeg áður sagði, allra hluta nauðsynlegust, bæði í friði og ófriði, en einkum þó í ófriði. Þetta er sorglegur sannleikur, sem ekki tjáir að leyna fyrir sjálfum sjer, því að það er að fara að dæmi strútsins, sem stingur höfðinu undir vænginn. Og jeg verð að segja það að endingu, að mjer þykir það ilt, að nokkur íslenskur maður skuli vilja gangast við þessum króa við Skerjafjörð og hjálpa til þess að veita útlendu auðfjelagi sama rjett á Íslandi sem íslenskum mönnum eða fjelögum, en verra er þó, að maður, sem sæti á á Alþingi, skuli hafa gerst til þess.