17.03.1928
Efri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Baldvinsson:

Mjer sýndist alt mót ætla að verða á því, að enginn ætlaði að kveðja sjer hljóðs, en sá siður var tekinn upp hjer í fyrra — og kannske áður — að ræða við þetta tækifæri um eitt og annað við stjórnina. Það hefir verið hafður nokkurskonar spurningatími við þessa 1. umr. fjárlaganna. Það á ekki svo illa við, og þó að jeg hafi ekki margar spurningar fram að bera, vil jeg þó koma að því litla, sem jeg hefi, því að það er óþægilegra að koma því við við 3. umr. Þá er búið að ganga frá fjárlögunum, en jeg get hugsað mjer, að ýmislegt, sem hv. þm. kynnu að vilja ræða við hæstv. stj. nú, gæti komið fram í meðferð fjárlaganna. Ef t. d. væri spurt um verklegar framkvæmdir eða þvíumlíkt, gæti svar hæstv. stj. komið fram í fjárveitingum í fjárlögunum.

Nú stendur svo sjerstaklega á, að hjer er um að ræða stjórn, sem ekki hefir setið að völdum nema nokkurn hluta undanfarins árs. En það er ekki siður að ræða við þá stjórn á eldhúsdegi, sem frá er farin, nema sjerstakt tilefni gefist til þess. Enda munu hennar verk geymast í minningunni, hvort sem sú minning er góð eða ill. Og viðvíkjandi nýju stjórninni, þá koma aðfinslurnar fram jafnótt og málin verða tekin til meðferðar. En jeg vildi þó koma með fyrirspurnir til stj. viðvíkjandi framkvæmdum, sem sumpart er verið að vinna að og sumpart eru búnar. Í fyrra spurði jeg þáv. stj., hvort hún sæi sjer ekki fært að hraða þá svo bygginga Kleppsspítalans, að hann gæti orðið tilbúinn á síðastl. ári. Svörin, sem jeg fjekk, voru heldur loðin, en gefið var í skyn, að vel gæti byggingin orðið tilbúin þá með haustinu, en eigi að síður er byggingunni ekki lokið, og meira að segja er talsvert eftir af henni ógert enn. Jeg vildi nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., hvort hann vilji ekki beita sjer fyrir því, að þessari byggingu verði nú lokið á þessu sumri, svo hún verði tilbúin þegar í haust, og það þótt ekki kunni að nægja fjárveiting sú, er nú er veitt í fjárlögum til byggingarinnar.

Þá er annað atriði, sem jeg vildi spyrja um, en það heyrir undir hæstv. atvmrh. Eins og kunnugt er, er verið að leggja vegi víðsvegar um landið.

Einn þeirra liggur hjeðan og upp á Kjalarnes og á liggja inn í Kjós og þaðan vestur í Borgarfjörð. Hann er því nokkur hluti af braut þeirri, sem á að leggja hjeðan frá Reykjavík og til Norðurlandsins. Þetta ætti því að vera breiður og vandaður vegur, svo að hann gæti orðið til frambúðar. En nú er öllum vitanlegt, að hann er svo mjór, að bifreiðar geta ekki mætst á honum, að minsta kosti ekki nærri alstaðar. Út af þessu vil jeg beina því til hæstv. stjórnar, að hún athugi, þegar um nýjar framkvæmdir er að ræða, að þær sjeu ekki þannig úr garði gerðar í upphafi, að það þurfi að rífa þær niður svo að segja á næsta ári, eða verja ærnu fje til þess að gera þær nothæfar fyrir almenning, eins og sýnilegt er, að gera þarf hvað þennan veg snertir, þar sem hann á að verða hluti úr vegi, sem á að ná svo að segja um alt landið. Jeg sje, að í fjárlagafrv., eins og það kemur frá hv. Nd., er veitt til þessa Kjalarnesvegar allmikil fjárfúlga, og jeg geri ráð fyrir, að sú fjárfúlga eigi að vera til þess að lengja veginn með Esjunni, inn í Kjósina. En jeg vil nú beina því til hæstv. stjórnar að taka það til athugunar, hvort ekki myndi rjettara að nota þetta fje til þess að breikka þennan kafla, sem búinn er, og gera hann vel úr garði, heldur en að halda áfram að leggja þessa mjónu, sem ekki kemur að hálfum notum, því að það væri óneitanlega leiðinlegt, af hverfa yrði að því ráði að fyrirskipa t. d., að fyrri hluta dags megi aðeins fara eftir þessum vegi frá Reykjavík, og svo seinni hluta dagsins verði fyrirskipað, að þá megi aðeins fara til Reykjavíkur eftir veginum, og þetta verði að gera af því, að vegurinn sje svo mjór, að bifreiðar geti ekki mætst á honum.

Þetta vil jeg biðja hæstv. stjórn að athuga og fá upplýst hjá vegamálastjóra, hvernig í þessu máli liggur. Jeg er alls ekki að fara fram á að fá svar við þessu í dag, heldur síðar undir umr. um fjárlögin.

Jeg viðurkenni fyllilega, að þessi hjeruð, Kjalarnes og Kjós, þurfi að fá veginn áfram, en jeg tel óhæfilegt að hafa hann svo mjóan, að hann sje ekki nothæfur fyrir almenna umferð. Þá væri sýnu nær og ódýrara að veita fje til þess að ryðja veg inn í Kjós, sem aðeins væri til bráðabirgða og væri bílfær á sumrin, svo sem nú hefir verið gert á stöku stað í Árnessýslu.

Það er óneitanlega freisting fyrir mig að fara út í fleiri mál en þetta, t. d. landsspítalamálið, en þar sem það hefir komið fram sem sjerstakt mál á þinginu, mun jeg ekki fara út í það nú. Þetta, sem jeg því hefi minst á, er ekki stórvægilegt, sjerstaklega ef stj. skyldi ætla sjer að láta fullgera Kleppsspítalann í sumar, því að þá er það ekki nema vegurinn, sem jeg tel, að athuga þurfi. (BK: Hann breikkar fljótlega). Meinar hv. þm., að hann fletjist út? Ef svo er, þá er það misskilningur, því að hann getur t. d. alls ekki breikkað þar, sem hlaðinn er hár vegarkantur, eins og vera mun á löngum köflum þessa vegar.