23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (2373)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) orðar þannig fyrirspurn sína, að hann spyr um aukastörf ráðherranna, og hefir hann nú útskýrt nokkuð nánar, við hvað hann á með þessu. Einkum vill hann vita, hvort við ráðherrarnir höfum tíma til að sinna aukastörfum og hvort þau sjeu samrýmanleg ráðherrastöðum okkar. Um þau störf mín, sem hv. þm. mun einkanlega hafa augastað á, álít jeg, að jeg sem ráðherra verði að hafa, tíma til að sinna þeim. Þau eru svo náinn liður í starfi mínu sem atvmrh., að jeg hefi hingað til haft betri aðstöðu til að rækja það samviskusamlega vegna þessara svonefndu „aukastarfa“. Vil jeg aðeins láta þess getið, að jeg álít það óheppilegt orðalag hjá hv. þm. að nefna þessi störf „aukastörf“.

Jeg geri ráð fyrir, að það sjeu einkum tvenn störf, sem jeg hefi með höndum, sem hv. þm. fýsir að heyra um. Annað er það, að jeg hefi haldið sæti mínu í gengisnefnd sem annar fulltrúi atvinnuveganna, kosinn þangað á sínum tíma af Sambandi ísl. samvinnufjelaga. Jeg álít starf gengisnefndar og vald svo þýðingarmikið fyrir atvinnuvegina og svo nátengt ráðherrastarfi mínu, að jeg tel mjer sóma og skyldu að eiga þar sæti. Enda hefi jeg sett mig svo vel inn í störf gengisnefndar þann tíma, sem jeg hefi átt þar sæti, að þetta þýðingarmikla starf þarf ekki að eyða mjög miklu af tíma mínum: Þó geri jeg ráð fyrir, að á næstunni sje þar allmikið starf framundan, en mjer er mjög ljúft að leggja það á mig.

Þá er hitt „aukastarf“ mitt það, að jeg hefi haldið áfram að vera í stjórn Búnaðarfjelags Íslands. Um það er hið sama að segja, að það er svo mikill og merkur liður í starfi mínu sem atvmrh., að jeg tel mig á mörgum sviðum standa mun betur að vígi með því að geta fylgst til fulls með því, sem í Búnaðarfjelaginu gerist. Auk þess eru nokkrar sjerstakar ástæður til þess, að jeg vildi ekki fara þegar í stað úr stjórninni. 1925 var það sem sagt samhuga ósk búnaðarþings að fá einhvern mann úr stjórnarráðinu í stjórn Búnaðarfjelagsins. Var skrifstofustjóri atvinnumálaráðuneytisins kosinn í einu hljóði. Svo nauðsynlegt var þá talið að hafa náið samstarf milli þessara stofnana. — Á fyrsta fundinum, sem jeg var í stjórn B. Í. eftir stjórnarskiftin, bar jeg það undir meðstjórnendur mína, hvort jeg ætti að halda áfram störfum mínum þar eða ekki, og óskuðu þeir beinlínis, að jeg legði þau ekki niður. Jeg taldi ekki heldur víst, að það væri farsælt fyrir samvinnuna í stjórn B. Í., að varamaður minn tæki þar sæti, eins og nú standa sakir. Jeg játa að vísu, að þetta er talsvert starf, en það er mjer til mikillar hjálpar við ráðherrastörfin.

Það eru þessi tvö aukastörf, sem jeg tel hv. fyrirspyrjanda hafa átt við, og út frá þessu sjónarmiði hefi jeg talið mjer skylt að rækja þau. Læt jeg þetta svo nægja við fyrri spurningunni.

Þá kemur síðari spurningin, hvort jeg ætli að halda áfram að hafa þessi störf á hendi. Þessu er því fyrst að svara, að það stendur ekki í mínu valdi, nema að nokkru leyti, hvort jeg hefi störf þessi áfram eða ekki. Það eru aðrir aðilar, sem þar ráða miklu um. Eins og kunnugt er, tilnefnir stjórn S. Í. S. einn fulltrúa í gengisnefndina, og það til óákveðins tíma. Tilnefndi hún mig, eins og hv. fyrirspyrjanda mun kunnugt, sem fulltrúa landbúnaðarins.

Það má nú ef til vill segja, að stjórn S. Í. S. hafi fengið sjerstakt tilefni til að skifta um fulltrúa, þegar jeg tók við ráðherraembættinu. En jeg vil segja það, í framhaldi af því, sem jeg hefi áður sagt, að finni hún ekki ástæðu til að skifta, og ef jeg held heilsu minni og starfskröftum óbiluðum, þá er mjer það ekki aðeins ljúft, heldur tel jeg mjer það skylt, atvinnuveganna vegna, að vera áfram í nefndinni.

Um hitt aukastarfið er öðru máli að gegna. Þar stendur svo sjerstaklega á, að kjörtímabil mitt í stjórn fjelagsins er þegar útrunnið á þessu þingi. Og landbúnaðarnefndir þingsins eiga að tilnefna þennan fulltrúa af hálfu þingsins. En nú hefi jeg ekkert gert í því að rannsaka hjörtu og nýru nefndarmannanna í þessu efni. Veit jeg því ekkert, hvort þeir vilja kjósa mig aftur til þessa starfs eða ekki. Og jeg hefi ekki heldur ráðið það við mig, hvort jeg myndi vilja taka við endurkosningu, þó að meiri hl. nefndanna kæmi til mín og bæði mig um að vera áfram. En eins og jeg hefi áður sagt, finst mjer ekkert á móti því fyrir atvmrh. að vera í stjórn fjelags eins og Búnaðarfjelags Íslands, því að jeg tel það einn lið í starfi hans.

Þá er þriðja starfið, sem fyrirspurn þessi gæti átt við, og það er starf mitt í bankaráði Íslandsbanka, en þar sem það er beinlínis lögbundið, býst jeg ekki við, að hún nái til þess.

Þá geri jeg ekki ráð fyrir því, að hv. fyrirspyrjandi eigi við aukastarf, sem við höfum báðir með höndum, en það er að vera í Grænlandsnefnd. Hvort jeg verði áfram í þeirri nefnd, er ekki afráðið enn, en mjer finst það ekkert fjaskylt starfi mínu sem utanríkismálaráðherra. Læt jeg svo þetta nægja að sinni. Hinir ráðherrarnir munu svara fyrir sig.