23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (2375)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Fyrirspurn þessi er þegar orðin nokkuð gömul, eins og lummurnar í Eyjafirðinum, en vonandi verður eitthvert bragð að henni áður en lýkur.

Jeg ætla þá fyrst að athuga, hvort fyrirspurn þessi muni fram komin til þess að vita, hvort við ráðherrarnir sjeum færir um að hafa þessi aukastörf með höndum, án þess að ofbjóða starfskröftum okkar. En mjer finst ósamræmi í því hjá hv. fyrirspyrjanda, sem vill láta sjómennina okkar vinna í 18 tíma í sólarhring, ef hann heldur, að það ofbjóði starfskröftum okkar, þó að við vinnum 8–10 tíma á dag.

Um aukastörf ráðherra hefir verið háð hörð barátta á þingi Dana, sem endaði þannig, að sett voru lög um þau. Urðu þá sumir ráðherrarnir að sleppa ýmsum störfum, sem þeir höfðu með höndum, t. d. að vera í stjórn hlutafjelaga o. fl. Aftur á móti var þeim leyft að hafa á hendi aukastörf, sem talin eru samrýmanleg ráðherrastörfum þeirra. Þannig getur t. d. innanríkisráðherrann, dr. Kragh, haldið áfram að vera í lögjafnaðarnefndinni, því að það er talið samrýmanlegt við embætti hans. Tilgangur Dana með löggjöf um þetta efni var sá, að koma í veg fyrir, að ráðherrarnir hefðu þau störf með höndum, sem gætu dregið þá inn á óheppilegar brautir.

Áður en jeg fer lengra inn á þetta mál, vil jeg víkja að því, hvernig þetta hefir verið framkvæmt hjer á landi. Það er þá fyrst, að alt frá því, að stjórnin fluttist inn í landið, hefir það verið skylda, fyrst ráðherrans meðan hann var einn, og nú forsætisráðherrans síðan fleiri skipuðu ráðuneytið, að vera formaður í bankaráði Íslandsbanka. Þetta er aukastarf og bitlingur, sem Alþingi hefir lögskipað, að forsætisráðherrann tæki við. Væri nú farið eftir því, sem danska þingið hefir fyrirskipað gagnvart dönsku ráðherrunum, þá myndi þessi bankaráðsformenska verða að teljast mjög vafasamt aukastarf. Þá hefir það komið fyrir hjá okkur, að einn ráðherra hefir gegnt 1½ ráðherraembætti og tekið hálfönnur ráðherralaun fyrir. Og þarf ekki að fara lengra aftur í tímann til þess að finna dæmið en til hv. 1. þm. Skagf. (MG). Hann gegndi 1½ ráðherraembætti í heilt ár síðast í ráðherratíð sinni og tók 1½ ráðherralaun. Jeg vænti nú, að hv. fyrirspyrjandi sjái, að slíkt hefir verið brot, hvort; heldur sem á það er litið frá peningalegu eða vinnulegu sjónarmiði. Hafi hann haft nóg að starfa sem atvmrh., þá var það ofþjökun á starfskröftum hans að láta hann vera dómsmrh. líka, og hafi hann getað lifað á þeim launum, sem hann fekk sem atvmrh., þá var það óþarfa eyðsla á landsfje að borga honum tvöfalt fyrir.

Þá má minna á það, að sá maður, sem á þessum tíma var fjmrh. og forsrh., var einnig í stjórn Eimskipafjelags Íslands og lagði með því á sig aukna vinnu, og tók líka aukaborgun fyrir. Hjer var því sömuleiðis um tvöfalt brot að ræða, a. m. k. eftir rökfærslu hv. fyrirspyrjanda (MJ).

Jeg skal nú ekki segja, hvort þetta er mikil vinna, en það er borgað starf. Og jeg veit ekki betur en að fyrv. fjmrh. (JÞ) hafi bæði tekið við peningunum og lagt á sig vinnuna. Hann hefir þá líka brotið á móti þeirri reglu, sem hv. þm. vill koma á.

Jeg skal þá víkja nokkuð að því, sem hv. þm. beindi til mín, hvort jeg geti lagt eða vilji leggja á mig þessa aukavinnu. Það er nú svo um mig, að jeg hefi altaf og mun altaf leggja á mig ýmiskonar aukavinnu. Jeg býst við því, að jeg og hv. þm. (MJ) eigum eftir að fara nokkrar fyrirlestraferðir út um land, eins og við höfum gert áður. Ennfremur skrifa jeg nokkrar greinar í blöð og tímarit og kenni fáeinar stundir á viku.

Í blöðum andstæðinganna er altaf verið að hæla mjer fyrir aukastörf og að jeg leggi fram ýmsan dugnað, sem jeg stundum á alls ekki til.

Þá kem jeg að þeim lið, sem jeg býst við að jeg hafi móðgað hv. þm. einna mest með.

Jeg hefi bitling, sem hefir kanske orðið til þess að jeg hefi gripið á óþægilegan hátt inn í bitlingaveiðar annara manna. Og jeg býst við, að það hafi kanske orðið orsök til þess, að hv. þm. bar fram þessa fyrirspurn, því að hann er óánægður, ef menn taka upp á því að vinna ýms störf án þess að taka fje fyrir. Og jeg get játað, að jeg hefi átt þátt í því að gera bitlingaveiðar síður eftirsóknarverðar en áður.

Jeg geri ráð fyrir því, þótt jeg verði í stjórn í sumar, að jeg verði á fundi dansk-íslensku lögjafnaðarnefndarinnar. En af starfi mínu í þeirri nefnd hefi jeg komist að raun um það, að ekki er ástæða til að borga sjerstakt kaup fyrir það starf, og ennfremur að óhætt er að ákveða ferðakostnað til Danmerkur helming eða þriðjung af því, sem áður var. Vinnan er lítil, en starfið eftirsótt og þykir heldur skemtilegt. Jeg hefi átt þátt í því, að í fjárlögum fyrir árið 1929 er ekki gert ráð fyrir neinni borgun fyrir starfið. Því að stjórnin hefir litið svo á, að rjett sje, að nefndarmenn vinni þetta verk fyrir ekki neitt, þegar fundir nefndarinnar eru haldnir hjer, en fái 1500 kr. hver í ferðakostnað, þegar farið er til Danmerkur. Þetta er töluverður sparnaður frá því, sem verið hefir, því að mjer er kunnugt um það, að menn hafa tekið 3 þús. og upp í 5 þús. kr. fyrir þetta undanfarið.

Í öðru lagi hefi jeg þá ánægju að vera samstarfsmaður hv. 1. þm. Reykv. (MJ) í bankaráði Landsbankans. Jeg hefi þegar skýrt frá því, að meðan jeg á sæti í stjórn, sje jeg ekki ástæðu til þess að taka laun fyrir starf mitt í bankaráðinu, og á það fje, sem jeg hefði átt að hafa að launum fyrir það, að renna í sjerstakan sjóð, sem verja á til tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins, sem jeg vona að hefjist eftir fá ár. Jeg býst nú við, að þótt hv. þm. (MJ) hafi ekki eins fjarstæðar hugmyndir um dugnað minn og íhaldsblöðin virðast hafa, þá sjái hann, að þessi aukastörf gera mig ekki auðugri og eru ekki starfskröftum mínum ofvaxin.

Þessi aðferð mín er ný í landinu, og jeg vona, að hún hafi þau áhrif, að menn fari að taka upp þá reglu, að taka ekki laun fyrir aukastörf, sem þeir vinna, ef þeir eru áður á launum hjá ríkissjóði.

Jeg get ekki stilt mig um að gruna hv. þm. (MJ) um að hafa aðra afstöðu í þessu máli. Því að þessi hv. þm. hefir þann leiða galla, að langa ákaflega mikið til að fá vel borgaðar auka-„sporslur“, og helst að hafa þær margar. En til þess að auka ekki úlfúð milli okkar, þá get jeg sagt það, að jeg hefi ekki gert þetta til þess að kasta skugga á hv. þm., og ef það hefir orðið, þá get jeg ekki gert að því. Jeg býst við, að ef hv. þm. athugar málið rólega, þá sjái hann, að það hefir altaf við gengist, að ráðherrar hefðu aukastörf, og þingið hefir meira að segja stundum skipað þeim það, svo sem er t. d. um setu hæstv. forsrh. í bankaráði Íslandsbanka, að þeir menn, sem hann hefir styrkt sem ráðh., hafa einnig haft aukastörf, og í þriðja lagi, að erlendis er það venja, að ráðherrar hafi aukastörf, ef þau geta samrýmst ráðherrastörfunum sjálfum.

En úr því að farið er að tala um þessa hluti, þá vona jeg, að það þyki ekki of langt farið frá efninu, þótt sagt sje frá því, að það hefir orðið nokkur breyting á hinu lögboðna aukastarfi forsrh. í Íslandsbanka. Frá því að Íslandsbanki byrjaði hefir það verið vani, að forsrh. færi í bankaráðinu með atkv. erlendu hluthafanna, svo að hann hefir verið þar margfaldur í roðinu. En nú hefir það hlálega skeð, að Danir treystu ekki núv. hæstv. forsrh. (TrÞ) eins vel og þeim fyrv. (JÞ), þar sem þeir hafa falið honum (núv. hv. 3. landsk.) að fara með það umboð. Jeg tel þetta mikinn heiður fyrir hæstv. forsrh., að Danir, í samræmi við skoðun hv. 1. þm. Reykv., hafa viljað hlífa honum við þessari aukavinnu.

Annars vil jeg undirstrika það, sem hæstv. fjmrh. (MK) sagði, að það hefir orðið ekki óverulegur sparnaður fyrir landið, að hann sagði ekki af sjer starfi sínu í bankaráði Íslandsbanka. Það varð m. a. til þess, að laun bankastjóranna lækkuðu allverulega. Einn þeirra hafði áður 40 þús. kr., og hinir 24–25 þús. í laun, en nú hafa þau verið lækkuð um 8 þús. kr. hjá hverjum. Og það hefði tekist að lækka þau enn þá meir, ef trúnaðarmaður Dana, hv. 3. landsk. (JÞ), hefði ekki spornað á móti því með atkv. sínu.

Jeg held því, að aukastörfin hafi ekki yfirstigið krafta ráðherranna, og það hefir sýnt sig, að það hefir frekar orðið til hagnaðar fyrir landið en til þess að auðga sjálfa þá, að þeir hafa gegnt þeim, og það mætti benda þeim. Sem elska um of þessa heims gæði, á að taka sjer fordæmi ráðh. til fyrirmyndar.