23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (2379)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er vegna ummæla hv. 1. þm. Reykv. (MJ) um gengisnefndina, sem jeg verð að taka hjer til máls. Jeg skal fyrst víkja að því, að hv. þm. lagði mikla áherslu á það, að hagsmunir atvinnuveganna væru svo ólíkir að því er snertir gengið, að þar hlyti að verða árekstur. Þetta er svo mikil vanþekking á eðli gengismálsins, að jeg vil hrósa happi yfir því, að gengismálið er ekki í höndum bankaráðs, þar sem þessi maður á sæti.

Allir atvinnuvegir, sem flytja einhverjar vörur úr landi, hafa auðvitað sömu hagsmuni, þegar um gengi er að ræða. Og jeg vil segja, að hinir atvinnuvegirnir, sem selja innanlands sína framleiðslu, hafi einnig sömu hagsmuna að gæta og hinir, sem út flytja, þar sem kaupgetan stendur í nánu sambandi við það, hvernig gengið er skráð.

En þetta var ekki aðalatriðið í því, sem jeg ætlaði að leiðrjetta hjá þessum í hv. þm. Hann sagði, að gengisnefndin væri orðin algerlega óþörf, þar sem búið sje að ráðstafa seðlaútgáfurjettinum og kjósa bankaráð, að því er mjer í skildist.

Nú vil jeg spyrja hv. þm., hvað bankaráðið hefir gert viðvíkjandi gengisskráningu á þessum tveim mánuðum, sem það hefir setið. Jeg þarf raunar, ekki að spyrja, því að jeg veit það, að bankaráðið hefir ekki skift sjer af gengisskráningu, enda væri það, eins og lög nú standa til, algerlega ólögmætt. Jeg efast þar að auki um það, að það myndi teljast til starfa bankaráðsins, að ákveða kaupverð erlendrar myntar, þó að engin gengisnefnd væri til. Jeg man ekki betur en að í Landsbankalögunum sje hvergi nefnd á nafn gengisskráning, þegar taldar eru upp skyldur bankaráðsins. Og jeg hygg, að Landsbankastjórnin líti þannig á, eftir því sem mjer hefir talast til við hana, að það sje á sínum tíma hennar verk, en ekki bankaráðsins, að ákveða það, við hvaða verði erlendur gjaldeyrir sje keyptur daglega.

En ef það hefði verið meiningin, að bankaráðið fengi í hendur gengisskráninguna, þá hefði auðvitað í fyrra, um leið og Landsbankalögin voru samin, átt að afnema gengisnefndina. En hæstv. fyrverandi stjórn, sem þessi hv. þm. studdi, kom með engar till. um það. Og nú er liðið langt fram á næsta þing, og enn þá er engin till. komin fram um að afnema gengisnefndina, ekki einu sinni frá þessum hv. þm. (MJ), sem telur nefndina algerlega gagnslausa og meiningarlausa. Jeg skil ekki í þessari vanrækslusynd hjá hv. þm. og þeim flokksmönnum hans, sem kunna að hafa sömu skoðun, að þeir skuli láta sitja þarna nefnd, sem er „gersamlega þýðingarlaus og sneydd öllu valdi“, eins og þeir segja. Nei, jeg hygg, að ástæðan til þessa, að lög um gengisnefnd og gjaldeyrisskráning hafi ekki verið afnumin, sje einmitt sú, að það sje þegjandi samkomulag milli flokkanna að taka þetta mál út úr og láta bankaráðið ekki fara með það þangað til búið er að festa eitthvað ákveðið verð gjaldeyris til frambúðar. Þessa ráðstöfun tel jeg fyrir mitt leyti mjög heppilega, og lögum samkvæmt er þetta mál líka tekið undan bankaráðinu, eða öllu heldur Landsbankastjórninni, þangað til lögin um gjaldeyrisskráningu eru feld úr gildi.

Auk þeirrar fullyrðingar hv. þm., að bankaráðið hefði í rauninni það vald, sem gengisnefndin hefir að lögum rjettum, þá gat hann þess, að gengisnefndin væri þýðingarlaus, ekki vegna þess einungis, að bankaráðið gæti annast hennar störf, heldur vegna hins, að gengisnefndin hefði engin tök á að framkvæma þá skráningu, sem hún tæki upp, gengisnefndin hefði engin tök á að sjá um, að gjaldeyrir væri fáanlegur með því verði, sem hún vildi skrá hann með. Það kann að vera, að hv. þm. trúi þessu, en honum er þá ekki fullkunnugt um, hvernig þetta hefir gengið undanfarið, og honum er alls ekki kunnugt um ákvæði gengisskráningarlaganna. Í lögunum um gengisskráning og gjaldeyrisnefnd stendur:

„Þegar nauðsyn krefur, getur nefndin, með samþykki fjármálaráðherra, krafist þess, að sjer verði afhentur erlendur gjaldeyrir, sem fengist hefir eftir að lögin öðlast gildi, til umráða handa bönkum og ríkissjóði“.

Hjer er sú heimild, sem gengisnefndin þarf til þess að koma fram sínum vilja; hún er svo víðtæk, sem þörfin heimtar. Ef nefndin hefir heimild til að krefjast þess, að sjer sje afhentur allur erlendur gjaldeyrir handa bönkum og ríkissjóði, þá hlýtur að felast í því heimild til að verja fje fyrir þennan gjaldeyri. Það getur ekki verið heimild til þess, að gengisnefndin megi taka allan gjaldeyri landsmanna án þess að borga grænan eyri fyrir. Í þessu liggur heimild til þess að taka á ríkið þá áhættu, sem af gjaldeyrisversluninni stafar, eftir að bankarnir hafa ef til vill neitað að kaupa og selja með því gengi, sem nefndin vill skrá.

Til þess að enn minni vafi leiki á þessu, skal jeg lesa upp ummæli Ágústs Flygenrings, þáv. 1. þm. G.-K., sem var frsm. þessara laga fyrir hönd fjhn., sem bar þau fram. Hann segir:

„Gjaldeyrisnefndarfrv. mælir svo fyrir, að nefnd, sem sett er yfir allan gjaldeyri landsins, sem kemur fyrir seldar vörur, skuli hafa óskoraðan ráðstöfunarrjett yfir öllu andvirði seldra afurða úr landinu“.

Það þýðir, að nefndin hafi óskorað vald yfir allri . . . . .*). (* Hjer vantar orð hjá skrifara.) Jeg veit ekki, hvað meira þarf til þess að geta fullnægt skráningu.

Jeg skal ennfremur lesa ummæli formanns. Íhaldsflokksins í sambandi við sama frv. Hann segir:

„Jeg tek undir það með hv. frsm. (ÁF), að æskilegast væri, að sem minst þyrfti að koma til þess, að þeim þvingunarráðstöfunum verði beitt, sem lögin heimila. Og jeg get sagt það, að því er til mín kemur, að jeg mun ekki vilja beita þeim, nema jeg álíti það nauðsynlegt vegna almenningshagsmuna“.

Jeg veit, að jeg má lýsa yfir því fyrir hönd núverandi stjórnar, að hún muni beita þeim ráðstöfunum, sem hjer er um að ræða, hvenær sem nauðsyn krefur vegna almenningsþarfa. Þarna er heimild, og þar mun ekkert skorta, hvorki hjá gjaldeyrisnefndarmönnum nje hæstv. stjórn, að beita henni.

Jeg þykist þá hafa sýnt fram á, að gjaldeyrisnefndin hefir verk að vinna, og að henni hafi verið gefinn sá máttur, sem þarf til þess að vinna það. — Skráning er vitanlega framkvæmd í samráði við bankana, og meðan þeir vilja kaupa og selja með því verði, sem gengisnefndin skráir, þá er ekki um neina deilu að ræða; en ef einhverntíma kæmi að því, að Landsbankinn neitaði að kaupa og selja með hinu skráða verði, þá myndi framkvæmdin auðvitað ekki breytast á annan hátt en þann, að ríkisstjórnin tæki á sig áhættuna fyrir hönd ríkissjóðs á gjaldeyrisversluninni. Bankarnir mundu eftir sem áður reka verslunina, en áhætta ríkissjóðs er, eins og allir kunnugir þessu máli vita, alls ekki mikil. Jeg orðlengi ekki um það frekar í þetta skifti að sýna fram á, að sú áhætta er svo lítilfjörleg; það þarf ekkert sjerstakt hugrekki hjá stjórn og gengisnefnd til þess að beita þeirri heimild, sem jeg hefi nú oftlega getið um.

Auk þessa hefir gengisnefndin það starf, sem hún mun framkvæma á næsta ári, að gera rökstuddar tillögur til stjórnarinnar um það, hvað gera skuli, og hvenær þeim ráðstöfunum verði beitt, sem hún leggur til.

Jeg skal að lokum lýsa yfir því fyrir mína hönd — og jeg vil óhætt segja fyrir hönd þess flokks, sem jeg er í — að hann telur heppilegast, að þetta hápólitíska mál sje í höndum alveg sjerstakrar nefndar, þangað til útkljáð er um framtíð okkar gjaldeyris. Sú nefnd hefir, hygg jeg, fullan vilja á því, að hennar starfstími verði sem allra stystur, þannig að skilyrðin verði sem allra fyrst góð fyrir því, að gjaldeyririnn verði festur í því gengi, sem hann er nú í, og að það gengi fái fyrir starf bankaráðs og bankastjórna að standa um langan aldur. En fyr en þeim þætti, sem nú stendur yfir í gjaldeyrismálinu, er lokið, fer þetta mál varla í hendur bankastjórnar eða bankaráðs eins saman.