23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (2380)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið meira. Jeg hefi fengið það fram, sem jeg ætlaði mjer að fá með fyrirspurninni.

Jeg veit ekki, hvers hæstv. ráðherrar hafa vænst. Þeir hafa kanske búist við öllu illu af mjer, úr því að jeg bar þessa spurningu fram; en minn tilgangur var ekki illur, heldur vildi jeg fá skýr svör við spurningu. Þeir hafa gefið þessi svör, hæstv. ráðherrar; og þó að fylgt hafi dálítið fleira, þá er það ekki nema eins og gerist og gengur og sakar ekki svo mjög. Það er tilraun til þess að skemta svolítið.

Hæstv. forsrh. þarf jeg svo sem engu að svara, af því að hann færði engin frekari rök heldur en áður fyrir því, hvernig þessi störf, sem hann hefir á hendi ásamt ráðherrastarfinu, geti samrýmst því starfi. Hann segist vilja vera eins og góðir stjórnendur á ýmsum tímum, með nefið niðri í öllu, og skal jeg játa, að slíkt er nauðsynlegt þeim, sem eiga landi að stjórna. En það er bara þetta, að honum er sem ráðherra sköpuð fullkomin aðstaða til þess að fylgjast með öllu, sem undir hann heyrir. En það sjá allir, hvar það mundi lenda, ef rökum hæstv. forsrh. væri fylgt út í æsar, ef hæstv. ráðherra ætti sjálfur að vinna öll störfin, til þess að fá að vita um þau. Hann hefir sem atvmrh. fulla heimild til þess að fylgjast með í öllu, sem Búnaðarfjelag Íslands gerir. Hann á að gera meira. Hann á að vera þar yfirmaður og halda mönnum til að gera það, sem þeir eiga að gera, og þar á meðal formanni Búnaðarfjelagsins. Það sjá allir, hvort það muni vera hentugasta eftirlitið, þegar maður á að líta eftir sjálfum sjer. Þetta getur vel gengið nokkurn tíma, að sami maður sje þannig undir- og yfirmaður sjálfs sín, en það dettur engum í hug, að það geti gilt til langframa, enda ætti þá að skipa svo með lögum. Og jeg get búist við, eftir því hve sterka áherslu hann lagði á þetta, að hann komi með lagabreytingu í þá átt, að ráðherra sje um leið formaður Búnaðarfjelagsins og í gengisnefnd o. s. frv.

Hann sagði svona hálfgert í gamni, að honum og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hefði komið saman um, að þeir hefðu fyllilega unnið fyrir sínu kaupi. Jeg vildi gjarnan vita, hvaða menn á landinu mundu fara að lýsa yfir því, að þeir hefðu ekki unnið fyrir sínu kaupi. (ÓTh: Jeg er reiðubúinn að sanna, það í ræðuformi). (Forseti hringir: Ekki samtal!). Jeg vildi bara segja það, að jeg skal ekkert hafa á móti því; en þó að þeir hefðu með einni ráðstöfun gert það, þá er ekki nauðsynlegt, að þeir sitji, eftir að nefndin er orðin óþörf, og eti upp árangurinn. (ÓTh: Við endumst aldrei til þess).

Til þess að hægt sje að ljúka málinu á fundartímanum, ætla jeg ekki að fara lengra út í þetta.

Hæstv. fjmrh. byrjaði með mjög spaugilegri samlíkingu, þar sem hann sagði, að jeg væri eins og maður nývaknaður eftir allfjöruga nótt. (Fjmrh. MK: Og með góðan ásetning). Jeg ætla ekki að fara að hæla mjer af því, að jeg sje mikill bindindismaður, en jeg hefi ekki enn þá haft þessa reynslu, að ganga með „móralska timburmenn“. Jeg skal ekki segja, hvort hæstv. ráðh. hefir gert það einhverntíma, en kunnuglega talaði hann um þetta. Annars tek jeg þetta helst sem meiningarlaust spaug.

Hæstv. fjmrh. svaraði svipað og hæstv. forsrh., að það væri nauðsynlegt, að ráðherra gæti fylgst sem best með í störfum bankans. Jeg svaraði því sama og hæstvirtum forsrh., að ráðh. hafi alla aðstöðu, sem þörf er á, til þess að fylgjast með í störfum bankans, án þess að vera í stjórn hans. Hann getur heimtað hvaða skýrslu sem er, enda eiga skýrslur frá Landsbankanum að vera lagðar fyrir með ákveðnu millibili. En hans eftirlit verður sterkara, ef það er ekki hann sjálfur, sem hann er að hafa eftirlit með. Það verður aldrei út skafið.

Hæstv. ráðh. sneri sjer að mjer og sagði, að ef óheppilegt væri, að „pólitík“ kæmist í bankana, þá ætti jeg að stinga hendinni í eigin barm. Jeg neita ekki, að jeg sje nú „pólitískur“ og að jeg sje nú í bankaráði Landsbankans. En jeg hefi enga aðra aðstöðu gagnvart Landsbankanum en að vera í bankaráði. Jeg finn að því, að hæstv. ráðh. (MK) hefir tvennskonar aðstöðu gagnvart bankanum, bæði sem hans fulltrúi og vörður og verndari í bankaráðinu, og einnig aðstöðu sem meðlimur í landsstjórn, sem stundum getur haft einhverra hagsmuna að gæta, sem beinlínis snerta bankann á óheppilegan hátt. Þetta er ekki svo að skilja, að jeg geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstjórn ætli bankanum neitt ilt.

Svo fór hann út í það, sem mjer fanst nokkuð mikil óþarfa áreitni, þar sem hann fór að telja upp gróðafyrirtæki, sem jeg tæki þátt í. Jeg forðaðist eins og heitan eldinn að minnast á þau störf, sem ráðherrarnir kynnu að hafa og ekki eru þess eðlis, að í bága komi við ráðherrastörfin. Jeg hefi ekkert kynt mjer, hvað þeir kunni að hafa af slíkum störfum, en jeg álít það alveg frjálst, þótt þeir ættu eitthvað við útgerð eða verslun t. d., svo framarlega sem þeir fælu öðrum að sjá um þau störf. Það væri skárra, ef kippa ætti ráðherrunum, sem eru stutta stund í embætti, út úr öllum öðrum störfum.

Þetta, sem hæstv. ráðh. kom með um mín aukastörf, er algerlega rangt. Það hefir verið borið fram í bók einni, að jeg eigi í togarafjelagi, og jeg hefi aldrei hirt um að mótmæla því. Jeg hefi aldrei átt í neinu togarafjelagi, en satt er það, að jeg átti eitt sinn hlut í mótorbát, sem gekk frá Ísafirði. Af útgerð að öðru leyti hefi jeg ekki haft annað en áhættuna og tapað miklu fje.

Ekki veit jeg, hver hefir skrökvað því, að jeg hefði umboð fyrir útlenda hljóðfæraverslun. Hjer liggur fyrir skýrsla um alla þá, sem jeg hefi pantað hljóðfæri fyrir, og hún hljóðar svo, að jeg hefi aldrei pantað hljóðfæri fyrir nokkurn mann. Þetta er líklega dregið af því, að jeg skrifaði eitt sinn fræðandi grein um hljóðfæri. Annars er jeg góður með að fara að reyna slíka umboðsmensku, og fæ jeg ekki skilið, að það komi þessu við, sem hjer er til umræðu hvort ráðherra eigi að gegna þeim opinberu stöðum, sem heyra undir hann sem ráðherra.

Hæstv. ráðh. sagði, að jeg væri miklu meina en meðalmaður, ef jeg gæti annað mínu kennarastarfi og öllum aukastörfum. Jeg veit, að kennarastarfið hefir liðið mikið við það, að jeg er við mörg önnur störf bundinn. Og jeg veit, að það eru mörg embætti, sjerstaklega í Reykjavík, sem líða við það, að menn þurfa vegna of lágra launa að vera út um hvippinn og hvappinn til þess að neta unnið sómasamlega fyrir sjer og sínum. En það er vitað, að annars er ómögulegt að komast af, með þeim lifnaðarháttum, sem menn hafa einu sinni vanið sig á, og reyndar eftir þeim kröfum, sem gerðar eru til þess, að embættismenn lifi. Þeir eru örfáir hjer í Reykjavík, sem komast af með laun sín ein. Er það atriði, sem þingið ætti beinlínis að athuga mjög vandlega: Hvað fær ríkið mikið af starfskröftum embættismanna sinna, með því að borga þeim eins og nú er gert?

Jeg skal ekki segja, hvort ráðherrar sjeu svo illa launaðir, að þeir þurfi þess vegna að hafa aukastörf. Það væri þá kanske helst afsökun. Og þeir eru of lágt launaðir, jeg veit það. — Annars eru þessi aukastörf ráðherranna alt annars eðlis en aukastörf mín, sem koma engan veginn í bága við aðra aðstöðu mína, þannig að jeg verði eftirlitsmaður með sjálfum mjer, eins og þeir, eða þess háttar.

Jeg er hræddur um, ef jeg ætti að fara að svara hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um gengismálið, að það gæti orðið nokkuð stórt mál. Jeg hjelt hálfvegis, þegar hann stóð upp úr sæti sínu, að hann myndi minnast á annað. Jeg mintist hans í annari ræðu, er hann var ekki við, og datt mjer í hug, að honum hefða verið flutt orð mín afbökuð, þannig að leggja hefði mátt út sem ódrengskap af minni hálfu. Ætla jeg því að taka upp það, sem jeg sagði, en það var í sambandi við tal hæstv. dómsmrh. (JJ) um bitlingasýki mína. Benti jeg á, að það væru fleiri en jeg, sem hefðu ýms aukastörf — sem jeg taldi hreint ekkert óheiðarlegt, ef menn gætu rækt þau — og þar á meðal einn besti maður úr hans flokki, sem er hv. þm. V.-Ísf. Var þetta engan veginn til ámælis sagt.

Hv. þm. (ÁÁ) færði rök fyrir því sama og hæstv. forsrh. mintist á, að allir atvinnuvegirnir hefðu sömu hagsmuna að gæta í gengismálinu. Er jeg því algerlega sammála að þessu leyti, að það hafa allir best af því, að gjaldeyririnn sje stöðugur, og þá sjerstaklega að hann haldist stöðugur í gullgengi. Hitt er það, sem menn greinir á um, hvort sje meiri skaði, úr því að sá skaði er skeður, að gjaldeyrir er fallinn, að hækka gjaldeyrinn, eftir því sem unt er, og láta atvinnuvegina taka á sig þann mikla þunga, sem því fylgir, eða aftur á móti að þola þau lánstraustsspjöll og vaxtaókjör, sem landið býr við um ófyrirsjáanlegan tíma, ef það spillir trausti sínu með stýfingu. Því að það er eina landið í álfunni, fyrir utan stríðslöndin, sem kemur ekki peningum sínum í gullgengi.

Jeg talaði við mann úr sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Hann þekti til allra lána, sem tekin voru á Norðurlöndum á seinni árum. Jeg spurði, hvers vegna löndin ættu að búa við svo mismunandi vaxtakjör; Svíar fá bestu lán, Norðmenn og við verðum að sumu leyti að sæta slæmum kjörum. Það fer alt eftir traustinu, sagði hann. Það eru nógir peningar til með afarlágum vöxtum, ef þjóðirnar hafa nóg lánstraust. (ÓTh: Já, Svíar stýfðu, og Norðmenn hækkuðu). Það er rjett, að Svíar stýfðu á öldinni sem leið, og þeir biðu þess heldur ekki bætur um langan tíma. En nú í þetta skifti voru Svíar fljótastir allra Norðurlandaþjóðanna að koma gjaldeyr í sínum í gullverð.

Jeg hefi bara dregið þetta fram til þess að sýna það, að hjer væri um skoðanamun einn að ræða, en ekki um varmenni annarsvegar og valmenni hinsvegar. Og ef allir atvinnuvegirnir eiga hjer sömu hagsmuna að gæta, hvers vegna var þá verið að leggja áherslu á að setja í gengisnefnd tvo harðvítuga fulltrúa fyrir þá atvinnuvegina, sem eru seljendur erlenda gjaldeyrisins? Hættan er einmitt sú, að það verði til þess, að þeir ráði mestu í nefndinni, sem vinna vilja að því, að sín stjett nái stundargróða af ráðstöfunum hennar. Að halda því fram, að skráningin sje mikilsvert atriði, er algerlega skakt. Því skráningin út af fyrir sig sýnir aðeins, hvar við stöndum. En hún verður ávalt að vera í samræmi við raunverulegt verð þeirra, sem með gjaldeyrinn versla, ef hún á að standast.

Mjer var vel kunnugt um það vald, sem gengisnefndinni var veitt. En þá stóð öðruvísi á. Þá var það lækkunin, sem menn óttuðust, og móti því voru þessar ráðstafanir stílaðar. En það má víst segja um þetta vald, sem gengisnefndinni var fengið í hendur, það sama og sagt var um byssuna, sem nota átti við Jökulsá, að „mannhætta var við það morðtól að fást, og mildi´, að þess þurfti' ekki við“.

En annars er þetta svo breiður grundvöllur til að halda uppi umræðum á, að jeg skal ekki fara lengra út í þá sálma. Jeg hefi fengið fullkomin svör við fyrirspurnum mínum. Jeg hefi fengið vissu fyrir þessum þrem aðalatriðum:

1. Ráðherrarnir hafa allir ýms aukastörf.

2. Þeir ætla að halda þeim áfram.

3. Þeim tekst ekki að sýna fram á það, að aukastörfin samrýmist ráðherrastörfunum, og þetta athæfi þeirra er því stórum vítavert.