17.03.1928
Efri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Mjer skildist svo, sem hv. 5. landsk. langaði til að vita eitthvað um, hvað stj. ætlaðist fyrir um landsspítalann. En enda þótt það mál heyri ekki undir mína deild, nema að því leyti, sem til fjárframlaganna kemur, þá vildi jeg samt upplýsa þetta að einhverju leyti. Er það þá fyrst, að jeg veit ekki betur en stj. líti svo á, að það sje sjálfsagður hlutur að fullgera þá aðalbyggingu, sem nú hefir verið reist, og að henni verði lokið snemma á árinu 1930, en til þess að það geti orðið, mun þurfa að leggja fram á þessu ári 150 þús. kr. til viðbótar því, sem veitt er í fjárlögum. Hvort það fje verður að taka að láni, er ekki hægt að segja um að svo komnu, en ef það verður nauðsynlegt, þá tel jeg stjórnina hafa heimild til þess.

Það er að sjálfsögðu margt og mikið ógert við spítala þennan, þó að aðalbyggingunni sje lokið. En að svo komnu mun stjórnin ekki telja sjer fært að reisa öll þau hús, sem nauðsynleg eru talin, svo sem starfsmannabústað, geymsluhús o. fl. En þegar þessari aðalbyggingu er lokið, mun sennilega ekki dragast lengi að koma upp þeim byggingum, sem þá vantar.

Jeg gat um áðan, að það myndi þurfa 150 þús. kr. á þessu ári umfram það, sem ætlað væri í gildandi fjárlögum. Hvort það, ásamt þeim 150 þús. kr., sem eru í frv. þessu til spítalans, nægir til þess að kaupa nauðsynlega innanstokksmuni, get jeg ekki sagt um að svo stöddu, en þó býst jeg frekar við, að hægt verði að kaupa þá að miklu leyti.

Skal jeg svo ekki fara út í mikið fleira að þessu sinni, enda þótt því hafi verið hreyft, að stjórninni bæri skylda til að láta ljúka þessu verki svo að segja í hasti, vegna samninga, sem um það hafa verið gerðir, því að jeg lít svo á, að það verði að fara eftir ástæðum, hve fljótt þetta verk er unnið. Og jeg tel það miklu skynsamlegra að leggja áherslu á að gera bygginguna sem best úr garði heldur en að hugsa um það eitt að flaustra henni af, og þá jafnvel á hroðvirknilegan hátt, aðeins til þess að fullnægja þessum samningi.

Jeg vænti nú, að þeir, sem hjer eiga hlut að máli, geri sig ásátta með þessa ráðstöfun, sem jeg hefi nú skýrt frá, því að jeg geri fastlega ráð fyrir, að ekki þurfi að vænta meiri fjárframlaga í bráðina en þeirra, sem jeg hefi hjer nefnt.