03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Reglur þær, sem nú gilda um innflutningsbann á vörum vegna gin- og klaufaveiki, eru bygðar á lögum um innflutningsbann á dýrum o. fl. frá 15. júní 1926.

Ríkisstj. hefir litið svo á, að þessi lög væru óhentug í framkvæmd og gætu tæpast gefið það öryggi, sem nauðsynlegt er í þessu efni. Þess vegna hefir hún nú lagt fyrir þingið frv. um breytta skipun um innflutningsbann vegna gin- og klaufaveiki.

Þetta frv. hefir landbn. nú haft til meðferðar, en ekki getað orðið ásátt um afgreiðslu þess.

Lögin frá 1926 heimila atvmrh. að banna innflutning á sóttnæmum vörum frá þeim löndum, er næmir húsdýrasjúkdómar geisa í. En í reyndinni mun framkvæmdin á þessu verða sú, að vörurnar verða aðallega bannaðar frá þeim löndum, sem næst okkur eru og við skiftum mest við. Vegna þess að það má næstum telja ókleift að telja upp öll þau lönd eða hjeruð, sem hætta getur stafað frá, þá getur afleiðingin orðið sú, að við getum átt á hættu að fá vörur frá langtum hættulegri löndum en þeim, sem bannið hvílir á. Eins og nú er ástatt, er hægt að flytja hingað vörur frá Eystrasalti og Rússlandi og öllum austur- og suðurhluta Evrópu, en þar er gin- og klaufaveikin í algleymingi. Af því að svo er ástatt, felst meiri hl. landbn. á, að rjett sje að gera nýja skipun um þetta. Hefir hann lagt stjfrv. til grundvallar, en gert á því nokkrar breytingar, sem þó að miklu leyti eru formsbreytingar.

Dálítill ágreiningur er innan meiri hl. um einstakar vörutegundir. Hefi jeg því borið fram sjerstakar brtt. í 4 stafliðum á þskj. 314. En jeg tek það fram, að jeg skil hv. meðnefndarmann minn í meiri hl., hv. 5. landsk. (JBald), svo, að hann sje mjer sammála um þá stefnu, sem kemur fram í brtt., og jafnvel 3 fyrstu stafliðina. Ágreiningurinn milli okkar er um vörurnar í d-lið. Vill hann ekki banna innflutning á sumum þeim vörum, sem þar eru taldar, svo sem kartöflum, mjólkurafurðum og eggjum.

Það vakir ekki fyrir mjer, að beinlínis verði tekið fyrir innflutning á þessum vörum algerlega. En jeg vil gera lögin svo úr garði, að þó að stjórnin geti annarsvegar veitt undanþágu um innflutning frá sumum löndum, sje hægt að koma í veg fyrir hann frá öðrum án þess að gera sjerstakar ráðstafanir. Stjórninni er innan handar samkv. till. mínum að leyfa innflutning frá löndum, sem ekki eru hættuleg. Jeg vil t. d. algerlega útiloka það, að hingað flytjist egg frá Rússlandi, kartöflur frá Póllandi o. s. frv. Hinsvegar játa jeg, að minni hætta stafar af þessum vörum frá Danmörku en ýmsum öðrum löndum. En sjeu þessar áðurnefndu 4 vörutegundir feldar út úr tillögum mínum, verður ekki komið í veg fyrir, að þær flytjist hingað frá þeim löndum, sem eru miklu hættulegri en nágrannalöndin.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara nákvæmlega út í hvern einstakan staflið í brtt. mínum. Í a-lið eru taldar vörur, sem ekki má veita neina undanþágu um. Í b- og c-lið eru vörur, sem veita má undanþágu um, ef ákveðin skilyrði eru fyrir hendi, annaðhvort að þær hafi verið sótthreinsaðar eða sjeu framleiddar með þeim hætti, að sótthætta sje útilokuð.

Hv. deild hefir auðvitað á sínu valdi, hvernig hún afgreiðir þetta mál. Jeg skal taka það fram, að þó að brtt. á þskj. 315 verði samþykt, mun jeg sætta mig við það og greiða atkv. með frv. eftir sem áður. En auðvitað teldi jeg heppilegra, að brtt. mínar næðu óbreyttar fram að ganga.