17.03.1928
Efri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

1. mál, fjárlög 1929

Ingibjörg H. Bjarnason:

Aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh. Jeg vil aðeins minna hæstv. stj. á, að samningur sá, sem vísað er til í fjárlagafrv., er að dómi allra lögfræðinga, sem jeg þekki, fullgildur samningur á milli ríkisstjórnarinnar annarsvegar og forstöðunefndar landsspítalasjóðs Íslands hinsvegar. Annars ætla jeg ekki nú að fara að hefja neina lögsókn á hendur hæstv. stjórn, en jeg vil minna hana á, að samkvæmt samningi þessum á að veita á þessu ári 200 þús. kr. til byggingar landsspítalans, og jeg trúi ekki fyr en jeg tek á, að stjórnin vilji fara að brigða samninga, sem að öllu leyti eru formlegir. Og satt að segja hjelt jeg, að engum skynsömum manni dytti í hug að vilja vera að dunda við byggingu þá, sem nú er búið að reisa, lengur en til 1930. Jeg verð að heyra fleiri rök en þau, sem nú hafa komið fram, til þess að jeg trúi, að slíkt sje í raun og veru hægt að rjettlæta. Hinsvegar veit jeg, að hæstv. fjmrh. hefir góðan hug á þessu máli, og því vona jeg, að till. sú, sem fram hefir komið í sameinuðu þingi, verði samþykt, og máli þessu verði þannig ráðið til lykta með sæmd og heiðri, svo allir megi vel við una. En að spítalinn geti komið að notum fyr en hann er fullgerður, er mjer með öllu óskiljanlegt.