03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Mjer skildist á hv. frsm. minni hl., að best væri að láta stj. bera sem mesta ábyrgð á þessu máli. En jeg held, að þó frv. og brtt. mín verði samþ., þá hafi stj. nóga ábyrgð að bera fyrir því, því vafalítið má það telja, að freklega verði leitað á stj. um innflutningsleyfi frá ýmsum löndum, en um leið og stj. veitir þau innflutningsleyfi, þá tekur hún á sig ábyrgð. Þá sagði hv. þm., að innflutningur á vörum, sem fluttar hefðu verið oft í kringum hnöttinn, með öðrum orðum komnar langan veg, væri eins hættulegur eins og á þeim vörum, sem væru komnar stutt að. En, eins og reyndar kom fram hjá hv. þm., þá er það óupplýst, hve lengi sóttkveikjurnar geta lifað á þeim vörum, er þær flytjast með. Við getum því hvorugur um þetta atriði dæmt. En dýralæknirinn hjer í Reykjavík telur hættuna því meiri, sem styttra er liðið frá því að snerting vörunnar við sóttkveikjuna átti sjer stað.

Mjer þótti hv. 3. landsk. taka nokkuð djúpt í árinni, er hann ljet í ljós það álit, að eftir þeim skilningi um undanþágur við 2. gr. Samkv. brtt. 314, sem jeg hjelt fram, þá gæti frv. ekki orðið að lögum, þar sem það bryti í bága við verslunarsamninga og alþjóðavenjur. Ef hv. þm. telur brtt. mína svona hættulega, þá var honum opin leið að koma með brtt. við hana, og það getur hann gert enn. Mjer skildist hv. þm. vera í vafa um það, hvort þessi brtt. mín felur í sjer undanþágu um a-lið till. Jeg skal því taka það skýrt fram, að í minni brtt. felst engin undanþága um a-liðinn.