06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jón Þorláksson:

Jeg vil taka það fram, að eins og 2. gr. frv. er orðuð, þá er hún ekki miðuð við það, að af innflutningi þeirra vörutegunda geti stafað gin- og klaufaveiki. Bönnin eru skilyrðislaus, og stj. er án heimildar til að undanskilja vörur upprunnar í og komnar í gegnum lönd, sem engin gin- og klaufaveiki hefir gert vart við sig í. Með þessu móti er frv. eiginlega komið út fyrir þann tilgang, sem fólst í stjfrv. eins og það var lagt fyrir þingið. Eftir því átti að banna innflutning á þeim vörum, sem að áliti stj. gat talist þörf á eða skynsamlegt að banna til þess að varna því, að gin- og klaufaveiki eða aðrir ámóta hættulegir alidýrasjúkdómar berist til landsins. En nú á að banna innflutning á vissum vörutegundum gersamlega, hvaðan svo sem þær koma, án tillits til þess, hvort um smithættu er að ræða frá því landi eða landshluta, er varan flytst úr. Sýnist mjer því innihald frv. ekki lengur svara til fyrirsagnar þess.