06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Halldór Steinsson:

Hæstv. atvmrh. og háttv. frsm. meiri hl. þótti báðum ummæli mín fara í bága við það, sem jeg sem læknir ætti að halda fram. Við það vil jeg ekki kannast. Jeg held því fram sem læknir, að ef við ætlum að verja okkur fyrir drepsótt, þá verði að gera ítarlegar ráðstafanir til þess, að sú drepsótt berist ekki inn í landið. En nú stendur svo á, að hjer er ekki um skæða drepsótt að ræða. Þessi umrædda veiki hefir gengið árum saman í nágrannalöndunum án þess að gera skaða hjer á landi, og það þótt engar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar gegn henni lengst af. Ef sýnt væri, að skæð pest geisaði ytra og hætta væri á, að hún bærist hingað á hverri stundu, þyrfti strangari ráðstafanir en þær, sem frv. setur. Eins og nú er, er það kák eitt út í loftið. Jeg sje ekki, hvað því er til fyrirstöðu að kippa út einni vörutegund, sem telst nauðsynlegri en aðrar, úr því komið er á annað borð út á þá braut. Ef á að útiloka t. d. einn hrepp frá drepsótt, þá verður að banna allar samgöngur við hann. Hjer eru svo margar undantekningar, að frv. getur ekki komið að tilætluðum notum.