09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi ekki blandað neinni flokkapólitík inn í þetta mál. Jeg nefndi atkvgr. í Ed. til þess að sýna, hvað eindregin skoðun kom fram. Jeg hefi ekki vissa von um nema tvo hv. þm. í Ed., sem eru okkur hv. þm. Borgf. fullkomlega sammála.

Jeg vil þá benda hv. þm. Borgf. á eitt atriði í þessu frv., sem okkur báðum hefði þótt mikilsvert í fyrra. Við munum báðir telja það allþýðingarmikið, hvort leyft væri að flytja hey til landsins. Það er ekki fyr en nú, að Ed. samþ., að sú vara skuli algerlega bönnuð og ekki undir neinum kringumstæðum leyfð undanþága. Annars hefðu Norðmenn sennilega getað bráðum heimtað að fá að flytja hey hingað. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði.

Annars tek jeg alls ekki á móti neinum ákúrum frá hv. þm. Borgf. í þessu máli. Jeg hefi tekið á mig þá ábyrgð að leggja á fastara bann en nokkurn tíma hefir verið lagt í þessu efni, þrátt fyrir þó að það kæmi í ljós, að önnur þd. væri algerlega á móti því. Og jeg verð að segja, að af öllum þeim stjórnarráðstöfunum, sem jeg hefi gert, þá mun frekast orka tvímælis um þessa, hvort jeg hafi mátt taka svo djúpt í árinni. En undir öllum kringumstæðum vildi jeg þó reyna það. Þess vegna álít jeg mjög rangt af hv. þm. Borgf. út frá þeim málstað, sem hann stendur fyrir, að beina ásökunum til mín í þessu máli.