09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jörundur Brynjólfsson:

Enda þótt jeg búist við, að máli þessu verði vísað í nefnd, sem jeg á sæti í, vil jeg láta þá skoðun mína í ljós þegar, að jeg tek undir ummæli hv. þm. Borgf., að jeg er alveg undrandi yfir því, hvernig hv. Ed. hefir skilist við þetta mál.

Þessi sýki hefir strádrepið fjenað manna í heilum hjeruðum, þar sem hún hefir geisað erlendis, og aðrar þjóðir hafa varið svo miljónum króna skiftir árl. til að verjast veikinni og til að bæta mönnum það efnatjón, sem þeir hafa liðið, og þó ekki ráðið neitt við neitt. Það er alveg einstakt, að nærri heil þingdeild skuli haga sjer svo gálauslega í sambandi við slíkt mál. Jeg get lofað því þegar, að jeg mun gera mitt ítrasta til þess að flytja till. í málinu í þessari hv. deild. Manni þýðir lítið að segja, að hv. Ed. beri ábyrgð á gerðum sínum. Sú ábyrgð, sem þeir hv. þm. kunna að vilja taka á meðferð þessa máls, hún mun reynast lítils verð, ef veikin berst hingað fyrir það, að fylstu varúðar er ekki gætt, og ef menn þurfa að drepa niður búfjenað sinn. En eigi að síður á skömmin að skella á þeim, sem skömmina á skilið, og það er hreint og beint gáleysi af hv. Nd., ef hún fyrir sitt leyti gengur ekki frá þessu máli svo sem hún hefir best tök á. Jeg tek undir það með hv. þm. Borgf., að það er hart, ef veiki þessi á að berast inn í landið með vörum, sem engin nauðsyn ber til að flytja inn í landið, ef það á að fara að leggja annan aðalatvinnuveg þjóðarinnar í bráða hættu fyrir slíkt.

Jeg vænti þess vegna, að þessi hv. deild hafi betri skilning á þessu máli en hv. Ed., og vildi jeg mjög gjarnan, að það kæmist til þeirrar hv. deildar aftur í þeim búningi, að henni gæfist kostur á að bæta fyrir sína yfirsjón. Og eftir því, sem fram kom í fyrra, þá er jeg ekki mjög hræddur um, að þessi hv. deild geri ekki þessi lög sæmilega úr garði.

Sú ljettúð, sem sýnir sig í því, að menn telja eftir sjer að vera án þessara vörutegunda, sem feldar eru úr frv. stjórnarinnar, hún er algerlega óforsvaranleg. Það er óforsvaranlegt, þegar þeim mönnum, sem mikið vald er fengið í hendur, ferst svo lítilmannlega í svo miklu máli, aðeins fyrir löngun til þess að geta satt munaðarfýsnir sínar og sælkeralöngun, og hreint ekkert annað.

Jeg held mjer sje óhætt að fullyrða og segja hv. þm. Borgf., að landbn. muni gera tilraun að bæta úr því, sem framið hefir verið. Jeg hefi ekki getað hlýtt á umræður um málið í Ed., en jeg vona, að hæstv. atvmrh. fylgi málinu með þeim krafti, sem hann getur, og leggi fast að þessari hv. deild að ganga vel frá frv.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar; síðar, þegar málið kemur til umr. í deildinni, verður tækifæri til að fara nánar út í málið og lýsa enn rækilegar en jeg hefi gert meðferð hv. Ed. á þessu frv. Og ef það skyldi reynast svo, að hún sýni eins mikið gáleysi í meðferð málsins hjer eftir eins og hingað til, þá óska jeg þess mjög, að sú háttv. deild hefði ekki vald til að setja lög. Jeg hefi áður greitt atkv. með till. um að minka vald hennar stórum, og jeg harma það nú, að sú till. komst ekki í gegn. Og manni getur dottið í hug, þegar hún hefir sýnt svo ófyrirgefanlegt gáleysi í slíku alvörumáli, hvort það væri ekki þarflegt að afnema hana með öllu.