09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Af því að jeg hefi aðeins rjett til þess að gera stutta athugasemd, verð jeg að hlaupa framhjá flestu í ræðu háttv. 1. þm. Reykv. Enda má vel vera, að síðar gefist tækifæri til þess að athuga hana nánar. Hann fór þannig á stað, háttv. þm., að sýnilegt er, að hann á enn eftir mikið ólært í þessu máli. Hann talaði um það brosandi og með mikilli ljettúð, og jeg sá, að orð hans fjellu í góðan jarðveg hjá sumum háttv. efrideildarmönnum, sem hjer eru staddir, einmitt þeim sömu mönnum, sem mest hafa reynt til þess að tefla úr höndum okkar öllum varúðarráðstöfunum í þessu máli.

Annars var það út af orðum hæstv. forsrh., að jeg kvaddi mjer hljóðs, til þess að gera þessa stuttu athugasemd. Hann virtist taka orð mín svo, að jeg væri að saka hann um tómlæti í þessu máli. Það gerði jeg ekki beinlínis. Jeg fann aðeins að því, að hann hefði ekki reifað málið þegar við upphaf þessarar umræðu, og vil jeg vona í lengstu lög, að það sje ekki fyrirboði neins afsláttar hjá honum í málinu. En við ráðstafanir hans á milli þinga hafði jeg ekkert að athuga, því að þær voru einmitt bygðar á því, sem við báðir álitum á síðasta þingi, að nauðsynlega þyrfti að gera til varnar því, að gin- og klaufaveiki gæti borist hingað til landsins.