09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jörundur Brynjólfsson:

Mjer var ekki ókunnugt áður um afstöðu háttv. 1. þm. Reykv. í þessu máli. Nú líkir hann því við rakarafrv., kallar það hjegómamál og smámál í byrjun ræðu sinnar, en kemst svo að þeirri niðurstöðu, að þetta sje alveg voðaleg veiki, og því stórhættulegt fyrir okkur, ef hún bærist hingað. Eina ráð til þess að verjast henni hafi verið að drepa skepnurnar niður. Jeg skil alls ekki samræmið í þessum hugsanagangi. Hann veit þó þau deili á veiki þessari, að útlit er fyrir, að ekkert dugi til þess að verjast útbreiðslu hennar, annað en að drepa skepnurnar niður, og samt kallar hann þetta hjegómamál. Jeg hefi aldrei heyrt annað eins regingáleysi viðhaft hjer á Alþingi sem þetta. Manni verður því á að halda að hann hugsi ekki neitt áður en hann talar, og að ganga út frá, að svo sje, held jeg að með því móti sje best farið með hv. þm.

Það er nú alls ekki svo, sem þessi hv. þm. heldur, að menn viti ekkert um veiki þessa. Þvert á móti rekja menn feril hennar og vita með vissu, að hún berst með ýmsum vörum. En að heyra svo röksemdafærslu hans í þessu máli; hún tekur út yfir öll önnur meistaraverk hans hjer á Alþingi, og eru þau þó mörg. Hann segir meðal annars, að sýklarnir geti ekki lifað nema stutta stund í smjöri. En jafnframt segir hann, að veikin sje svo voðaleg, að hún geti borist með fólki, aðeins ef það jeti smjör. Jeg vil nú spyrja, hvernig þetta fær skeð, ef sýklarnir lifa aðeins stutta stund í smjörinu. Annars var ekki þetta það versta; það var kæruleysið, ábyrgðarleysið og ljettúðin gagnvart þessu alvörumáli, sem jeg kunni verst við. Því eins og hann lýsti veiki þessari í sumum köflum ræðu sinnar, skyldi maður hafa ætlað, að hann hefði verið fús á að gera allar mögulegar varúðarráðstafanir, en þvert á móti kemur hann með dylgjur og brigsl um það, að hjer sje ekkert annað en grímuklætt verndartollafrumvarp á ferðinni. Slíkar aðdróttanir sem þessar eru alls ekki sæmilegar, þar sem hjer er um ekkert annað að ræða en bráðnauðsynlegar varúðarráðstafanir. Jeg mótmæli því harðlega þeirri staðleysu hjá þessum háttv. þm., að hjer sje um nokkra verndartolla að ræða. Þar með er jeg þó ekki að segja það, að ekki gæti verið rjett að taka upp verndartolla í sumum tilfellum, en það er alt annað mál en hjer er til umr. og kemur því ekkert við.

Að síðustu vildi þessi hv. þm. rjettlæta sínar fáránlegu skoðanir með því, að menn vissu bókstaflega ekkert, hvernig veiki þessi bærist. En eins og jeg hefi tekið fram áður, er þetta ekki rjett; menn vita, að hún berst með vörum, og það einmitt þeim vörum, sem bannaður var innflutningur á samkv. frv. stj.