09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Lárus Helgason:

Umr. um þetta mál eru þegar orðnar nokkuð langar; þess vegna skal jeg ekki orðlengja mikið.

Jeg held, að það sje algerður óþarfi fyrir hv. 1. þm. Reykv. að vera að tala um kjarkleysi landbn., og jafnframt sje það óþarfa ómak fyrir hann að vera að reyna að telja í hana kjark. Hún mun hafa fulla einurð til þess að bera fram þau mál, sem henni sýnast rjettmæt. Háttv. þm. ætti því ekki að vera að gera sjer óþarfa erfiði og tefja tímann hennar vegna í þessum tilgangi. Annars er nú búið að benda honum á, að hjer er hvorki um hjegómamál eða broslegt mál að ræða. Heldur er hjer um að ræða mikið alvörumál, já, svo mikið alvörumál, að jeg held, að alt þingið ætti að vera samhuga um að banna innflutning á öllum þeim vörum, sem hætta getur stafað af í þessu efni, og það því frekar, þar sem við getum framleitt mikið af þeim sjálfir.