22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hafði við 1. umr. þessa máls vikið nokkuð ítarlega að því, hvað jeg fann að afgreiðslu hv. Ed. á því; og þar sem hv. frsm. meiri hl. landbn. hefir nú bent nokkuð greinilega á nauðsyn þess, að það sje sem best frá því gengið af þingsins hálfu, þá geri jeg ekki ráð fyrir að þurfa að fjölyrða mikið um það nú.

Jeg hygg, að þeim mönnum, sem þekkja til, hver vágestur þessi veiki er, þar sem hún hefir komið upp, þeim sje ljóst, að okkur beri að sýna hina fylstu varfærni í þessu efni og gera þær ráðstafanir, sem við höfum tök á, til varna því, að veikin berist til landsins. Það, sem gerðist á síðastl. ári í Noregi, ætti að vera okkur ærin bending um það, hver hætta er hjer á ferð, ef veikin berst í landið. Það er í skemstu máli sagt tæpast hægt að vera öruggur um útrýmingu veikinnar á annan veg en þann að drepa niður fjenaðinn í því hjeraði, sem veikin kemur upp, og öllu því svæði, þar sem nokkrar minstu líkur eru til, að samganga hafi átt sjer stað, ekki einungis milli fjenaðar, heldur fólks einnig. Því að svo er ástatt um þessa veiki, að hún berst ekki síður með mönnum, sem hafa umgengist sýktan fjenað eða verið á þeim heimilum, þar sem veikin var. Þrátt fyrir það þótt Norðmenn tækju á þessu hinum hörðustu tökum og gerðu alt, sem þeim hugkvæmdist, til þess að útrýma veikinni, þá breiddist hún talsvert út; og það var lengi vel, sem þeir voru ekki vissir um, hvort þeir höfðu sigrað veikina eða ekki. Nú er talið, að veikin muni ekki vera í Noregi, en enginn veit þetta þó með vissu. Því að það er talið fullvíst, að veikin geti legið niðri um skeið og gosið svo upp, þegar minst varir.

Það er vitaskuld, að þegar taka þarf til svo víðtækra ráðstafana, að þær grípa inn í almennar venjur manna um viðskifti, þá sje ekki unt að gera það án þess að það valdi ýmsum óþægindum. En jeg held við getum gert þær ráðstafanir, sem hjer er farið fram á, okkur að meinfangalausu. Og vissulega valda þær landsmönnum engu fjártjóni. En mikil óþægindi og ógurlegt fjártjón mundu þær ráðstafanir hafa í för með sjer, sem grípa þyrfti til, ef stemma ætti stigu fyrir útbreiðslu veikinnar innanlands, ef hún næði að berast hingað til landsins.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að öruggasta ráðið til varnar því, að veikin berist til landsins, sje að banna innflutning á þeim hættulegustu vörutegundum, sem menn þekkja. Þetta er vitaskuld alveg rjett; en það er einmitt í þessu efni, sem mig greinir á við meðnefndarmenn mína. Jeg vil, að þær vörutegundir, sem taldar eru hættulegastar og við getum vel bjargast af án, sje stranglega bannað að flytja inn frá þeim löndum, þar sem má búast við, að veikin sje.

Þar sem um svona mikilvægt mál er að ræða, sýnist það ekki vera neitt vafamál, hvora leiðina menn eigi að velja í þessu efni, — þeir, sem annars láta sjer ant um allra þegna hag innan þessa þjóðfjelags. Jeg þori að fullyrða, og get leitt rök að því síðar, ef mjer sýnist þörf, að þau smáóþægindi, sem af þessum ráðstöfunum kunna að stafa, eru hjegóminn einber hjá því voðafjártjóni og þeim býsna óþægindum, sem þessi veiki mun baka þjóðinni, ef hún nær að breiðast út um sveitir landsins. Við höfum verið það lánssamir, að veikin hefir ekki hingað til borist til landsins, og það er skylda okkar að nota hv ert tækifæri til að standa á móti henni, eftir því sem við höfum frekast aðstöðu til.

Því hefir verið haldið fram, að í seinni tíð hafi lítið borið á veikinni í þeim löndum, sem við höfum aðallega viðskifti við. Það er að nokkru leyti rjett, að hún hefir ekki verið eins róttæk eins og hún var um skeið. En talsvert gerir hún þó vart við sig enn. Í skýrslu, sem jeg las nýlega frá Danmörku, man jeg ekki betur en fyrir hafi komið frá 22.–28. febr. síðastl. 34 sjúkdómstilfelli, og er það alls ekki lítið. Auk þess er það, sem jeg drap á áðan, að það getur enginn um sagt, hvenær veikin gýs upp, og það í mjög stórum stíl. Reynsla um marga tugi ára hefir bent á það, að veikin sje þessum öldugangi háð, liggi niðri um tíma, en gjósi svo upp á ný, og stundum hálfu verri en fyr. Jeg ætla það hafi verið í hitteðfyrra, heldur en í fyrra, sem þessi veiki varð afskaplega skæð í Danmörku, og í Englandi hefir hún undanfarið gert hinn mesta usla.

Jeg hefi því leyft mjer ásamt nokkrum hv. þm. að bera fram brtt. við þetta frv., að innflutningur verði bannaður með öllu á mjólkurafurðum, eggjum, káli og öðru grænmeti, og einnig kartöflum. Það, sem talið er undir þennan lið í frv., er ráðuneytinu heimilt að veita undanþágu með, ef það álítst hættulaust. En að því er snertir a-lið frv., þar sem við leggjum til, að bætt sje við mjólkurafurðum, eggjum, káli og öðru hraðvöxnu grænmeti, þá viljum við, að á vörum, sem taldar eru undir hann, sje algerlega bannaður innflutningur frá þeim löndum, sem líkur eru fyrir að sýkin geti borist frá. Þetta eru alt vörur, sem eru bráðhættulegar í þessum efnum, en vörur, sem við getum vel án verið, að fluttar sjeu til landsins, því að ekkert er auðveldara en gera ráðstafanir til þess að framleiða meira innanlands af þeim tegundum af vörum þessum, sem verst er án að vera, en það mun í þessu tilfelli vera egg.

Þá vil jeg geta þess til viðbótar við það, sem jeg hefi sagt, að ef þessi hv. deild hefir líka afgreiðslu á þessu máli og hv. efri deild, þá fæ jeg ekki sjeð, hvernig stj. ætti að geta gripið inn í og bannað innflutning á vörum frá þeim löndum, sem veikin kynni að gjósa upp í. Jeg held því, ef þessi deild sýnir sömu ljettúðina í afgreiðslu málsins og hv. Ed., þá sje ómögulegt fyrir stjórnina að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir gegn vágesti þessum, sem þó verður að teljast lífsspursmál fyrir þjóðina, þar sem hættan er svo mikil, sem vofir yfir öðrum aðalatvinnuvegi landsmanna, og það þeim atvinnuveginum, sem lengst af hefir verið tryggasta reipið henni til bjargræðis.