22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2569 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Gunnar Sigurðsson:

Enda þótt þegar hafi verið gerð allítarleg grein fyrir brtt. á þskj. 528, þá vil jeg þó ekki láta þetta mál fara í gegnum þessa hv. deild án þess að tala um það.

Jeg hefi sjerstakan áhuga á þessu máli og hefi þegar áður skift mjer af því, þar sem jeg í fyrra skrifaði grein um það í „Lögrjettu“. enda hefi jeg erlendis sjálfur sjeð, hvílíkur vágestur þessi veiki er. Jeg veit að ef hv. þm. vissu, hvílíkur vágestur þessi veiki mundi verða fyrir íslenskan landbúnað, ef hún bærist hingað, þar sem jafnvel má búast við því, að hún leggi landbúnaðinn að miklu leyti í auðn, þá mundu þeir ekki hika við að gera hinar ítrustu ráðstafanir til þess að hindra það, að hún bærist hingað. Og því meiri ástæða er til þess að fara varlega, þar sem menn vita enn mjög lítið um veikina, en hinsvegar er hjer mjög fátt um dýralækna. Menn vita, hvílíkt geysitjón varð af fjárkláðanum, en jeg fullyrði, að hann er leikur einn í samanburði við gin- og klaufaveikina.

Jeg sje ekki, að það yrði mjög mikið tjón fyrir þjóðfjelagið, þótt vörur þær, sem taldar eru á þskj. 528, yrðu bannaðar að meira eða minna leyti. Sumar þeirra væri jafnvel ástæða til að banna, þótt engin gin- og klaufaveiki væri. Mjer sýnist það t. d. hrein fjarstæða að vera að flytja inn hey, þegar nóg er af því í landinu sjálfu og mikil landsvæði liggja enn óræktuð. Það getur að vísu vel verið, að það verði tjón fyrir suma, að innflutningur á kartöflum verði bannaður, en jeg vil taka það fram, að það er einmitt sjerstök ástæða til þess að leggja mikið á sig til þess að losna við ginog klaufaveikina. Annars skal jeg geta þess, að jeg hefi oft sjeð það erlendis, að nautgripir ganga um í kálgörðum um það leyti, sem verið er að taka upp úr þeim á haustin. Jeg skil, að hv. 2. þm. Reykv. er hræddur um, að það verði til tjóns fyrir kjósendur sína, ef innflutningur á kartöflum yrði bannaður. En jeg vil beina því til hv. þm., að það mundi verða miklu betra fyrir verkamenn, ef þeim væri hjálpað til að koma sjer upp kartöflugörðum, svo að þeir þyrftu ekki að kaupa þessa nauðsynjavöru erlendis frá. Sumir hv. þm, hafa verið að tala um kostnað, sem mundi leiða af vörnum gegn veikinni, en jeg vil benda á, að sá kostnaður er smámunir einir miðað við það, sem það mundi kosta landið að útrýma gin- og klaufaveikinni, ef hún bærist hingað, og það ógurlega tjón, sem af því mundi leiða.