31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Páll Hermannsson):

Fjvn. hefir reynt að hraða störfum sínum, svo að afgreiðsla fjárlaga þyrfti ekki að tefja þingið að mun, og voru allir nefndarmenn samtaka um að styðja að þessu.

Fjárlögin voru lögð fram í þessari hv. deild þann 17. mars og þá afgreidd til nefndarinnar, og nú koma þau til

2. umr., svo að nefndin hefir haft þau til meðferðar í rjettan hálfan mánuð.

Nefndin hefir haldið alls 26 fundi. Enda þótt góð samvinna hafi verið í nefndinni, þá er eðlilegt, að komið hafi fyrir í einstökum tilfellum, að nefndin hafi ekki getað orðið sammála um þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið. Jeg skal geta þess, að sumstaðar í nál. er sagt, að „nefndin álíti“, þótt þar standi ekki öll nefndin óskift að. Það má og vel vera, að í framsögu minni tali jeg um nefndina og hennar ályktanir, þótt nefndin sje þar ekki öll sammála, en aðeins sje um að ræða meiri hl. hennar.

Eins og fjárlagafrv. liggur nú fyrir, er á því 665 þús. kr. tekjuhalli. Hv. Nd. breytti því í þetta horf frá því, sem það var frá stj. hendi. Það er vitanlegt, eins og bent er á í nál., að hv. Nd. gerði þetta með ráðnum hug og með það fyrir augum, að tekjuaukafrv. þau, sem fyrir þinginu liggja, mundu á sínum tíma jafna þennan halla að meira eða minna leyti.

Fjvn. þessarar deildar hefir nú tekið það ráð að bera ekki fram till. um tekjuhlið frv. að svo komnu, en lætur það bíða til 3. umr. með tilliti til þess, að þá má betur sjá, hvernig tekjuaukafrv. reiðir af í þinginu.

Það má segja, að nefndin hafi ekki gert neinar stórfeldar breytingar á frv. Hún kemur að vísu fram með nokkrar brtt., fáeinar til hækkunar, en fleiri til lækkunar. Verulegar breytingar á niðurstöðu frv. gera þó þessar breytingar ekki: þó nemur lækkun á útgjöldum samkvæmt þeim um 20 þús. kr.

Mun jeg þá gera stutta grein fyrir brtt. nefndarinnar eins og þær liggja fyrir. Jeg veit ekki, hvort jeg get lofað að vera stuttorður, því að jeg er óvanur þessu starfi, og er því ekki víst, að jeg geti þjappað saman efninu svo sem skyldi, þótt jeg muni gera mjer far um það.

1. brtt. nefndarinnar er við 12. gr. 3. 17. Að undanförnu hefir verið í fjárlögum sjerstakur liður til Ólafsfjarðarbúa, 2000 kr. Hefir þeim verið ætlaður þessi liður í því augnamiði, að þeir notuðu hann til að launa sjerstökum lækni, er þeir rjeðu til sín, þó með því skilyrði, að þeir legðu fram sjálfir 2600 kr. Nefndin vill nú lækka framlag Ólafsfjarðarbúa niður í 1600 kr. Undanfarið hefir sveitarfjelagið ekki getað notað þessa heimild sökum þess, hve framlag þess sjálfs til læknisins hefir átt að vera hátt. En nú stendur svo á, að hjeraðsbúar geta líklega fengið lækni til sín fyrir þá fjárupphæð, sem ríkissjóði er ætlað að leggja til, að viðbættum 1600 kr. frá sjálfum þeim. Telur nefndin sjálfsagt að gefa þeim kost á að njóta þessarar fjárveitingar, fyrst svona stendur á, og leggur því til, að framlag þeirra megi lækka um 1000 kr.

Við 12. gr. leggur nefndin til, að bætt verði 10 þús. kr. lokastyrk til byggingar Kristneshælis. Það hefir komið í ljós, að hælið kostaði fullgert ca. 531 þús. kr. alls. Helmingur þeirrar upphæðar er 265500 kr., en svo var til ætlast, að ríkissjóður legði fram helming af byggingarkostnaði hælisins. Nú hefir ríkissjóður aðeins lagt til 256 þús. kr., og vantar því nálægt 10 þús. kr. upp á tillag hans. Nefndin leggur því til, að þessi upphæð verði veitt, svo að staðið verði við það, sem ætlast var til, að ríkissjóður legði til hælisins, þ. e. legði fram helming byggingarkostnaðarins.

Þá er í 12. gr. 15. g. lagt til, að Jóni Kristjánssyni sjeu veittar 2000 kr. af því fje, sem veitt er til sóttvarna. Er þetta uppbót á tjóni, sem hann varð fyrir vegna sóttvarnaráðstafana og veikinda, sem voru á heimili hans árið 1924. Þessi veikindi voru skarlatssótt og taugaveiki. Jón rekur gistihús og ollu sóttvarnarráðstafanirnar honum miklu tjóni. Að því er hann sjálfur segir, nam beint tjón hans vegna veikindanna 7000 kr., og merkir menn á Akureyri hafa vottað, að þetta sje ekki of hátt metið. Veitingahúsið var í sóttkví 5 mánuði, og hefir bæjarstjórnin á Akureyri veitt 700 kr. styrk úr bæjarsjóði. Nefndin áleit rjett að hlaupa hjer undir bagga, og leggur því til, að þessi leið verði farin.

Þá leggur nefndin til, að við þessa gr. 15. k. komi nýr liður, þar sem Rauðakrossdeild Akureyrar eru ætlaðar 1000 kr. til hjálparstöðvar fyrir berklaveika, gegn jafnmiklu framlagi frá bæjarsjóði Akureyrar. Fjelagið sótti um 3000 kr., en nefndin sá sjer ekki fært að leggja til, að meira yrði veitt, en þá upphæð telur hún sjálfsagt að samþ., enda má benda á það, að Alþingi hefir viðurkent líka starfsemi hjá hjúkrunarfjelaginu Líkn í Reykjavík með því að veita því fjelagi 4000 kr. styrk.

Nefndin leggur til, að styrkurinn til Unnar Ólafsdóttur verði lækkaður úr 2000 kr. niður í 1500 kr. Þegar um svona ráðstafanir er að ræða, er altaf álitamál, hvað gera á. Þessi kona hefir í hyggju að leita sjer læknishjálpar erlendis við meini, sem hún getur ekki fengið lækningu á hjer. En það stendur svo á um marga, að þeir þyrftu styrk í þessu augnamiði, og það er oft tilviljun ein, hverjir sækja um styrk og fá hann. Eftir upplýsingum, sem lágu fyrir nefndinni, ætti upphæðin, 1500 kr., að vera helmingur alls kostnaðar.

Þá er það 13. gr. Nefndin leggur til, að fjárveitingin til Kjalarnesvegar verði lækkuð úr 20 þús. kr. niður í 10 þús. kr. Stjórnin lagði til, að veittar yrðu 10 þús. kr., en hækkunin kom fram við 3. umr. fjárlagafrv. í Nd. Nefndin leit svo á, að líkt stæði á með þennan veg og t. d. Þelamerkurveg og Hróarstunguveg, og leggur því til, að feld verði niður hækkunin, sem varð í Nd.

Við sömu grein hefir nefndin lagt til, að niður fjelli aths. undir B. II. 3.: „frá Dalsmynni til Fellsenda“. Þetta stafar af því, að nefndin vissi ekki, hvort byrjað væri á þessum vegi, en taldi óhætt að láta þá, sem ráða yfir vegamálunum, hafa óbundnar hendur í þessu efni. Leggur nefndin því til, að aths. falli niður.

Við 13. gr. hefir nefndin einnig lagt til, að feldur yrði niður 4000 kr. byggingarstyrkur til Páls Stefánssonar. Það er ekki fyrir það, að nefndin gæti ekki fallist á, að hjer væri um þarfan styrk að ræða, heldur vegna þess, að nefndin álítur, að svo fjarska víða sje þörf á jafnmiklum styrk og að þetta dæmi geti orðið til þess, að ekki væri fært, eða síður fært, að neita óskum annara manna, enda lítur nefndin svo á, að lánsheimildin í 23. gr. bæti allverulega úr þessari þörf.

Við 14. gr. hefir nefndin meðal annars lagt til, að lækkaður yrði styrkur til námsmanna erlendis. Styrkurinn til Árna Friðrikssonar á að lækka úr 1500 kr. niður í 1000 kr., og styrkir þeirra Bjarna Sigurðssonar og Markúsar Kristjánssonar að lækka úr 1200 kr. niður í 1000 kr. Þetta gerði nefndin til þess, að samræmi kæmist á við aðra námsmenn við erlenda háskóla, sem líka aðstöðu hafa. Nefndin lítur svo á, að þessa styrki til námsmanna beri ekki að skoða sem fasta styrki í fjárlögunum, og vill m. a. sýna þetta álit sitt með því að hafa þessa styrki lægri en hina lögákveðnu stúdentastyrki. Annars álítur nefndin það æskilegast, að þingið þurfi ekki að hafa þessi mál til meðferðar, ef hjá því yrði komist.

Þá leggur nefndin það til, að hækkuð verði fjárveiting til áhaldakaupa fyrir mentaskólann úr 1000 kr. upp í 1500 kr. Guðmundur kennari Bárðarson hefir skrifað þinginu um það, að skuggamyndavjel, sem skólinn hefir keypt, kæmi ekki að fullum notum, nema keypt yrðu viðbótaráhöld. Þess vegna lagði nefndin til, að þessi liður yrði hækkaður.

Einnig leggur nefndin til, að í þessari gr. komi við B. VIII. 2. nýr liður, um 4000 kr. fjárveitingu til steinsteypukenslu. Þessi liður er á öðrum stað í frv., svo að þetta er aðeins tilfærsla. Það er ætlast til, að þessi kensla fari fram við bænda- og unglingaskólana, og því er eðlilegra að hafa þetta þarna.

Nefndin leggur til, að hækkaður verði styrkurinn til Iðnaðarmannafjelagsjns á Akureyri úr 500 kr. upp í 1200 kr. Fjelagið sótti um 2500 kr. styrk. Það hefir komið upp góðu húsi og lagt mikið á sig til þess að geta haldið uppi iðnkenslu. Nefndinni þótti rjett að líta á þennan áhuga og taldi sanngjarnt, í samanburði við Iðnaðarmannafjelagið hjer í Reykjavík, að hækka liðinn.

Þá leggur nefndin til, að aftan við B. XIV. 3. komi nýr liður, um 3000 kr. styrkveitingu til Sigurðar Greipssonar. Hann er, eins og kunnugt er, einn af fremstu íþróttamönnum á Íslandi og hefir sýnt mikinn áhuga með skólastofnun sinni. Hann hefir bygt skólahús á bæ sínum, Haukadal, af mikilli ósjerplægni og varið til þess 12000 kr. af eigin fje. Heldur hann þar íþróttaskóla og kennir meðal annars sund og glímur; auk þess bóklegar námsgreinar, svo sem heilsufræði, reikning og íslensku. Hann hefir haft tólf nemendur í vetur. Skólahúsið er ekki fullgert og þyrfti viðbætur. Þær hefir hann í huga að gera, og þótti nefndinni því rjett að veita þennan styrk, í eitt skifti fyrir öll.

Þá vill nefndin lækka styrkinn til Staðarfellsskólans úr 4000 kr. niður í 3000 kr. Sú upphæð var í stjfrv., en hækkunin var gerð í Nd. Þetta má að vísu telja álitamál, en nefndin hyggur, að komast megi af með þetta að þessu sinni.

Einnig vill nefndin lækka styrkinn til kvenfjelagsins Óskar á Ísafirði um 1000 kr. Hann verður þá 4000 kr. og sá sami og í fyrra. Eftir atvikum fanst nefndinni, sem þetta ætti að nægja, þótt auðvitað megi segja um það eins og síðasta lið, að það sje álitamál. Eins leggur nefndin til, að aths., sem hefir fylgt þessum lið og er í fjárlagafrv., falli niður. Þykir nefndinni aths. óviðfeldin og vill, að hún sje numin burtu, en að fjárveitingin miðist eingöngu við kvenfjelagið Ósk og Ísafjörð.

Þá leggur nefndin til, að lækkaður verði styrkurinn til húsmæðrafræðslu í Vík úr 2500 kr. niður í 1500 kr. Þarna vildi nefndin hafa til samanburðar húsmæðrafræðsluna í Mjóanesi, og leggur því til, að veittar verði jafnar upphæðir á báða þessa staði.

Guðrún Björnsdóttir á Knararbergi í Eyjafirði hefir sótt um styrk til að halda upp húsmæðrafræðslu og garðyrkjukenslu á heimili sínu. Það er nýbýli í 5 km. fjarlægð frá Akureyri og reist með það fyrir augum, að þar yrði lítill skóli fyrir húsmæðraefni. Skólinn rúmar mest átta stúlkur. Þessi kona er vel þekt. Hún hefir stundað nám erlendis. Einnig hefir hún lengi unnið að garðrækt í gróðrarstöðinni á Akureyri. Líka veitt forstöðu kvennaskólanum á Blönduósi. Nefndin taldi konuna mjög vel færa til þessa starfs og leggur því til, að henni verði veittar 1200 kr.

Ýmsir menn hjer í Reykjavík hafa bundist samtökum um að gefa út íslensk fornrit í nýrri og vandaðri útgáfu. Framkvæmdir fyrir hönd þessara manna annast nú fimm manna nefnd. Skipa nefndina þeir: Jón Ásbjörnsson, Matthías Þórðarson, Ólafur Lárusson, Pjetur Halldórsson og Tryggvi Þórhallsson. Þeir hafa ritað Alþingi um málið, og er hugsun þeirra sú, að safna minst 25 þús. kr. með frjálsum samskotum áður en byrjað er á verkinu. Síðan á að gefa fornritin út í 30 arka bindum og láta koma 1–2 bindi á ári, svo að ritið ætti að koma alt út á hjer um bil 20 árum. Jeg held, að jeg fari rjett með, að bindin verði um 30. (Forsrh. TrÞ: 32). Já, rösk 30. Nefndin lítur svo á, að þetta sje þarft fyrirtæki. Útgáfan verður sennilega vandaðri og með betra skipulagi en þær, sem við höfum nú, auk þess sem margt af ritunum er ekki til eða að seljast upp. Ungdómurinn þarf á þessum bókum að halda, og raunar allir, og því leggur nefndin til, að veittar verði 150 krónur á hverja prentaða örk í styrk, alt að 5000 kr. Þess má geta, að Sigurður Nordal hefir umsjón með útgáfunni og að fyrstu tvö bindin koma út 1930.

Við 15. gr. hefir nefndin gert ýmsar breytingar. Er það þá fyrst, að hún leggur til, að styrkurinn til Páls Ísólfssonar verði lækkaður um 1000 kr., úr 2500 kr. niður í 1500 kr. Páll Ísólfsson sótti um þennan styrk til þess að geta veitt barnakennurum og orgelleikurum utan Reykjavíkur ókeypis kenslu í hljómfræði og söngstjórn í kirkjum og barnaskólum. Þetta er alveg nýtt, og nefndin taldi óvíst um hvað þátttakan yrði mikil, og vildi því hafa upphæðina lægri í þetta sinn, en svo má hækka hana eða lækka eftir því, sem reynslan leiðir í ljós, að rjett sje.

Einnig hefir nefndin borið fram tillögu um, að lækkaður verði styrkurinn til Hljómsveitar Reykjavíkur um 1000 kr. Til hljómsveitarinnar voru veittar 1800 kr. í fjárlögum. Það var síðan hækkað upp í 4000 kr. Hækkunin var að vísu æskileg, en þó þótt nefndinni rjett að færa styrkinn niður í 3000 kr. Þetta var líka gert með hliðsjón af því, að nefndin hefir bætt inn nýjum lið til Lúðrasveitar Reykjavíkur, en hún hafði sótt um 4000 kr. Nefnd sú, sem hefir með höndum undirbúning hátíðarinnar 1930, mælti með styrk til lúðrasveitarinnar, einkum í sambandi við þátttöku hennar í hátíðahöldunum. Nefndin rjeðist því í að leggja til, að henni yrðu veittar 1500 krónur.

Þá hefir nefndin lagt til, að liður 21. c. í 15. gr., til listaverkakaupa, falli niður. Þetta gerir nefndin af því, að nú liggur fyrir Alþingi frv. um menningarsjóð, og er ætlast til, að verulegur hluti af tekjum hans gangi einmitt til kaupa á listaverkum. Nefndin vildi hví, að þessi liður væri ekki í fjárlögunum, heldur yrði hann tekinn til greina í starfsemi hins fyrirhugaða menningarsjóðs. Sama er að segja um 30. lið 15. gr., um styrk til Guðmundar Bárðarsonar til náttúrufræðilegra starfa. Menningarsjóður á að verja nokkrum hluta af tekjum sínum til rannsóknar á náttúru landsins. Einnig leggur nefndin til, að niður falli styrkur til Guðmundar Kambans og Stefáns frá Hvítadal. Guðmundi Kamban eru í frv. ætlaðar 2400 kr. til þess að semja skáldrit frá 17. öld, en til Stefáns mun styrkurinn hafa verið skoðaður sem skáldaviðurkenning. — Það er talsvert álitamál, hvernig á að fara með slíka liði. Nefndinni fanst þetta heyra undir þann lið, sem ætlaður er skáldum og listamönnum, ef fært þykir að taka það upp þar.

Nefndin hefir lagt til, að liðurinn til sjera Jóhannesar L. L. Jóhannssonar verði ákveðinn 3000 kr. með verðstuðulsuppbót, eða alls 4200 kr. Um þennan lið geta að vísu verið skiftar skoðanir. Stjórnin hefir lagt til, að honum sjeu ætlaðar 1000 kr. sem eftirlaun, en hv. Nd. tók það ráð að færa þennan mann yfir á 15. gr. og ætlaði honum 6300 kr. með dýrtíðar uppbót. Fjvn. þessarar deildar vill svo fara þennan milliveg og væntir þess, að hv. deild geti fallist á það.

Nefndin hefir lækkað styrkinn til Björns Björnssonar úr 2000 kr. niður í 1500 kr. Þessi maður sótti um 2500 kr. til þess að fara utan og kynna sjer myndlist og listiðnað nágrannaþjóða. Nefndin fellst á, að hann eigi viðurkenningu skilið, en rjeðist samt í að lækka styrkinn um 500 kr. Hinsvegar leggur nefndin til, að inn komi nýr — liður við 15. gr. á eftir 48. lið, til Ólafs Hvanndals. Ólafur Hvanndal er hinn eini íslenski maður, sem kann að búa til myndamót. Það er kunnáttu hans að þakka, að hægt er að prenta myndir hjer án þess að fá mótin frá öðrum löndum, en hann kann þó ekki að búa til mót fyrir litmyndir. En slík myndagerð færist óðum í vöxt, og virðist því eðlilegt, að Ólafi Hvanndal sje gert kleift að bæta við sig þeirri kunnáttu.

Næsta tillaga er þess efnis, að upphæðin til Jóns Ófeigssonar, 2000 kr., sem sje fyrsta greiðsla af fjórum, falli niður. Það stendur svo á þessum lið, að frú Björg C. Þorláksson sótti um það til Alþingis, að Jóni Ófeigssyni yfirkennara væri veitt 10 þús. kr. uppbót vegna vinnu hans við orðabók Sigfúsar Blöndals, og sömuleiðis, að þingið veitti prentsmiðjunni Gutenberg 20 þús. kr. til þess að bæta henni upp tjón, sem hún telur sig hafa beðið við prentun orðabókarinnar. Mjer virtist, að þessir liðir væru í raun og veru báðir jafnrjettháir. En nú vildi svo til, að hv. Nd. samþykti liðinn til Jóns Ófeigssonar, en feldi hinn.

Nefndin var að vísu ekki sammála um, hvaða leið hún ætti að fara í þessu máli, en meiri hluti hennar rjeðist í að jafna þetta svo, að fella liðinn til Jóns Ófeigssonar.

Við 16. gr. 3. hefir nefndin gert þá brtt., að niður falli athugasemdin. Til sandgræðslu eru ætlaðar 40 þús. kr. Athugasemdin er á þessa leið: „Af upphæðinni skal verja 10000 kr. til byggingar í þarfir sandgræðslunnar í Gunnarsholti á Rangárvöllum.“ Nefndinni þótti eðlilegra að hafa þetta ekki svona fastákveðið, heldur fela það þeim á vald, sem um þetta mál fjalla, hvort þetta skuli gera eða ekki.

Þá hefir nefndin lagt til, að 4. liður 16. gr., til búnaðarfjelaga, falli niður. Þessi liður hefir að undanförnu staðið í fjárlögum. Svo stendur á um hann, að hann er nokkurskonar eftirstöðvar af hinu miklu hærra tillagi ríkissjóðs áður en jarðræktarlögin gengu í gildi og hefir verið ákveðinn búnaðarfjelögunum sjálfum til sinna sjerstöku þarfa. Nú hefir á þessu þingi verið ákveðið með lögum að stofna sjóð til verkfærakaupa fyrir búnaðarfjelögin með 20 þús. kr. framlagi á ári. Einnig er í jarðræktarlögunum ákveðið, að nokkur hluti, 5%, af jarðræktarstyrkjum einstakra manna skuli ganga til búnaðarfjelaga. Þess vegna vill nefndin láta þennan lið færast á þau gjöld, sem í frv. standa til gjalda samkvæmt jarðræktarlögunum. Sömuleiðis leggur nefndin til, að niður falli orðalagið „samkvæmt II. kafla jarðræktarlaganna“, Það verður að orða þetta „gjöld samkv. jarðræktarlögunum“. Með tilliti til þessa leggur nefndin til, að gjöld samkvæmt 2. kafla jarðræktarlaganna, sem voru 260 þús. kr., verði nú ákveðin gjöld samkvæmt jarðræktarlögunum, 275 þús. kr., eða 260 þús. kr. + þeim 15 þús. kr., sem frv. ætlar til búnaðarfjelaga.

Þá leggur nefndin til, að undir 16. gr. 23. lið komi nýr liður, til byggingar skjólgarðs í Krossavík á Hellissandi, 1/3 kostnaðar, alt að 5000 kr. Þarna var bygður garður 1922–1923. Hann hefir komið að miklu liði bátaútveginum á Sandi, en það hefir komið í ljós, að legan, sem þarna hefir myndast, liggur undir skemdum af því að inn rótast sandur og þari. Þessi viðbót er hugsuð með sjerstöku tilliti til varna við þeim skemdum, auk þess sem hægt er að gera leguna kyrrari og jafnvel stækka hana. Það lá fyrir nefndinni uppdráttur um þetta verk og áætlun, sem vitamálastjóri hefir látið gera, og hann mælir sjálfur eindregið með þessu. Nefndin leit svo að þetta væri mjög þarft fyrirtæki, og leggur því til að þessi viðbót verði veitt.

Nefndin leggur til, að niður falli styrkur til Sláturfjelags Suðurlands, til þess að koma upp niðursuðuverksmiðju í Reykjavík. Voru til þess ætlaðar í frv. 10 þús. kr. Í 22. gr. frv. er lánsheimild til sama fjelags í sama skyni fyrir 70 þús. kr. Nefndin leit svo á, að þetta stóra og tiltölulega vel setta fjelag mundi geta komið þessu fyrirtæki í framkvæmd án beins styrks fyrirfram, einkum þar sem það hafði fengið lánsheimildina.

Nefndin leggur til að sameina í eina upphæð þær 2 upphæðir, 6000 krónur, sem í frv. eru ætlaðar til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga, og 800 krónur, sem ætlaðar eru Guðmundi Jónssyni frá Mosdal til þess að halda uppi kenslu í heimilisiðnaði. Þessi upphæð er svo hækkuð upp í 7000 krónur, og er ætlast til, að hún gangi í einu lagi til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga. Geir Þormar, trjeskurðarmaður á Akureyri, hafði sótt um 1200 kr. til þess að halda uppi námsskeiðum og kenslu á Norður- og Austurlandi á sama hátt og Guðmundur frá Mosdal á Vesturlandi. Nefndin vill sameina þetta í eitt, en með það fyrir augum, að heimilisiðnaðarfjelögin hlutist til um, að Guðmundur frá Mosdal hjeldi uppi kenslu á Vesturlandi, en Geir Þormar á Norður- og Austurlandi. Svo ætlast nefndin til, að Samband íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga greiði þessum mönnum, eftir samkomulagi við þá, úr sínum sjóði.

Nefndin leggur til, að hækka skuli laun leiðbeinanda í húsagerð til sveita úr 4000 kr. upp í 4500 kr. Þetta er gert með hliðsjón af því, að þessi maður hefir unnið mjög þýðingarmikið starf utan síns heimilis. Hann getur lítil aukastörf stundað, en hefir fyrir stórri fjölskyldu að sjá og á alt hið besta skilið.

Í 16. gr. er 40. liður þannig: „Til Álftveringa, til þess að verja engjar í sveitinni fyrir spjöllum af jökulánni Skálm, 1500 kr.“ Þetta þótti nefndinni lauslegt og lagði því til, að á eftir „Skálm“ kæmi: 1/3 kostnaðar, alt að. — Nefndin vildi, að það kæmi skýrt fram, að ætlast væri til, að ríkið styrkti þessar varnir að 1/3, en þó alt að 1500 krónum.

Nefndin leggur til, að 45. liður 16. gr. falli niður. Hann er þess efnis, að Kristjáni Jónssyni í Auraseli verði veittur 500 kr. styrkur. Þetta má ekki skiljast svo, að nefndin álíti, að þessi maður eigi ekki alt gott skilið, heldur lítur nefndin svo á, að þetta skapi fordæmi, þannig að fjölda margir aðrir mundu geta komið til greina með alveg sama rjetti.

Nefndin leggur til, að 46. liður, um 20 þús. kr. til innflutnings á sauðnautum, falli niður. Um þennan lið er mikið álitamál, eins og ýmsa aðra. Nefndin taldi líklegt, að innflutningur á þessum villidýrum væri mjög kostnaðarsamur, en hinsvegar mjög tvísýnt, að hann kæmi að tilætluðum notum. Það þekkist hvergi, að þau sjeu tamin húsdýr, og er því hætt við, að þetta geti farið út um þúfur.

Einnig hefir nefndin lagt til, að 47. liður 16. gr. verði hækkaður úr 5000 kr. upp í 8000 kr. Nefndin ætlast til, að af þessari upphæð verði alt að 6500 kr. varið til flugnáms, og hafði nefndin þar beinlínis fyrir augum Eggert V. Briem. Þessi maður hefir síðasta ár stundað flugnám í Þýskalandi. Þar tók hann svokallað minna próf, sem gefur honum rjett til þess að stýra flugvjel, en engan rjett til þess að taka gjald fyrir að flytja farþega. Til þess að geta tekið meira próf, þarf hann enn að verja jafnmiklum tíma og jafnmiklu eða meira fje. Hann áætlar, og færir til þess mikil rök, að það nám kosti 13 þús. kr. Hann hefir fengið hina ágætustu vitnisburði fyrir áhuga, reglusemi og lægni í starfi sínu. Sjerstaklega er honum mjög sýnt um að fara með vjelar. Hann fær þann vitnisburð, að hann sje beinlínis einskonar hugvitsmaður í þessu starfi. Nefndinni þótti ekki ólíklegt, að eitthvað yrði fengist við flugferðir hjer, áður en langt um líður, og hví væri nauðsynlegt, að einhver innlendur maður hefði þá þekkingu til að bera, sem heimtuð er af flugmönnum. Leggur nefndin því til, að Eggerti Briem sjeu ætlaðar 6500 kr. af þessum 8000 krónum, og er það hjer um bil helmingur af tilkostnaði hans við námið.

Þá hefir nefndin bætt inn nýjum lið um styrk til Hjálpræðishersins, til þess að halda uppi gistihúsi á Seyðisfirði. Hjálpræðisherinn hefir nú eina gistihúsið, sem til er þar. Um nokkurt skeið var bærinn alveg gistihúslaus. Hjer er um mjög mikla þörf að ræða. Hjálpræðisherinn keypti hús árið 1922 mjög háu verði. Það hafði verið selt árið 1919 fullu verði, að því er menn hjeldu, en herinn varð þó að gefa fyrir það tvöfalda upphæð.

Þar sem ríkissjóður hefir veitt hernum hjálp til að koma upp gistihúsum í Reykjavík, Ísafirði og Hafnarfirði, þá þótti líka sanngjarnt að veita nokkuð til gistihúss hersins á Seyðisfirði. Að vísu var sótt um 5000 kr., en hæfilegt þótti að leggja til, að veittar væru 3000 kr.

Við 17. gr. fjárlagafrv. hefir fjvn. gert þá einu breytingu, að setja inn nýjan lið til alþjóðahjálparsambandsins (International Relief Union), 1000 kr. Þetta er alþjóðasamband, stofnað með það fyrir augum að veita meðlimum sínum hjálp, þegar stórkostleg slys eða hörmungar af völdum náttúrunnar ber að höndum. Það veitir t. d. styrk, þegar stórtjón verður af eldgosum, jarðskjálftum, sjávargangi, vatnsflóðum, eldsvoða o. fl. Einnig sjálfsagt vegna vandræða, er stafa af hafís og harðindum. Forsætisráðherra vísaði til nefndarinnar erindi, er til hans hafði borist um þetta fjelag. Leit nefndin svo á, að hið mesta gagn gæti af því orðið, ef ríkið gerðist meðlimur þessa fjelags. Árgjaldið er 700 svissnesk gullmörk, eða nálægt 1000 kr. íslenskum.

Við 18. gr. eru nokkrir nýir liðir og breytingar á öðrum. Fyrst er nýr liður til frú Aðalbjargar Sigurðardóttir. Er hún, eins og kunnugt er, nýlega orðin ekkja. Nefndin tók því upp styrk til hennar og leggur til, að henni verði veittar 1200 kr.

Þá er, samkv. tilmælum biskups og að mestu eftir hans tillögum, lagt til, að nokkur upphæð verði veitt tveimur prestum, er báðir láta af prestskap í vor. Eru það þeir sjera Jón Þorsteinsson á Möðruvöllum og sjera Jón Árnason á Bíldudal. Báðir eru aldraðir, efnalitlir og heilsubilaðir. Sjeu þessar upphæðir samþyktar, verða eftirlaun hins fyrnefnda 1200 kr., en hins síðarnefnda 1000 kr.

Þá er till. um 164.26 kr. til Guðríðar Ólafsdóttur, ekkju sjera Jóns Arasonar á Húsavík. Er það lagt til eftir tilmælum biskups, og miðast við 300 kr. eftirlaun alls.

Þá er og nýr liður, 1200 kr. til Jóhannesar yfirkennara Sigfússonar, sem nefndin vill mæla með. Jóhannes er nú 75 ára að aldri, með 45 ára kennarastörf að baki sjer. Verur þetta viðbót við lögmælt eftirlaun hans, er hann lætur af starfi. Þessi till. er hliðstæð við liðinn til Þorleifs Jónssonar póstmeistara, er Nd. tók upp í fjárlagafrv.

Þá er lagt til að lækka eftirlaun Friðriks Jónssonar pósts úr 450 kr. niður í 300 kr. Er það gert vegna samræmis við aðra pósta, sem fá þau eftirlaun.

Þá leggur nefndin til, að hækkuð verði fjárveitingin til dr. Helga Pjeturss úr 4 þús. kr. í 6 þús. kr. Dr. Helgi sótti um viðbótarstyrk til þingsins. Fjvn. þótti rjett að verða að nokkru við tilmælum þessa fluggáfaða, mentaða og merka vísindamanns. Upphæðin er miðuð við hámarkslaun prófessora háskólans.

Þá er nýr liður, 300 kr. til Jakobínu Jensdóttur á Siglufirði. Taldi nefndin líkt farið með hana og aðrar ljósmæður, sem að starfi enduðu njóta þessarar upphæðar.

Þá þótti, eftir atvikum, rjett að taka til greina umsókn frá tveimur efnalitlum mönnum, báðum á áttræðisaldri, enda báðir rækt störf sín ágætlega. Leggur nefndin til, að hvorum þessara manna, Jóhannesi Jörundssyni, hafnsögumanni í Hrísey, og Jóhannesi Þorkelssyni, fangaverði á Akureyri, sjeu veittar 300 kr.

Þá leggur nefndin til, að nokkrar breytingar verði gerðar á 22. gr. Er þá fyrst að hækka liðinn til frystihúsalána úr 100 þús. kr. upp í 250 þús. kr. Er það gert samkv. ósk hæstv. fjmrh. Gat hæstv. ráðh. þess jafnframt, að lánbeiðnir væru komnar frá þremur stöðum, Sauðárkróki. Blönduósi og Kópaskeri, til frystihúsabygginga. Ef verða skal við þeim tilmælum öllum, var nauðsynlegt að hækka þennan lið, enda má gera ráð fyrir fleiri samskonar lánbeiðnum.

Aðrar breytingar, sem nefndin leggur til, að gerðar sjeu við 22. gr., eru ýmist gerðar vegna samræmis um vaxtagreiðslur eða leiðrjettingar á greiðslumátanum, sem nefndinni þótti nauðsynlegt að gera, og skal jeg ekki fjölyrða frekar um það.

Jeg hefi þá farið nokkrum orðum., og líklega of mörgum, um störf og till. fjvn. Jeg ætlaði um leið að minnast á eina brtt., er jeg á einn á þskj. 642, en þar sem jeg hefi nú þreytt þolinmæði hv. deildar alllengi, mun jeg fresta því, þar til síðar.