22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að koma inn í þessar umr. Bæði var jeg teptur í Ed. og svo er málið þaulrætt frá undanförnum þingum. Langar ræður hafa því ekki mikið að segja; menn hafa þegar ráðið það við sig, hvernig þeir ætla að greiða atkv.

Jeg vil segja það út af brtt. 528 og till. landbn., að jeg er mjög ánægður með þær fyrir mig. Þær sýna, að jeg hefi þó haft allmikið þingfylgi á bak við þau innflutningsbönn, sem jeg hefi sett. Það hefði ekki verið þægilegt fyrir mig sem ráðherra, ef atkvgr. Ed. um málið hefði verið hið eina, sem frá þinginu kom. Jeg þakka þann eindregna stuðning við málstað minn, sem kemur fram í þessum tillögum. Þessar till., sem hjer eru fram komnar, sýna, að þegar jeg gaf út auglýsinguna í haust, hefi jeg haft að baki mjer fylgi margra harðsnúinna þm. í þessari deild.

Þessum till. ber það eitt á milli, að sú, sem er á þskj. 528, gengur miklu lengra. Og ef þessi deild væri ein, þyrfti ekki að spyrja að leikslokum. En eins og jeg gat um við 1. umr., hefir reynsla sýnt það hvað eftir annað, að Ed. er öðruvísi skipuð í þessu máli en Nd., og jeg get því ekki gert mjer vonir um, að þetta nái fram að ganga, þótt það gangi í gegnum þessa deild. Jeg vona, að málið komist fram, en jeg hefi enga von um, að Ed. gangi inn á brtt. 528. Enda verð jeg að játa, þótt jeg sje harðsnúinn í þessu máli, að brtt. Einars Árnasonar og landbn. er í fylsta samræmi við það, sem vísindin segja um, hvað langt skuli ganga.

Jeg vil þakka nefndinni og flm. brtt. 528 fyrir till., því að þær sýna, að það var ráðstöfun, sem þó hefir allmikið þingfylgi að baki, þegar jeg bannaði vörurnar í haust. Og jeg vil leggja áherslu á það, að málið fái afgreiðslu, því að frv. er undir öllum kringumstæðum til bóta, jafnvel eins og það kom frá Ed.

Hv. þm. Borgf., hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. Reykv. spurðu um það, hvernig stj. ætlaði að haga sjer í undanþágunum, ef til kæmi. Því er fljótsvarað, að farið verður eftir tillögum dýralæknis um það.